Sameiginlegt embætti systurkirkna - skiptir það máli?

Sameiginlegt embætti systurkirkna - skiptir það máli?

Vert er að benda á að ekki nota allar lútherskar kirkjur titilinn biskup, þó það sé á flestum stöðum svo. Segja má að lútherskar kirkjur séu í þessum efnum sem ýmsum öðrum miðsvæðis, rúmi bæði hefðbundna sýn á kirkjuskipan og annað fyrirkomulag. Það sannar vera norrænu lúthersku kirknanna innan bæði Porvoo og Leuenberg þar sem hið fyrra leggur áherslu á biskupsþjónustuna en hið síðara ekki.

Prófastur, gott fundarfólk. 

Ég þakka fyrir þennan fund og frumkvæði og áhuga prófasts Reykjavíkurprófastsdæmis eystra á opinni og fræðilegri umræðu í aðdraganda biskupskosninga. 

 

Mér hefur verið falið að ræða um biskupsembættið í samkirkjulegu ljósi. Þegar hefur verið rætt um þátttöku biskups í opinberri umræðu, fjallað um sögulegu víddina og hugsað upphátt um þær breytingar sem kunna að móta þjónustu biskups í nútímasamfélagi. Hér verður fyrst gerð örstutt grein fyrir hvað átt er við með systurkirkjur (1) og hvaða formlegi grundvöllur liggur að baki samstarfi við aðrar kristnar kirkjur í samtíma okkar (2). Þá verður skoðað hvað er sameiginlegt í guðfræðilegum skilningi á biskupsþjónustunni og hvað skilur á milli (3) og loks gerð tilraun til að svara þeirri spurningu hvort það skipti máli að vera samferða öðrum kristnum kirkjum í þessu máli (4).

 

1.    Systurkirkjur

Sú grein guðfræðinnar sem nefnist kirkjufræði (e. Ecclesiology) rannsakar eðli og veru kirkjunnar sem skipulagsheildar, félagsskapar og samfélags á mannlega vísu en ekki síður og reyndar miklu fremur sem andlegs fyrirbæris, yfirnáttúrulegs veruleika, lífrænnar heildar, gætum við sagt, sem grundar í orði Guðs. Einfaldasta svarið við spurningunni: Hvað er kirkja? er það sem norski guðfræðiprófessorinn Harald Hegstad leggur til grundvallar í bók sinni The Real Church – An Ecclesiology of the Visible (2013). Svarið sækir hann í orð Jesú í Matteusarguðspjalli 18.20: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ 

 

Kirkja er sem sagt þar sem við komum saman tvö eða þrjú í Jesú nafni. Flóknara þarf það ekki að vera. Kirkja er samfélag trúaðra í nærveru hins upprisna Jesú Krist, kirkjan er lífræn tengsl okkar við Guð í heilögum anda. Kirkja er samfélag, nærvera, tengsl í þeim andlega veruleika sem við skilgreinum sem heilaga þrenningu, Guð sem gefur líf, lausn og uppörvun, Guð nándar og endurreisnar. 

 

Ef gengið er út frá þessari skilgreiningu eru öll þau sem koma saman í Jesú nafni um allan heim systkini okkar, óháð alls kyns menningarlegum skilyrðingum og mannanna tilbúningi, húsakosti, klæðnaði og skipuritum. Trúin á Jesú Krist ætti því að vera nægilegt sameiningarafl sem lýsir upp hvern þann skugga sem ber á samstarf kirkjudeilda. Svo er þó ekki raunin. 

 

Faith and Order - Trú og skipulag

Nægir að nefna tvo strauma samkirkjulegu hreyfingarinnar á 20. öldinni, Life and Work annars vegar og hins vegar Faith and Order sem voru undanfari stofnunar Heimsráðs kirkna/Alkirkjuráðsins (1948). Rómversk-kaþólska kirkjan, sem ekki er hluti af Heimsráði kirkna, er meðlimur í Trúar- og skipulagsnefndinni (Faith and Order Commision, frá því eftir þingið Vatikan 2 á sjöunda áratug síðustu aldar) og nokkrar fleiri kirkjur sem ekki hafa talið sig eiga samleið með Heimsráðinu, svo sem Aðventkirkjan. 

