Ræktum mildina í okkar eigin fari

Ræktum mildina í okkar eigin fari

Bæði hér á vettvangi kirkjunnar og einnig þegar við göngum héðan skulum við finna leiðir til að iðka mildina í samskiptum okkar hvert við annað.

Jer. 7:1-7 

Róm. 14:7-13 

Lk. 6: 36-42 

 

Biðjum: 

Heyrðu mig hjartakær Jesú,  

hlusta´ á mitt bænamál. 

Hjálpa mér að þóknast þér,  

þjóna af lífi´ og sál. Amen. (sálmur 857:1) 

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen. 


Mildi 


Mildi finnst mér eitt það mikilvægasta sem við iðkum í nútímanum. Mildi gagnvart náunga okkar og einnig okkur sjálfum. 

Hvað finnst þér? Hvað finnst þér mikilvægast? 

Sumum finnst mikilvægast að réttlætið nái fram að ganga. Kærleikurinn er öðrum efst í huga og enn öðrum fyrirgefningin. Og sumum finnst eitthvað annað.  

Allt er þetta mikilvægt, mildin, réttlætið, kærleikurinn og fyrirgefningin. 


Dómharkan 


Mildin er svar við dómhörkunni. Dómharkan er afleiðing þess að við setjum okkur ekki í annarra spor. Ég sé þetta víða og þarf í raun ekki annað en að líta í eigin barm.  

Að setja sig í annarra spor er eitt það mikilvægasta sem við gerum, reynum að skilja sjónarmið annarra og afstöðu. 

Við getum verið fljót að dæma náungann og gjörðir hans.  

Það er einhver ástæða fyrir því að kynslóðirnar hafa talið mikilvægt að varðveita þessar frásögur, lærdóma og texta sem fjalla um mildina. Gæti ástæðan verið sú að þetta er hluti af hinni mannlegu glímu á öllum tímum? Hvað heldur þú? 


Reynsla kynslóðanna 


Kirkjan er vettvangur þess að við heyrum og miðlum reynslu og arfi kynslóðanna, meðal annars lærdómum um mildina. Þar er sögum og frásögum miðlað, viðmiðum, spakmælum og ljóðum, sem virðast eiga við á öllum tímum.  

Bætið breytni ykkar og verk“, segir í lexíu dagsins úr spádómsbók Jeremía, frá 7. öld fyrir Krist. Textinn er sem sagt hátt í þrjú þúsund ára gamall.  


Í nútímanum erum við hins vegar flest upptekin af skoðunum hvers annars, nýjustu fréttum og því sem er efst á baugi hverju sinni. Við erum gjarnan fljót að mynda okkur skoðun. Skoðunin er bara allt í einu komin í huga okkar, við finnum fyrir henni. Hafið þið tekið eftir því að skoðun, eða dómur á einhverju atriði eða einstaklingi, myndast í huga okkar stundum án þess að við gerum okkur grein fyrir? Þá er það stundum spurningin hvort skoðunin er okkar eign, eða hvort við séum einfaldlega á hennar valdi og hún eigi okkur. Gæti hún verið byggð á fordómum?  


Kannski hefur þetta alltaf verið svona, en samfélagsmiðlarnir hafa án efa gert þetta enn ýktara í fari okkar í nútímanum, þar sem við syndum í því upplýsingaflóði sem þar streymir, sjáum stundum ekkert annað en flóð af skoðunum og hugsunum sem dúkka upp úr öllum áttum. Viska og reynsla kynslóðanna, sem er okkur svo mikilvæg nær þá ekki endilega til okkar.  

Áfram heldur spámaðurinn í lexíu dagsins og segir: 

(…) sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumanninn, munaðarleysingja og ekkjur, (…) 


Þessi setning þykir mér ansi nútímaleg. 


Hvatning um að sýna sanngirni, því deilur munu alltaf verða, en þá er sanngirni gott veganesti. Hvatning um að koma vel fram við aðkomufólk, munaðarleysingja og ekkjur, þ.e.a.s. þau í okkar samfélagi sem skortir nægilegt bakland og stuðning 

Þetta gæti verið texti í einhverri nútíma mannréttindayfirlýsingu, en orðin eru eins og áður segir um tvö þúsund og sjö hundruð ára gömul.  


Og þau eru ætluð okkur, núna í dag og alla daga. 


Þau sem flýja frá Úkraínu þessar vikurnar og mánuðina koma upp í huga minn nú sem oftar þegar ég les gamlan texta um sanngirni og það að kúga ekki aðkomumanninn, munaðarleysingjana og ekkjurnar. Einnig koma upp í huga minn börn sem búa við erfið kjör, neyslu, fátækt eða vanrækslu. Og einnig fólk sem hefur misst maka sinn, er orðið eitt, kannski farið að tapa færni 

 

Um hvað hugsar þú? Kannski ýmsar aðrar aðstæður, málefni, og svo erum við hvert og eitt að glíma við ýmislegt, það getur auðvitað verið svo margt. 
 
Iðkum mildina 

 
Bæði hér á vettvangi kirkjunnar og einnig þegar við göngum héðan skulum við finna leiðir til að iðka mildina í samskiptum okkar hvert við annað. 

