Hátíðarfólk

Hátíðarfólk

Þá sigldu kaupmenn til fjarlægra heimshorna fyrir nokkra bauka af negul og kanil. Saltnámur skiluðu miklum auði. Jesús talar um konunga í guðspjallinu, en hvaða hirð gat notið þeirrar tónistar og leiklistar sem íslenskur grunnskólanemi hefur aðgang að? Já, að fara í heita sturtu – það þótti nýlunda fyrir kynslóð afa míns og ömmu. Svona mætti áfram telja, klæðaskápar, ferðalög, leikir, svo ekki sé nú talað um heilsugæslu og læknisþjónustu. Hvaða sólkonungar áttu roð í okkur þegar kemur að því úrvali öllu? Er það von að við þykjumst tróna yfir öllu og öllum og geta valið á milli kostanna þegar kemur að sjálfum eilífðarmálunum? Munaðurinn hefur þrátt fyrir allt fengið guðlegan sess.

 Gleðilega hátíð segi ég nú bara. Já hér á eftir hefjast veisluhöld á Torginu þegar hann Högni fagnar með fólkinu sínu þeim merkisáfanga að hafa játað Jesú Krist sem leiðtoga lífs síns.


Hátíðlegt fólk

 

Og þessa sunnudagana fram að aðventu, erum við með hátíðina á vörunum, þessa þrenningarhátíð sem gekk í garð fyrir hálfum mánuði án þess þó að frí væri gefið í skólum eða nokkur fáni væri dreginn að húni sérstaklega af því tilefni. Þrenningin er raunar gamalt þrætuepli í kirkjusögunni, þar sem guðfræðingar í fornöld reyndu að orða það sem ekki verður skilið til fulls, nefnilega guðdóminn sjálfan.

 

Mörgum þeirra þótti fara best á því að ræða þau mál út frá því hvernig Guð birtist okkur í Biblíunni, sem skaparinn, Jesús Kristur og svo andinn heilagi sem mætir okkur á hverri stundu. Og þarna skyldi vera jafnræði á milli, enginn væri öðrum fremri. Mér finnst það satt að segja furðu nútímaleg hugsun. Hún birtist jú löngu síðar, á 18. öld þegar ríkisvaldinu skyldi skipt upp í þrjá jafnvíga arma og ætti enginn að vera öðru fremri. Þaðan kemur þrenningarhátíðin, beint eftir hvítasunnu.

 

Við erum hátíðlegt fólk hérna í kirkjunni, þegar dagamunur er í samfélaginu og margur hyggur á ferð til heitari slóða eða vill dorma einhvers staðar í sumarbústað – er fyrirferðin mest á okkur. Við komum fólki fyrir sjónir þegar eitthvað stendur til: „Hvar geyma þeir prestinn til næstu jóla?“ spurði strákurinn þegar fjölskyldan gekk út úr helgidómnum að loknum aftansöng á aðfangadag. Hið sama á auðvitað við um fermingarnar.

 

Jú, þarna á milli eru margar hátíðir, vikulegar í það minnsta og við meira að segja bjóðum til borðs. Altarisgangan er eins og hátíð í örskömmtum en vísar í helga máltíð þegar þeir settust að borðum á páskunum hið forna, Jesús og lærisveinarnir. Hún vísar líka fram fyrir sig. Hún tengist hugmyndinni um hina æðstu sælu og í samhengi kristninnar hefur himnaríki oft verið líkt við veisluborð. Þar ríkir hvorki hungur né einsemd.

 

En af hverju þetta hátíðartal, fyrir utan þá staðreynd að senn fara brauðréttir í ofninn hér í safnaðarheimilinu og aðrar glæsilegar veitingar verða bornar á borð?


Samhengi guðspjallsins

 

Jú, í guðspjalli dagsins hefur Jesús nýlokið við að segja sögu af veislu. Þetta var reyndar ekki fermingarveisla heldur var það einmitt kvöldmáltíð. Og gestgjafinn varð svekktur því fína fólkið í bænum sem hann hafði boðið sá sér ekki fært að mæta. Allt var tilbúið – borðin svignuðu undan veitingum, tónlistarfólkið búið stilla saman strengina, það vantaði bara gestina. Afsakanir streymdu úr öllum áttum. Fyrirfólkið hafði of mörg járn í eldinum.

 

Gestgjafinn, sem hlýtur að vera guðdómurinn sjálfur, sendi því þjóna sína af stað og sagði þeim að bjóða öllum hinum, já þessum sem aldrei var boðið neitt. Það var því úr að fátækir, veikir, vandalausir, fylltu heimilið og nutu góðgjörðanna. Hinir máttu éta það sem úti frýs – þótt það orðatiltæki hafi reyndar átt illa við á sólbökuðum söndum Galíleu.

