Með skýrum friðarboðskap

11. mars 2022

Með skýrum friðarboðskap

beðið fyrir friði í Úkraínu/mynd: Church of Scotland

Í liðinni viku hafa margir viðburðir átt sér stað í kirkjum landsins sem tengjast ástandi heimsmála eins og fjallað hefur verið um hér. 
Ekkert lát verður á og nú um helgina verður beðið fyrir friði í kirkjum landsins vegna stríðsátaka í Úkraínu. Forseti Íslands mun ásamt formanni félags Úkraínumanna á Íslandi flytja ávarp í samstöðumessu Dómkirkjunnar á sunnudag.

Líkt og komið hefur fram í hugvekju biskups nær ástand heimsmála sem fyrr inn í þann veruleika sem kirkjan bregst við, meðal annars með fulltingi Hjálparstarfs kirkjunnar og á þeim vettvangi sem samkirkjuleg mál heyra undir. Þjóðkirkjan vill sýna öllum þeim sem líða samstöðu, þeim sem trúa og vona og biðja fyrir friði, jafnt sem þeim sem eru á flótta og þeim sem leita skjóls í öryggi hefða og siða sem tilheyra kristnum trúararfi.

Afstöðuleysi Kýrils Patríarka gagnvart stríðsrekstri rússneskra stjórnvalda er áhyggjuefni vegna alls hins góða starfs sem unnið er á vegum Alkirkjuráðsins og Evrópska kirkjuráðsins þar sem kirkjudeildir heimsins hafa unnið saman að einingu og friði. Því má ætla að mikilvægi alls samkirkjulegs starfs verði enn greinilegra á komandi misserum þar sem flóttafólk frá bæði Úkraínu og Rússlandi mun þurfa stuðning víðara samfélags kristins fólks til að iðka trú sína á nýjum stöðum.  Hugleiðingu frá sóknarpresti Dómkirkjunnar má finna hér. 

 

Samstöðumessa í Dómkirkjunni

Samstöðumessa með Úkraínu verður í Dómkirkjunni sunnudaginn 13. mars en þar munu formaður félags Úkraínumanna á Íslandi, Lyubomyra Petruk og Forseti Íslands, Guðni Th.Jóhannesson, flytja ávörp.

Þar er komið saman, eins og í öllum kirkjum landsins, til að biðja fyrir friði.
Í messunni verður flutt úkraínsk tónlist en sálmur 52 í sálmabókinni er eftir úkraínst tónskáld, Dimitri Bortnianskij. Bænasvarið kyrie er frá úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni, Kórinn flytur úkraínska þjóðlagið Hljóðnar nú haustblær í útsetningu Magnúsar Ragnarssonar en ljóðið er eftir Sigríði I Þorgeirsdóttur. Eftirspilið verður úkraínski þjóðsöngurinn.

Organisti er Douglas Brotchie og stjórnar hann jafnframt Dómkórnum.

 

Að lokinni messu í Dómkirkjunni mun Guðni síðan bregða sér yfir í Kolaportið - eins og honum er einum lagið - og flytja ávarp fyrir söfnuðinn sem þar kemur saman. 

Þar verður bæði beðið fyrir friði og spilað bingó - því öll verðum við jú einnig að myndast við að halda í gleðina. 

Gæti verið mynd af 4 manns og Texti þar sem stendur "-Coffee Hafnarkaffia SnackBar Coffee & BJÃDKIRKJAN Sunnudaginn 13. mars kl. 14:00 FORSETAHEIMSÓKN i KOLAPORTIĐ KI. 15:00 hefst BROS-BINGÓ salnum Forseti Íslands byrjar leikinn Sunnudaginn 13. mars kl. 14 mun herra Guáni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, halda ávarp í Kolaportsmessu. Guárún Árny Karlsdóttir flytur óskalög fyrir messu. Sr. Bjarni Karlsson leiÅir guáspjónustuna."

amf/

 

  • Kærleiksþjónusta

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Alþjóðastarf