 

Þessi nefnd gaf út Lima-skýrsluna, Skírn - Máltíð Drottins - Þjónusta sem mótaði mjög samkirkjulega umræðu á 9. áratug síðustu aldar og er grundvöllur að til dæmis Porvoo-samkomulaginu. Ég bendi á heiti þessarar nefndar vegna þess að það sýnir í hnotskurn að það er ekki trúin ein sem máli skiptir í formlegu samstarfi kirkna. Kirkjuskipulagið er þar sett jafnfætis einingu í trú. 

 

Hvað varðar kirkjuskipan eru sumar kirkjur nær okkur en aðrar, einkum þær sem vaxið hafa fram af þeirri grein endurnýjunar siðvenja og guðfræði sem spratt upp úr gerjun 15. og 16. aldarinnar í Evrópu. Hér eru systurkirkjur skilgreindar á svipaðan hátt og oft er nefnt í almennri umræðu: „þau lönd/þjóðir/ríki sem við berum okkur saman við.“ Í samhengi kirkjulegrar þjónustu eru það fyrst og fremst aðrar lútherskar kirkjur, einkum þó þær norrænu, og síðan, í nýrri tíð, enska biskupakirkjan eða anglíkanska kirkjan. Nefna má Lútherska heimssambandið og Porvoo-samkomulagið sérstaklega ásamt svonefndu Leuenberg-samkomulagi evangelískra kirkna í Evrópu. 

 

Vert er að benda á að ekki nota allar lútherskar kirkjur titilinn biskup, þó það sé á flestum stöðum svo. Hjá öðrum evangelískum kirkjum eru ýmsir titlar notaðir yfir þau sem leiða kirkjuna í andlegum efnum, ekki endilega biskup. Segja má að lútherskar kirkjur séu í þessum efnum sem ýmsum öðrum miðsvæðis, rúmi bæði hefðbundna sýn á kirkjuskipan og annað fyrirkomulag. Það sannar vera norrænu lúthersku kirknanna innan bæði Porvoo og Leuenberg þar sem hið fyrra leggur áherslu á biskupsþjónustuna en hið síðara ekki. 

 

2.    Formlegur grundvöllur samstarfs

Íslenska þjóðkirkjan er aðili að eftirtöldum samkirkjulegum samböndum og ráðum og hafa nokkrar samþykktir verið þýddar á íslensku:

·      Lútherska heimssambandið (LH 1947)

o   Mission in Context - Boðun í síbreytilegu samhengi (2004/2006)

o   Diaconia in Context  Þjónusta í síbreytilegu samhengi (2009)

·      Heimsráð kirkna/Alkirkjuráðið (WCC 1948)

o   BEM – Baptism, Eucharist and Ministry (Lima-skýrslan) - Skírn, máltíð og þjónusta (1982/1985)

·      Kirknasamband Evrópu (KEK 1959)

o   Charta Oecumenica (2001/2007)

·      Porvoo-samkomulagið (1995)

·      Samtök evangelískra kirkna í Evrópu (CPCE 2020)

o   Leuenberg-samkomulagið (1973/2020)

 

Hér verða þrjú þessara skjala skoðuð aðeins nánar að því leyti sem þau spegla umræðuna um biskupsembættið. 

 

Porvoo-samkomulagið

Árið 1995 var sögulegt samkomulag undirritað í finnska bænum Porvoo. Tólf kirkjur stóðu að gerð samkomlagsins, norrænu lúthersku kirkjurnar ásamt lúthersku kirkjunum í Eystrasaltslöndunum og á Englandi, og anglíkönsku kirkjunni á Englandi, Skotlandi, Wales og Írlandi. Tíu kirkjur skrifuðu undir og fleiri bættust síðar í hópinn. 

