Innlifunaríhugun 1 í streymi frá Grensáskirkju 14.4.20: Á göngu með Jesú
Við erum stödd í páskavikunni en svo nefnist vikan sem hefst með páskadegi. Hún er líka kölluð hvítavika. Gleðidagarnir eru nýhafnir en þeir standa yfir allt fram að hvítasunnu, gleðidagar þar sem við lifum í nánd okkar upprisna frelsara.
Í dag íhugum við saman guðspjall annars páskadags sem er að finna í Lúkasarguðspjalli 24. kafla. Við lesum valda hluta frásagnarinnar og beitum svokallaðri Ignatíusaraðferð. Hún er leið til þess að virkja okkar innri sýn og skynjun, að lesa um það sem gerist í guðspjöllunum eins og það væri að gerast núna. Við leitumst við að vera viðstödd það sem sagt er og gert; við sjáum, heyrum, finnum ilm og snertingu eins og við værum þarna á staðnum með Jesú.
Við sláumst í för með tveimur vinum Jesú á leið þeirra til Emmaus sem er þorp spölkorn frá Jerúsalem. Vinirnir, annar heitir Kleófas, eru ráðvilltir og daprir og ræða sín á milli allt sem gerst hefur. Við göngum við hlið þeirra í heitri sólinni, finnum rykið milli tánna, hlýjan vindblæ á andlitinu, og hlustum á samtal þeirra. Af hverju dó Jesú, hann sem var svo máttugur í verki og orð? Átti hann ekki að leysa þjóðina sína undan valdi Rómverja eins og vinir hans vonuðu? Hvernig gat hann bara dáið? Og getur verið að konurnar hafi rétt fyrir sér? Þær fundu ekki líkama Jesú í morgun þegar þær fóru að gröfinni og sögðust jafnvel hafa séð engla í sýn sem sögðu hann lifa. Getur það verið?
Á meðan vinirnir ræða saman sjáum við Jesú sjálfan nálgast. Hann slæst í för með okkur en vinirnir þekkja hann ekki. Við vitum að þetta er Jesú, en gætum þess að segja ekki orð heldur fylgjumst með því sem gerist. „Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“ segir Jesús við þá. Og vinirnir rekja allar sínar raunir fyrir þessum manni sem hlýtur að vera eini aðkomumaðurinn í Jerúsalem sem veit ekki hvað þar hefur gerst þessa dagana.
Vinirnir eru alveg óðamála. Þeir keppast við um að segja þessum ókunna manni allt um Jesú fra Nasaret. Það er ekki laust við að Jesús brosi út í annað. Sjá þeir virkilega ekki að þetta er hann sem gengur þeim við hlið, upprisinn, máttugur lífgjafi þeirra? Þegar þeir hafa lokið máli sínu segir Jesús: „Skiljið þið alls ekki neitt? Þetta átti allt saman að gerast.“ Og svo útskýrir hann fyrir þeim allt sem sagt hefur verið um Krist, hinn smurða Guðs, í ritningunum.
Við fylgjumst með alveg agndofa. Hér erum við á göngu með Jesú og hann segir okkur allt þetta sem við auðvitað vitum og höfum lært í okkar biblíusögum en nú fáum við að heyra það frá honum sjálfum. Kristur átti að líða allt þeta og ganga svo inn í dýrð sína. Og hér erum við með honum upprisnum, á leið inn í dýrðina! Við öndum djúpt, finnum sólargeislana verma okkur, finnum hlýja nærveru Jesú okkur við hlið.
Og nú fer að líða að kvöldi. „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar,“ segja vinirnir við Jesú, sem þeir enn ekki þekkja. Þeir bjóða honum og okkur að koma inn með þeim þegar áfangastað er náð. Við búum okkur til máltíðar og nú tekur Jesús brauðið, þakkar Guði, brýtur það og gefur okkur. Síðustu geislar sólarinnar brjótast inn í herbergið og nú opnast augu vinanna. „Jesús, þetta ert þú!“ en á sömu stundu hverfur hann þeim og okkur sjónum. Og þeir segja hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“ Og nú rísa þeir á fætur og flýta sér aftur til Jerúsalem til að segja þeim að Jesús hafi slegist í för með þeim og hvernig þeir hafi þekkt hann þegar hann braut brauðið.
Við horfum á eftir þeim og finnum þessa ilmandi nærveru Jesú sem er brauð lífsins, brotið fyrir okkur.
Guðspjall: Lúk 24.13-35
Tveir
þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs sem er um sextíu skeiðrúm frá
Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta sem gerst
hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús
sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að
þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: „Hvað er það sem þið ræðið svo
mjög á göngu ykkar?“
Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við
hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem sem veit ekki hvað þar hefur
gerst þessa dagana.“
Hann spurði: „Hvað þá?“
Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret sem var spámaður, máttugur í verki og
orði fyrir Guði og öllum mönnum. Æðstu prestar og höfðingjar okkar létu dæma
hann til dauða og krossfesta hann. Við vonuðum að hann væri sá er leysa mundi
Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. Þá hafa og konur nokkrar úr
okkar hópi gert okkur forviða. Þær fóru árla til grafarinnar en fundu ekki
líkama hans og komu og sögðust jafnvel hafa séð engla í sýn er sögðu hann lifa.
Nokkrir þeirra sem með okkur voru fóru til grafarinnar og fundu allt eins og
konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“
Þá sagði hann við þá: „Skilningslausu menn, svo tregir til að trúa því öllu sem
spámennirnir hafa sagt fyrir um! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo
inn í dýrð sína?“ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir
þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.
Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir ætluðu til en hann lét sem hann vildi halda
lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá okkur því að kvölda
tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er
hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og
fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim
sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann
talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“
Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu
og þau er með þeim voru saman komin, en þau sögðu: „Sannarlega er Drottinn upp
risinn og hefur birst Símoni.“
Hinir sögðu þá frá því sem við hafði borið á veginum og hvernig þeir höfðu
þekkt hann þegar hann braut brauðið.