 

Guðspjallið sem er nú í harðorðari kantinum er illskiljanlegt nema með því að gefa gaum að samhenginu sem er jú áhugaleysi hinna útvöldum á því að mæta í veisluna. Þetta er einn af hvassari textum sem hafðir eru eftir Jesú og þegar gagnrýnendur kristindómsins hafa talið upp átökin í Gamla testamentinu staldra þeir gjarnan við þennan texta. Hann er jú ekki sérstaklega fjölskylduvænn og satt að segja hálf óþægilegt að lesa hann nú þegar fólkið hans Högna kemur hingað til að samgleðjast á merkum tímamótum.

 

En til þess að skilja hann þarf jú að gefa samhenginu gaum. Hér talar Jesús um það sem við getum kallað æðstu gæði hverrar manneskju, það sem varðar okkur mestu. Það er einmitt þetta sem textarnir sem við hlýddum hér á eiga sameiginlegt. Þeir fjalla um það að eiga sér tilgang eða eins og það er orðað í Biblíunni – að eiga sér köllun. Hann grípur til kunnuglegra stílbragða í viðleitni sinni til að beina sjónum okkar að því sem er dýrmætt og tímalaust – nefnilega því sem við köllum ýkjustíl. Þar er vegið að því sem okkur er kærast en um leið er vísað í þau verðmæti sem við ættum helst að huga að.


Útvalin og ofalin

 

Og það verður að segjast að áminning sú hefur elst harla vel, verð ég að segja. Þarna var vísað í þessi útvöldu, gyðingana þar sem Jesús starfaði. En hér erum við, útvalin í samhengi kynslóðanna. Njótum munaðar sem kóngafólki fyrri alda stóð ekki til boða. Það er merkilegt að bera saman hversdagleg gæði okkar við það sem þótti yfirgengilegur munaður hér forðum.

 

Þá sigldu kaupmenn til fjarlægra heimshorna fyrir nokkra bauka af negul og kanil. Saltnámur skiluðu miklum auði. Jesús talar um konunga í guðspjallinu, en hvaða hirð gat notið þeirrar tónistar og leiklistar sem íslenskur grunnskólanemi hefur aðgang að? Já, að fara í heita sturtu – það þótti nýlunda fyrir kynslóð afa míns og ömmu. Svona mætti áfram telja, klæðaskápar, ferðalög, leikir, svo ekki sé nú talað um heilsugæslu og læknisþjónustu. Hvaða sólkonungar áttu roð í okkur þegar kemur að því úrvali öllu? Er það von að við þykjumst tróna yfir öllu og öllum og geta valið á milli kostanna þegar kemur að sjálfum eilífðarmálunum? Munaðurinn hefur þrátt fyrir allt fengið guðlegan sess.

 

Þess vegna gæti það þótt ráðgáta að samtíminn skuli ekki einkennast af einskærri gleði og innihaldsríku lífi. Raunin virðist vera öll önnur. Það er eins og tómarúmið gapi undir litríku yfirborðinu. Lyfin hjálpa fólki að sofna og koma því svo af stað aftur í daginn, hjálpa að gleyma og deyfa þessar þrautir sem sækja að sálinni. Skyldi nokkurn hafa grunað slíkt, á þeim tímum þegar öll gæði voru svo naumlega skömmtuð?

 

Já, „hvar geyma þeir prestinn til næstu jóla?“ spurði strákurinn. Textarnir fjalla um þá guðsþjónustu sem fer ekki aðeins fram á helgum dögum, hátíðum og sunnudögum. Hún snýst um það hvernig við lifum lífinu. Guðsþjónustan fer ekki bara fram í hádegisbirtu sunnudagsins. Hún á sér stað þegar við ferðumst frá vöggu til grafar og byggist á því að við nýtum þann tíma sem okkur er úthlutaður til þess að, já þjóna Guði.

 

Það er þetta sem Biblían segir vera köllun, að lifa sem verðug manneskja, sækjast eftir því sem er gott og byggir upp. Þetta sem Högni þekkir vel úr fræðslunni, boðorðin, Gullna reglan, tvöfalda kærleiksboðorðið. Þetta eru ekki krásir og fáheyrður munaður, þetta eru ekki gæði sem við getum sótt fyrirhafnarlaust. Þetta fjallar þvert á móti um hlutverki okkar, skyldur okkar og ábyrgð. Og sem slíkt er það algjörlega tímalaust.

 

Það er einmitt inntak textans úr Orðskviðunum sem Högni valdi sjálfur: „Sá sem ástundar réttlæti og kærleika öðlast líf, velgengni og heiður.“ Þessi orð hafa staðist bæði þrengingar og velsæld og megir þú hafa þau að leiðarljósi kæri Högn í lífi þínu.