 

Danska kirkjan skrifaði ekki undir strax, meðal annars vegna þeirrar áherslu sem lögð er á biskupsembættið í þessu skjali, sem Dönum þótti ekki samræmast lútherskri guðfræði. Spurningin um vígslu kvenna, sem anglíkanska kirkjan á Englandi átti lengi í vandræðum með, skipti líka máli varðandi hik Dana, en eitt af því sem fram kemur fram í útskýringum að samþykktinni er að „þjónusta kvenbiskupa (og þeirra sem hafa verið vígðir af þeim) eða kvenpresta á vissum svæðum“ sé ákveðið vandamál (bls. 6). Árið 2010 skrifaði danska kirkjan loks undir samkomulagið. Fyrir áhugafólk um þessa umræðu má benda á doktorsritgerð eftir sænska guðfræðinginn Erik Eckerdal (biskup frá 2023), Apostolic Succession in the Porvoo Common Statement (2017) sem finna má á netinu.

 

Úr Porvoo-yfirlýsingunni (bls. 21-22): 

Við trúum að þjónusta hirðis og tilsjónarmanns (episkope) sem starfar á persónulegan, samábyrgan og félagslegan hátt, sé nauðsynleg til að vitna um og varðveita einingu og postullegt einkenni kirkjunnar. Ennfremur er biskupsþjónustunni viðhaldið og hún notuð sem tákn um þá ætlun okkar að tryggja undir stjórn Guðs samfellt líf kirkjunnar í postullegu lífi og vitnisburði. Af þessum ástæðum hafa kirkjur okkar kosið að viðhalda þeim sið að velja einstakling til biskupsembættis.

 

Charta Oecumenica

Við upphaf 21. aldarinnar var gefið út ritið Charta oecumenica – Leiðbeiningar fyrir vaxandi samvinnu kirknanna í Evrópu. Þetta stutta rit kom út á íslensku árið 2007 og er aðgengilegt á kirkjan.is. Að ritinu komu fulltrúar helstu kirkna Evrópu, rómversk-kaþólskir, lútherskir, anglikanar og orþódoxir og reformertir, en það var unnið í samvinnu Kirknaráðs Evrópu (KEK) sem íslenska þjóðkirkjan er hluti af og Samstarfsvettvangi kaþólskra biskuparáða í Evrópu.


Ekki er fjallað sérstaklega um biskupsembættið í þessu skjali enda er það eins almennt orðað og mögulegt er til að finna sem flesta sameiginlega snertifleti. Kjarni þess sem aðgreinir er hins vegar orðaður svona: 

Enn hindrar verulegur mismunur í trúarefnum sýnilega einingu. Það er ólíkur skilningur fyrst og fremst á kirkjunni sjálfri og einingu hennar, á sakramentunum og á embættunum. Þetta má ekki verða til þess að okkur fallist hendur. Jesús Kristur opinberaði okkur á krossinum kærleika sinn og leyndardóm friðþægingarinnar. Í eftirfylgdinni við hann viljum við gera allt sem okkur er mögulegt til að yfirvinna þau vandamál og þær hindranir sem enn skilja kirkjurnar að. 

Samtök mótmælendakirkna í Evrópu – Leuenberg-samkomulagið

Samtök mótmælendakirkna í Evrópu  eru regnhlífasamtök mótmælendakirkna víða um heim, aðallega í Evrópu en einnig í Suður-Ameríku. Íslenska þjóðkirkjan var formlega samþykkt sem fullgildur meðlimur í Samtökum mótmælendakirkna í Evrópu árið 2020. Þeim tilheyra nú 9kirkjur.


Til grundvallar starfi samtakanna liggur svonefnt Leuenberg-samkomulag frá 1973 sem þýtt hefur verið á íslensku. Mikilvægust í samhengi þessa málþings er grein 33, liður C:

[...] þær veita hver annarri samfélag um predikun og kvöldmáltíð. Það felur í sér gagnkvæma viðurkenningu hinnar vígðu þjónustu og möguleikann til sameiginlegrar altarisþjónustu.