 

Ekki dæma 


Á sömu nótum talar Páll postuli við söfnuðinn í Róm í bréfi sínu, sem lesið var hér áðan. (…) hví dæmir þú bróður þinn? (…) Dæmum því ekki framar hvert annað.“  


Það er grunnt á því að við dæmum hvert annað. Það er mjög mannlegt. En mildin og það að temja sér að leitast við að setja sig í annarra spor eru leiðir sem hjálpa okkur að sýna öðru fólki miskunn. Hvort sem við erum foreldrar á fótboltamóti, tjáum okkur um málefni líðandi stundar á samfélagsmiðlunum, eða bara í daglegum samskiptum við okkar nánustu eða okkar samferðarfólk 


Flísin og bjálkinn 


Í guðspjallatexta dagsins má finna eina af frægustu dæmisögum Jesú, um flísina og bjálkann. (…)Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu?(…) 

Flísin er lítil í auga bróður þíns en bjálkinn er stór í auga þínu. 

Þ.e.a.s. svo virðist sem við mannfólkið tökum frekar eftir hinu smáa sem betur má fara í lífi náunga okkar, en sjáum ekki stóru gallana í fari okkar sjálfra. 

Jesús hvetur okkur til að líta í eigin barm, rétta það sem betur má fara í okkar eigin lífi, áður en við gagnrýnum og dæmum aðra. 


Textar fyrir allan aldur og alla tíma 


Það er eins með þessa texta sem lesnir voru hér áðan og flesta aðra texta Biblíunnar að þar geta allir fundið eitthvað gagnlegt. Ritarar Biblíunnar höfðu í huga að mannfólkið er á öllum aldri. Eins er reynsluheimur okkar ólíkur, menntun, greind og þekking og þannig mætti áfram telja. Textarnir hafa samt sem áður í sér fólgna einhverja þá snilld sem nær eyrum allra, þ.e.a.s. þeirra sem hlusta eða lesa, eða tileinka sér innihaldið.   

Hvatning dagsins er auðskilin, við skulum ekki dæma aðra. Hvatning Jesú er einnig auðskilin, við skulum huga að því að bæta okkar eigin framgöngu í stað þess að vera stöðugt að finna að öðrum. Því ljóst er að öll getum í þeim efnum gert betur í okkar eigin lífi.  


Berið hvers annars byrðar 


Svo er það þannig með okkar kristnu trú, eins og þið þekkið, að hún hvetur okkur einnig til athafna. Við eigum ekki aðeins að hugsa fallega, passa okkur að dæma ekki aðra og vera passív. Nei hún hvetur okkur til góðra verka, til athafna og framkvæmda og til að vera lifandi og gefandi hér í heimi, til að bera hvers annars byrðar, eins og Páll postuli segir í bréfi sínu til Galatamanna (6:2): „Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists. 

Svo heldur hann áfram og segir í Kólossobréfinu (3:12-15): 

Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt. 
Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát. 


Er Biblían úrelt og leiðinleg? 


Þeir sem halda því fram að Biblían sé ekki gefandi, sé ekki skemmtileg, fróðleg, að hún eigi ekki erindi við okkur í dag. Segja hana jafnvel úrelta. Þeir hafa einfaldlega ekki lesið Biblíuna. Gerum við kannski of lítið af því? Þyrftum við kannski að efna til leshópa, þ.e.a.s. að bjóða fólki til samlesturs og samtals um Biblíuna, þar sem við sökkvum okkum saman í tiltekna texta, skoðum samhengið, frumtextann, menninguna, lærum um hver skrifaði textana og að hvaða tilefni, og þannig mætti áfram telja? Hvernig hugnast þér það? 


Þannig voru hin helgu rit lesin á tímum Jesú. Biblían var á þeim tímum ekki í almannaeigu heldur voru einstaka hlutar Biblíunnar til í hverri kirkju. Stærri kirkjurnar og söfnuðirnir áttu kannski megnið af ritunum sem við teljum til helgiritasafnsins í dag, en í einkaeigu var Biblían ekki. Þá var ritið dregið fram þegar fólk kom saman og lesið í hópi, svona svolítið líkt og við gerum hér á sunnudögum, nema það sem vantar stundum upp á hjá okkur er samtalið opg spurningarnar: Hvað finnst þér? Hvað finnst þér mikilvægast, hvað finnst þér þessi dæmisaga vera að segja okkur? Hvernig ættum við að heimfæra boðskapinn upp á samtímann og úrlausnarefni dagsins í dag? Og allir fengu á þeim tíma tækifæri til að leggja í púkkið.  

Þegar Jesús var spurðum um merkingu einhvers texta eða boðskaparins í helgiritunum þá svaraði hann gjarnan með spurningu, eða dæmisögu, þ.e.a.s. hann svaraði spurningunni með spurningu. Hann hvatti fólk til að hugsa sjálft, biðja sjálft, vildi halda samtalinu áfram, virkjaði fólk til að hugsa sjálfstætt, vera gagnrýnið, en um leið opið, gefandi með mildina að leiðarljósi. 


Mildin í hugsun, orðum og gjörðum 


Ég tel að við þurfum að rækta mildina í samfélaginu, í hugsun okkar, orðum og gjörðum, og æfa okkur í því að setja okkur í annarra spor.  


Hvað finnst þér? 


Hugum að því sem okkur þykir mikilvægt, sem okkur þykir skipta mestu. Í textum Biblíunnar er Guð að kalla okkur til þess. Ég bið að Guð gefi okkur sína náð til að rækta það í okkar lífi sem okkur þykir dýrmætast og Guð kallar okkur til.  


Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  


Takið postullegra kveðju: 

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Prédikun flutt í Grensáskirkju 4. sd. eftir þrenningarhátíð, 10. júlí 2022.