Núvitundaríhugun, þriðji hluti: Innri líðan

Núvitundaríhugun, þriðji hluti: Innri líðan

Í dag ætlum við að einbeita okkur að þremur svæðum líkamans sem oft kalla á athygli okkar vegna þess að þar virðast erfiðar tilfinningar setjast að eða koma fram. Kvíði, áhyggjur og streita koma oft fram í sálvefrænum einkennum, sömuleiðis vanmetakennd, skömm og sektarkennd, svo eitthvað sé nefnt.
Mynd

Streymi frá núvitundarstund 3 í Grensáskirkju

Í fyrsta núvitundarstreyminu okkar fyrir tveimur vikum æfðum við okkur í að vera til staðar í líkama okkar með því að beina athyglinni að litlu svæði líkamans í einu. Þetta er kallað að skanna líkamann eða líkams-skönnun og hjálpar okkur að bæta líkamsvitundina. Við hér í núvitundarhópnum í Grensáskirkju notum líka stundum orðasambandið að kanna líkamann, líkams-könnun, því það er það sem við gerum, förum í könnunarleiðangur um skynjanir líkamans. Við veittum andardrættinum athygli og nokkra ritningarstaði sem tengjast lífsandanum, gjöf Guðs. Í öðru núvitundarstreyminu beindum við athyglinni sérstaklega að höfðinu og öllu því sem þar er að finna. Við lásum líka saman orð Biblíunnar um Guð sem er: Ég er sá sem ég er, segir Guð við Móse, og Jesús notar iðulega orðin Ég er um sjálfan sig, einkum í Jóhannesarguðspjalli.

Í dag, á okkar þriðju núvitundarstund í beinu streymi frá Grensáskirkju, ætlum við að einbeita okkur að þremur svæðum líkamans sem oft kalla á athygli okkar vegna þess að þar virðast erfiðar tilfinningar setjast að eða koma fram. Kvíði, áhyggjur og streita koma oft fram í sálvefrænum einkennum, sömuleiðis vanmetakennd, skömm og sektarkennd, svo eitthvað sé nefnt. Áður en við leggjum af stað í þennan leiðangur um líkama, huga og tilfinningar, sál og anda, skulum við koma okkur fyrir þannig að það fari hæfilega vel um okkur og hringja síðan stundina inn.

Við sitjum með iljar í gólfi og hendur í skauti. Sleppum tökunum á því sem var og verður og leyfum okkur að vera hér og nú, í þessu rými, á þessum stað.

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Ég er – ég er hér

Víða í Biblíunni er vísað í innri líffæri, einkum nýru og hjarta, sem mynd innra lífs, okkar innsta kjarna. Þannig segir til dæmis í Davíðssálmi 26.2-3:

Rannsaka mig, Drottinn, og reyn mig,
prófa nýru mín og hjarta.
Því að ég hef gæsku þína fyrir augum
og geng í trausti til þín.

Í Orðskviðunum (23.15-16) segir: „Þá gleðst ég í hjarta mínu og nýru mín fagna“.

Þannig eru hugsanir, tilfinningar og líkamlegar skynjanir nátengdar. Í núvitund getum við rannsakað þessi tengsl með því að veita þeim athygli af forvitni, án þess að dæma, án þess að greina, heldur viðurkenna, skoða, virða fyrir okkur eigin líðan. Beinum innri augum okkar að þremur stöðum líkamans sem oft gefa til kynna einhvers konar vanlíðan.

Byrjum í kviðnum, svæðinu í kring um naflann. Þar birtist kvíði oft sem seyðingur eða hitatilfinning, jafnvel meltingartruflanir. Við könnumst sjálfsagt öll við að vera með það sem við köllum hnút í maganum. Nú skulum við veita þessu svæði sérstaka athygli. Hvaða skynjanir finnum við? Ef við finnum eitthvað sem bendir til kvíða eða spennu veitum við því blíðlega athygli. Já, einmitt, þarna eru óþægindi, gætum við sagt við okkur sjálf. Við dæmum ekki, leitum ekki orsaka, heldur nálgumst líðan okkar með umhyggju og forvitni. Ef til vill slaknar á spennunni, kannski mýkist hnúturinn í maganum. Kannski ekki. Það er þá allt í lagi. Við drögum andann aðeins dýpra, vel niður í kviðarholið, alveg aftur í bak og sleppum síðan tökunum á þessu svæði.

Næst færum við athyglina upp í brjóstholið. Stundum finnum við þyngsli fyrir brjóstinu og okkur finnst jafnvel að við náum ekki andanum. Slík líðan getur stafað af streitu og tengist oft áföllum. Könnum þetta svæði. Skynjum  andardráttinn allan hringinn, gáum hvort rifbeinin þenjist út við innöndun og dragist saman við útöndun. Finnum það sem er, samþykkjum það, leyfum því að vera eða fara. Við þurfum engu að breyta, bara vera og skoða.

Loks flytjum við athyglina upp í háls. Hvað finnum við þar? Gamalkunni kökkurinn í hálsinum er ein birtingarmynd viðbragða líkamans við streitu. Tökum við eftir einhverjum herpingi eða fær andardrátturinn að flæða frjálst í gegn um hálsinn? Hvort sem er, eða hvað sem við skynjum, þá leyfum við því að vera það sem það er. Þegar við viðurkennum líðan okkar með umhyggju mildast hún oft eins og af sjálfu sér. „Þá gleðst ég í hjarta mínu og nýru mín fagna“.

Ljúkum stundinni með játningunni okkar og síðan heyrum við ljúfan orgelleik.

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér

Ég er – Ég er hér                                                                                       

Þríeinn Guð, upphaf þitt, lausnari og græðari,  blessi þig og varðveiti á þessari stundu og um ókomna tíð. Góðar stundir.