 

Í 39. grein er embætti og vígsla þó nefnt meðal þess sem þarfnast nánari skoðunar en sem „kenningarlegt ágreiningsefni sem ekki valdi aðskilnaði“ enda er skjalið yfirlýsing um gagnkvæma viðurkenningu á embætti og vígslu (gr. 43). 

 

3.    Guðfræðilegur skilningur á biskupsþjónustunni

Í hverju felst þá hinn ólíki embættisskilningur? Í mjög stuttu máli mætti segja að til dæmis í rómversku kirkjunni sé biskupsembættið miðlægt, þangað sækja hin embættin, prests- og djáknaembættið, gildi sitt, á meðan að evangelísk-lútherskum skilningi er hinn almenni prestsdómur allra skírðra uppspretta embættisins, vígsla til kirkjulegs embættis tengd ákveðnu hlutverki en ekki eðlismun. Sameiginlegt hlýtur þó að teljast að Jesús Kristur er hin eiginlega uppspretta alls þessa, prestsdóms allra skírðra sem og þeirra sem gegna ákveðinni þjónustu sem boðberar fagnaðarerindisins og hirðar hjarðarinnar.

  

Þó rómversk-kaþólska kirkjan sé ekki talin beint til systurkirkna okkar evangelísk-lúthersku kirkju hér í þessu samhengi, kannski frekar virðuleg amma eða jafnvel langamma, er nauðsynlegt að skoða aðeins þann guðfræðilega skilning á biskupsembættinu sem þar má finna. Eitt af því sem máli skipti er sú guðfræðihefð að vígsla til kirkjulegrar þjónustu sé sakramenti sem færi vígsluþega character indelebilis, óafmáanlegt einkenni, líkt og skírnin og fermingin. Í umræðu um biskupsembætti í evangelísk-lútherskri kirkju er vert að hafa í huga okkar kirkja byggir ekki á þessari hugsun.

 

Dr. Gunnar Kristjánsson, fyrrum prófastur, lýsir í grein sinni Smurðir og vígðir – Lútherskur embættisskilningur á hálum ís (Ritröð Guðfræðistofnunar 2013) þeirri þrekraun sem það var Lúther að opna umræðuna um embættisskilninginn. Miðaldakirkjunni var embættið „farvegur hinnar guðlegu útgeislunar inn í þennan fallna og synduga heim“, segir dr. Gunnar, byggt trúarheimspekilegri heimsmynd nýplatónismans  „um útgeislun í þreföldum skömmtum frá hinu Eina, guðdóminum sjálfum.“ Tilvitnun lýkur. Biskupinn trónir þar í toppi, næst Guði, og niður embættisskrúða biskupsins hríslast útgeislun Guðs til presta og djákna og tötrumklæddur almenningur starir stjörnuaugum á dýrðina sem í dropatali seytlar til þeirra. Mín orð.

 

Heimsmynd siðbótar Lúthers er önnur. Þar er hinn almenni prestsdómur grunnurinn, demantar dýrðar Guðs sem kvikna við skírnina fyrir orð Jesú Krists, vatn og heilagan anda. Meðal þeirra gimsteina er fólk sem finnur innri köllun heilags anda til að þjóna og boða og bera fram sakramentin og sú köllun staðfestist af Guði með ytri köllun safnaðarins sem þarf boðun og utanumhald og umgjörð sínu trúarlífi.

 

Ágsborgarjátningin

Í evangelísk-lútheskri kirkju er alveg ljóst að skírnin er hin eiginlega vígsla og eina vígslan sem er sakramenti. Ásamt máltíð Drottins er skírnin efnislegur viðburður sem færa andlegan veruleika. Evangelískur-lútherskur embættisskilningur byggir þannig á almennum prestsdómi allra skírðra. Kirkjan er „söfnuður heilagra, þar sem fagnaðarerindið er réttlega boðað og sakramentin eru réttlega um hönd höfð“ (Ágsborgarjátningin, 7. grein). Hlutverk prests prestanna, biskupsins, að lútherskum skilningi er að tryggja að byggt sé á Heilagri ritningu og orðum Jesú Krists í þjónustu kirkjunnar.

