Kirkja og menning: Dauðinn á Torginu

11. október 2021

Kirkja og menning: Dauðinn á Torginu

Logar á líknardeild - ein mynda Hallgríms á sýningunni í Neskirkju - mynd: hsh

Torgið í Neskirkju er bjart og býr til fallega umgjörð um listsýningar sem ekki eru stórar um sig. Á sólríkum degi njóta listaverk sín þar afar vel. Svo var í gær þegar sýning Hallgríms Helgasonar, listamanns, var opnuð að lokinni guðsþjónustu sem var í umsjón sr. Skúla Sigurðar Ólafssonar, sóknarprests. Lára Bryndís Eggertsdóttir var við orgelið og kór kirkjunnar söng. 

Kirkjan.is ræddi við listamanninn og sagðist hann hafa verið um eitt ár að mála myndirnar og jafnframt líka verið að skrifa með. Þær snúast allar um eitt stef, dauða föður listamannsins, Helga Hallgrímssonar (1933-2020), fyrrum vegamálastjóra.

Hallgrímur segir að hann hafi málað myndirnar til að fást við dauðastríð föður síns og sorgina. Hann segist hafa verið heppinn að búa yfir þessum listræna hæfileika sem hafi hjálpað honum í þessum aðstæðum. Sýningin er því afar persónuleg og áhorfanda er hleypt inn að dánarbeði ókunnugs manns. Dauðinn er á vissan hátt í nútímanum einkamál fjölskyldunnar sem er við það að missa einhvern nákominn. Þessar myndir mætti því kalla á vissan hátt sjálfssálusorgun

Myndirnar eru allar svipaðar að stærð nema hvað ein þeirra er þeirra stærst og máluð degi áður en faðir listamannsins lést. Hún sýnir hann liggja í sjúkrarúmi. Þær eru akrýlverk, málaðar á striga. Öll nöfn þeirra tengjast viðfangsefninu.

Dauðinn er yfir og allt um kring. Sterkar myndir af honum í margvíslegum aðstæðum. Með fólki, hjá fólki eða þá aldrei langt undan. Segja má að flestar myndanna sýni hryggðarmynd dauðans og máttleysi mannsins andspænis honum. Hann er nöturleg staðreynd í myndum listamannsins, dreginn fram miskunnarlaust og ekkert skafið utan af honum. Dauðinn er ófrýnilegur á þessum myndum og aðgangsharður en raunsær. Margir sem setið hafa við dánarbeð kannast eflaust við sitthvað í verkunum og geta samsamað sig skynjun listamannsins.

Sýningin dregur fram í raun fjölbreytileika dauðans og birtingarmyndir hans sem geta verið ólíkar frá einni stund til annarrar.

Dauðinn er að mörgu leyti tabú í samfélaginu. Líka dauðastríðið. Tabú vegna þess að manneskjan ræður illa við þessa tilhugsun að hætta að lifa, að vera ekki til, hverfa á braut.

Hvers vegna hafði ég málað föður minn á viðkvæmasta augnabliki lífs hans? Líklega vegna þess að þetta var viðkvæmasta augnablik lífs hans. Þannig hafði ég aldrei séð hann áður, fullkomlega varnarlausan, og þannig myndi ég aldrei sjá hann aftur, því að því loknu var hann allur. Dauðinn hefur alltaf haft mikið aðdráttarafl á listamenn, eins og dæmin sanna, og ekki síst þetta augnablik, þegar lífið horfist í augu við þrjótinn þann sem heggur. (Hallgrímur Helgason, úr sýningarskrá, sýningin er til minningar um föður hans).

Yfirskrift sýningarinnar er að það þurfi að kenna fólki að deyja. Það er eflaust eitthvað hæft í því að svo miklu leyti sem það er hægt. Trú og siðferðiskenningar taka á dauðanum með ýmsum hætti, veita skýringar innan sinna marka. Kristin trú hefur fólgna í sér huggun og von andspænis dauðanum, von um upprisu. Myndir Hallgríms endurspegla ekki neina slíka von – eiga kannski ekki að gera það – heldur fást eingöngu við aðsókn dauðans með veraldlegum hætti og umkomuleysi fólks í námunda við hann sem staðreynd í lífinu. Það getur verið erfitt að kyngja henni og sérstaklega ef á í hlut ungt fólk í blóma lífsins.

En myndirnar geta verið uppspretta umræðna um dauðann og kaldan hramm hans. Hvernig bregst nútímamaðurinn við honum? Hvernig á hann að þora að tala um hann? Það væri gráupplagt fyrir Neskirkju að efna til námskeiða inni á Torginu og fjalla um dauðann og birtingarmyndir hans. Spyrja fólk hvort eitthvað vanti upp á myndirnar? Hvort þær séu raunsæjar? Fá ýmsa til að lýsa viðhorfi sínu til dauðans og hvernig sé að lifa með honum sem óvelkomnum framtíðargesti - eða hvort hægt sé að taka undir með skáldinu sem segir um hann: „Kom þú sæll, þá þú vilt.“ Fleira mætti prjóna við það.

Sýningin er sterk og áhrifarík, myndirnar eru raunsæjar og stíllinn minnir á köflum á teiknimyndir, listamaðurinn gengur djarflega á hólm við verk sitt. Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að leggja leið sína í Neskirkju og sjá sýninguna um leið og farið er í guðsþjónustu.

hsh

 


Hallgrímur Helgason við nokkur verka sinna