 

Í Ágsborgarjátningunni, sem þjóðkirkjan byggir á ásamt almennu/samkirkjulegu játningunum þremur og Fræðum Lúthers minni, kemur skýrt fram að embætti evangelísk-lútherskrar kirkju er eitt, „hin kirkjulega stétt“. Tilgangur þess er að „kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum“ sem eru tæki heilags anda til að koma til leiðar trúnni. Ennfremur segir: „Til að sönn eining ríki í kirkjunni er nóg, að menn séu sammála um kenningu fagnaðarerindisins og um þjónustu sakramentanna.“ Og svo að það sé á hreinu, þá er það skipun og boðorð Krists sem máli skiptir, ekki heilagleiki og sönn trú þjóna hans. Sakramentin og orðið missa ekki kraft sinn „enda þótt vondir menn þjóni að þeim.“

 

Handbókin 1981

Djákna-, prests- og biskupsvígsla meðfærir sem sagt ekki yfirfærslu yfirnáttúrulegra gjafa, að okkar lútherska sið, heldur er vígslan til kirkjulegrar þjónustu staðfesting á innri og ytri köllun, frátekning til tiltekinnar þjónustu í tilteknu samhengi. Vígslan er ekki endurtekin þó vígsluþegi færist í annað starfsumhverfi innan sinnar stéttar en slík breyting mörkuð með innsetningu sem biskup (í tilviki prófasta) eða prófastur (fyrir presta og djákna) annast.

 

Handbók íslensku þjóðkirkjunnar frá 1981 er sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis (áður hétu slíkar bækur helgisiðabækur) sem hefur að geyma form fyrir djáknavígslu. Á þeim tíma var ekki farið að kenna djáknafræði við Háskóla Íslands þó nokkrir íslenskir djáknar hefðu hlotið menntun í Svíþjóð og víðar. Var þessi viðbót á sínum tíma mikilvægur liður í því að festa í sessi hér á landi þríþætta stétt kirkjulegrar þjónustu, svo sem tíðkast hefur frá því snemma á öldum í sögulegu kirkjunum, að vígsluembætti kirkjunnar greinist í þrennt, þjónustu djákna, presta og biskupa. Þetta er mikilvægt í samkirkjulegu samstarfi við þær kirkjur sem byggja á sögulegri sýn á embætti kirkjunnar.

 

Athygli vekur skýring handbókar 1981 þar sem lýst er handayfirlagningu við biskupsvígslu eftir að vígsluþegi hefur gefið heiti sitt, þegið biskupskross og kórkápu. Með smáu letri segir til skýringa: 

 

Vígsluþegi krýpur. Biskupinn og vígsluvottar leggja hendur á höfuð vígsluþega svo og viðstaddir íslenskir biskupar.

 

Orðalagið „viðstaddir íslenskir biskupar“ kemur til af því að sænskir og finnskir biskupar höfðu ekki leyfi til að taka þátt í handayfirlagningu í dönsku kirkjunum, það er þeirri dönsku, norsku og íslensku. 

 

Í fyrsta sinn sem fulltrúi annarra kirkju en íslensku þjóðkirkjunnar var viðstaddur biskupsvígslu var 1959 þegar Sigurbjörn Einarsson var vígður. Sá var danskur. Við vígslu Karls Sigurbjörnssonar 1997 tóku viðstaddir erlendir biskupar, ekki bara frá öðrum Norðurlandakirkjum heldur einnig anglíkönsku kirkjunni, þátt í handayfirlagningunni. Hvað breyttist? Jú, þátttaka íslensku þjóðkirkjunnar í Porvoo-samkomulaginu sem hafði afgerandi áhrif á stöðu okkar hvað varðar það sem nú verður rætt, svokallaða postullega vígsluröð.

 

Postullega vígsluröðin

Postularnir sem við lesum um í Nýja testamentinu, þessir tólf, voru ungu kirkjunni viðmið í einu og öllu. Aðeins þær ritningar sem rekja mátti til postulanna eða postulalærisveina voru samþykktar þegar það sem við þekkjum sem Nýja testamentið tók á sig mynd. Postulleg þjónusta varð grunnur vígðar þjónustu kirkjunnar, þó heitið postulli hafi ekki verið notað eftir dag þeirra tólf. Postulleg vígsluröð, successio apostolica, að skilningi Rómversk-kaþólsku kirkjunnar og fleiri, er sú hugmynd (tæpast sagnfræðileg staðreynd) að allt frá postulunum hafi óslitin röð biskupa þegið handayfirlagningu hver frá öðrum.

 

Þegar í kring um ár 95 eftir Krist kemur fram í bréfi heilags Klemens, biskups í Róm, til safnaðarins í Korintu, að biskupar séu arftakar postulanna sem Jesús Kristur sjálfur bauð að skyldu vera leiðtogar safnaðanna. Biskupsembættið í Róm fær síðan þá sérstöðu að vera fremst meðal jafningja. Biskup var gjarna kallaður pappa (frá 3. öld) og vicarius Christi, staðgengill Krists (frá 5. öld), og seinna fékk Rómarbiskup einn þessa titla. Prestar eru reyndar víða ávarpaðir Father og á Englandi er starfsheitið Vicar. Athyglisvert í ljósi sögu páfadóms.

 

Enn þann dag í dag er eitt af því sem skilur á milli kirkjudeildanna sú staðreynd að postullega vígsluröðin rofnaði í sumum löndum siðbótarinnar. Þetta hefur þó mildast með tilkomu Porvoo-samkomulagsins sem áður var fjallð um. Í Danmörku voru kaþólskir biskupar hnepptir í fangelsi við innleiðingu siðbótar árið 1536 og þýski presturinn og guðfræðidoktorinn Jóhannes Bugenhagen (1485-1558), sem ekki hafði hlotið biskupsvígslu sjálfur, vígði sjö superintendenta eða forstöðumenn ári síðar. 

 

Lútherska kirkjan í Svíþjóð og Finnlandi, Anglíkanska kirkjan, Gamal kaþólska kirkjan og austurkirkjurnar, auk rómversk-kaþólsku kirkjunnar, líta svo á að postullega vígsluröðin sé órofin í biskupsþjónustu þeirra. 

 

Andstaðan gegn vígslu kvenna, sérstaklega biskupsvígslu svo sem dæmið frá anglíkönsku kirkjunni á Englandi sannar (samþykkt svo seint sem í árslok 2014), tengist meðal annars hugmyndinni eða kenningunni um postullega vígsluröð. Postularnir, þessir tólf, voru jú allir karlkyns þannig að það er líffræðilega ómögulegt að kona geti gengið inn í þeirra hlutverk, segja þeir/þau sem aðhyllast þessa skoðun, og velja að hunsa þær konur sem samkvæmt frásögn Nýja testamentisins þjónuðu á margvíslegan hátt í ungu kirkjunni.

 

Samhengið í játningu og kenningu – sem evangelísk-lútherskar kirkjur sannarlega leggja áherslu á – er þó ekki endilega tryggt aðeins í vígsluröð sem rekja má til postulanna. Samhengið ákvarðast í prédikun og kenningu sem kallað er successio doctrinalis og er eitt af því mikilvægasta sem tilsjónaraðili prestanna, biskupinn, á að tryggja.

 

4.    Skiptir máli að embættið sé sameiginlegt?

Í erindi á fyrsta fundi Reykjavíkurprófastsdæmis eystra um biskupsembættið í aðdraganda kosninga minnti sr. Þorvaldur Víðisson, fyrrum biskupsritari, á mikilvægi samskipta og tengsla við nágrannakirkjur okkar sem biskup Íslands, fyrir hönd þjóðkirkjunnar, ræktar á grundvelli sögunnar, hefða og siða. Þessi samskipti, sagði sr. Þorvaldur, byggja á kirkjuskilningi og guðfræðilegu samtali og biskup Íslands þarf að hafa aðgang að þekkingu og reynslu til að sinna því samtali. Undir þau orð er heilshugar tekið hér.

 

Í erindinu, sem lesa má á kirkjan.is, ræðir sr. Þorvaldur það sem hann kallar „skipulagslega óreiðu á vettvangi yfirstjórnar þjóðkirkjunnar“ sem valdi því að við séum „nánast að segja okkur úr lögum við okkar helstu systkini í trúnni“. Tilvitnun lýkur. Vísar hann þarna líklegast í þá stöðu sem komin er upp, að biskup Íslands hafi ekki formlegt umboð til lögformlegra ákvarðana, að talið er, vegna þess að kjörtímabili biskupsins, sem reyndar er ákvæði sem kom inn eftir að núverandi/fráfarandi biskup Íslands tók við embætti 2012, lauk áður án þess að gengið væri formlega frá málum. Kirkjuþing tók sér það vald að gera biskup Íslands valdalausan að öðru en því sem lýtur innri málum, og fól vígslubiskupum að annast aðrar hliðar þjónustunnar, sem þeir þó ekki voru kjörnir til í lýðræðislegum kosningum nema þá afar tímabundið sem staðgenglar biskups Íslands.

 

Að mínu mati eru þetta vaxtaverkir sem óþarfi er að gera of mikið úr. Við höfum ekki sagt okkur úr lögum við neinn en vissulega þarf að herða skipulagið og móta betur, einkum hvað varðar valdsvið og skipunarvald. Danir eru betur settir, þar er bæði kirkjumálaráðherra og kóngur sem hefur skipunarvaldið ótvírætt! Að öllu gamni slepptu er hér lagt til að nýr biskup hafi til hliðsjónar bestu gerð af samstarfi sóknarprests og sóknarnefndarformanns/formanna og sóknarnefnda þegar kemur að samvinnu við framkvæmdastjóra og framkvæmdastjórn þjóðkirkjunnar ásamt kirkjuþingi. Samstarf á milli andlegs og veraldlegs valds, ef nota má svo hátíðlegt orðalag í þessu sambandi, þarf að vera hindrunarlaust, símalínur opnar og kaffibollaspjallið nýtt sem oftast. Helst í sama húsi. 

 

Kjörtímabil

Athyglisvert er að skoða nýja fyrirkomulagið varðandi kjörtímabil biskups Íslands og vígslubiskupa sem kirkjuþing samþykkti fyrir skemmstu í ljósi tengslanna við systurkirkjur. Ég skoðaði aðeins dönsku kirkjuna í þessu samhengi, þó sannarlega sé íslenska þjóðkirkjan komin langan veg frá konungsskipaninni sem enn ríkir þar og var staðfest sunnudaginn 14. janúar 2024 með blessunarorðum móður yfir syni, arftaka sínum. Þar með er æviráðningin úr gildi fallin í því samhengi, þó enn haldi drottningin titil sínum.

 

Í Danmörku eru það prestar og sóknarnefndarfólk í viðkomandi stifti sem velur sér biskup að lokinni uppstillingu – þar eru undirskriftalistar notaðir, líkt og hér í forsetakosningum og ekki bara vígðir sem geta á þann hátt haft áhrif á hver eru í kjöri. Biskup sem valinn er fær síðan konunglega útnefningu að tillögu kirkjumálaráðuneytisins. 

 

Margoft hefur komið til tals í Danmörku að takmarka þjónustutíma biskupa. Kjörtímabil hefur verið á málaskrá ríkisstjórna, til dæmis 12 ár, og einstaka biskupsefni hafa lagt á það áherslu í aðdraganda kosninga að ekki mætti líta á embættisveitinguna sem æviráðningu. Ekki hefur þó orðið af þessum áætlunum en umræðan kemur upp af og til og einnig er spurt hvort sama eigi þá ekki að gilda um önnur störf innan kirkjunnar. 

 

Hér eru nokkur atriði sem spegla umræðuna í Danmörku á þessari öld:

§  Amk. tvær ríkisstjórnir hafa haft í stjórnarsáttmála orð um að takmarka setu biskupa - hugmyndir um tíu eða tólf ár

§  Nokkrir biskupskanditatar hafa sett málið á sína stefnuskrá

§  Myndi ekki vera afturvirkt og því lítið mál að leggja það til

§  Of dýrt að hafa slatta af ex-biskupum á (eftir)launaskrá?

§  Biskupsval minnir á pólitískt val (prófkjör er orð sem notað var hérlendis í umræðu um daginn), því skuli takmarka tími í embætti

§  Sama gildi um presta – ákveðinn ráðningatími sem endurnýjast ef ekki er gerður um það ágreiningur

§  Biskupsembættið er ekki guðlegs eðlis, því er kjörtímabil eðlilegt

 

Biskupsembættið er ekki eðilsólíkt annarri þjónustu lútherskrar kirkju heldur fyrst og fremst hlutverk sem heldur utan um starf og kenningu kirkjunnar. Því er það álit mitt að kjörtímabil sé á engan hátt í ósamræmi við guðfræði systurkirkna okkar.

 

Víst skiptir máli að ganga í takt við systurkirkjur okkar en viðurkennum það bara: Alls kyns skilningur er í gangi í mismunandi kirkjum og hvort við köllum jarðneskan leiðtoga okkar biskup eða eitthvað annað er ekki aðal málið. Margt af þessu eru mannasetningar og það sem skiptir máli er að hafa hagkvæmt kerfi sem styðji við boðun trúarinnar í anda postullegrar kirkju sem sækir líf sitt og kraft til Jesú Krists í heilögum anda. 

 

Að lokum þetta: 

§  Skipulagsmálin (ORDER) eru enn eitt stærsta ágreiningsmálið í samkirkjulegu starfi

§  Varla er hægt að tala um sameiginlegan embættisskilning að öllu leyti milli kirkjudeilda, jafnvel ekki systurkirkna okkar

§  Einnig innan lútherskra kirkna er áherslan á embættið mismunandi og sameiginlegum skilningi ábótavant (sbr. vígslu kvenna sem er ekki samþykkt í öllum lútherskum kirkjum)

§  Meginhugsunin er þó að embættið sé mikilvægt til að viðhalda samfellu í boðun og þjónustu

§  Aðildakirkjur að Porvoo-samkomulaginu samþykkja vígslu hver annarrar

§  Aðildakirkjur að Leuenberg-samkomulaginu samþykkja vígslu hver annarrar 

§  Þetta skiptir miklu máli vegna þess að fagnaðarerindi Jesú Krists þekkir hvorki landamæri né mismunandi embættisskilning

 

Biskup Íslands er sameiningartákn íslenskrar þjóðkirkju, boðunar hennar, bænalífs og þjónustu, en hefur að auki þetta tilsjónarhlutverk, að vera prestur prestanna, styðja og leiðbeina í ást og aga, eins og góð móðir. Allt snýst þetta um að skapa þá umgjörð að orð Jesú fái ljómað í öflugu og heilbrigðu starfi þróttmikillar kirkju: „Hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ 

 

Takk fyrir mig.

 

Erindi flutt í Breiðholtskirkju 19. janúar 2024 á málþingi Reykjavíkurprófastsdæmis eystra um biskupsembættið. Dr. María Guðrúnar. Ágústsdóttir er sóknarprestur í Fossvogsprestakalli og doktor í samkirkjulegri guðfræði. 

 

Hér má finna ýmislegt sem haft var til hliðsjónar í þessari grein, auk þeirra heimilda sem nefndar eru í textanum:

https://denstoredanske.lex.dk/Porvoo-erklæringen

https://kirkjan.is/library/Samnyttar-myndir/Skrar/Porvoo-yfirlýsingin.pdf

https://www.diva-portal.org/smash/get/diva2:1129750/FULLTEXT01.pdf

https://kirkjan.is/library/Samnyttar-myndir/Skrar/Ritrod_1_Charta_High.pdf

https://www.kristjanvalur.is/kennsla/2020/9/21/leuenberg-samkomulagi