Takk, heilbrigðisstarfsfólk!

Takk, heilbrigðisstarfsfólk!

Á Degi heilbrigðisþjónustunnar viljum við þakka öllu því góða fólki sem vinnur hörðum að því að hjálpa okkur og ástvinum okkar þegar heilsan bregst eða slys verða. Temjum okkur að tala af virðingu um störf þeirra. Þó gagnrýnin í heita pottinum og kommentakerfunum snúi sjaldnast að þeim einstaklingum sem vinna innan heilbrigðisþjónustunnar heldur kerfi sem mörg telja að þurfi að bæta, hlýtur að vera sárt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að hlusta í sífellu á neikvæða umræðu um sitt vinnuumhverfi.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann á degi heilbrigðisþjónustunnar er þakklæti. Þakklæti fyrir öll þau sem starfa innan heilbrigðiskerfisins, þakklæti fyrir að við skulum hafa slíkt kerfi. Það er ekki sjálfgefið. 

 

Okkur er kannski tamara að kvarta undan heilbrigðiskerfinu og getum sjálfsagt flest bent á ýmsa vankanta þess. Það er mikilvægt að við sem íbúar í lýðræðisþjóðfélagi höldum vöku okkar gagnvart sameiginlegum kerfum og eðlilegt að við viljum að þau séu sem skilvirkust. En það eitt að hér á Íslandi skuli vera kerfi sem tekur við okkur þegar við veikjumst eru lífsgæði sem við megum ekki gleyma að þakka fyrir.

 

Það er líka mikilvægt að þakka fyrir þau sem þjóna innan þessa kerfis, fyrir hjúkrunarfólk og lækna, ljósmæður, tannlækna, lyfjafræðinga, sjúkraliða, matvæla- og næringarfræðinga, sjúkraþjálfara, sjúkrahúspresta og – djákna, sálfræðinga, iðjuþjálfa og annað sérmenntað fólk í heilbrigðisvísindum, sem og öll þau sem starfa við að halda kerfinu gangandi með umönnun, þvottum, matseld, þrifum, tölvuumsjón og viðhaldi, svo nokkuð sé nefnt. 

 

Við klöppuðum fyrir þeim í Covid og ættum ekki að gleyma því að þrátt fyrir fjárskort, manneklu og endalausar skipulagsbreytingar í leit að hinu fullkomna kerfi eru þau öll að gera sitt besta – og stundum meira en það. Takk, heilbrigðisstarfsfólk!

 

Ábyrgð okkar

Hér í dag ætlum við að beina sjónum okkar að því hvað við sjálf, sem notendur heilbrigðiskerfisins, getum lagt af mörkum. Við getum beint hugsanlegri óánægju okkar í skapandi farveg með því að veita þeim sem taka ákvarðanir varðandi heilbrigðiskerfið, sem sagt stjórnmálakerfinu, aðhald og ábendingar. Nú hefur verið boðað til kosninga og fróðlegt verður að sjá hvað stjórnmálaflokkarnir hafa að segja um heilbrigðiskerfið sem gæti orðið til raunverulegra bóta. 

 

Hitt er annað, og það er aðalefnið hér í dag, á hvern hátt við getum létt á heilbrigðiskerfinu með því að bera ábyrgð á eigin heilsu. Þar getum við öll lagt lóð á vogarskálarnar, og ættum að gera það eins og hægt er. Við vitum að lífsstílssjúkdómar eru stór þáttur í álaginu á heilbrigðiskerfið og þar kemur okkar eigin ábyrgð inn. 

 

Auðvitað þekkjum við ótal dæmi um fólk sem annað hvort veikist vegna sjúkdóma sem erfast og líka þau sem veikjast þrátt fyrir að hafa lifað eins heilbrigðu lífi og unnt er, að ekki sé talað um slys sem sjaldnast gera boð á undan sér. Þar stöndum við ráðþrota gagnvart lífinu – og dauðanum – eins og svo oft, skiljum ekki hvaðan þjáningin kemur og leitum svara án árangurs. 

 

Hverju get ég breytt?

Eina leiðin sem ég þekki til að mæta óskiljanlegum og óskýranlegum aðstæðum er æðruleysið, að viðurkenna vanmátt minn gagnvart aðstæðum sem ég fæ ekki breytt og biðja Guð um kjark til að breyta því sem ég get breytt – og vit til að greina þar á milli. 

 

En hverju getum við þá breytt, þegar kemur að heilsu og heilbrigði? Við þekkjum sennilega svörin við þeirri spurningu, vitum hvað er okkur hollt og stuðlar að betri heilsu. En það er gott að rifja það upp endrum og sinnum til að minna sig á og skoða hvað mætti bæta. 

 

Ég nefni hér aðeins nokkur atriði. Byrjum á hvíldinni. Er það ekki hressandi – venjulega er hreyfingin talin fyrst!!! Það væri reyndar í samræmi við virkni Guðs sem hvíldist á sjöunda deginum eftir harla góða sköpunartörn. En hvíldin er mikilvæg og gleymist oft hér á landi þar sem það er dyggð að vera dugleg/ur, eins og oft hefur verið sagt.

 

Hvíld og jafnvægi

Hvíld er bæði nægur nætursvefn og líka að taka sér hlé á vökutíma, til dæmis með andlegri iðkun af einhverju tagi, morgunbæn til að stilla af dagsformið og minna okkur á að Guð er með okkur í verkefnum dagsins, kyrrðarbæn síðdegis eða önnur íhugun, kvöldbæn til að þakka Guði fyrir samfylgd dagsins og leggja áhyggjuefnin okkar í faðm Guðs fyrir svefninn. Hvíld getur líka verið tilbreytingin, að fá sér ferskt loft eftir langa inniveru, standa upp eftir langa setu, fleygja sér eftir langa stöður. 

 

Svo er það vökunin og næringin. Allar lífverur þarfnast vökva og næringar og við finnum líklega flest mun á líðan okkar hvort við drekkum og borðum hollustu eða ekki. Vatnið er auðvitað best – en einn kaffibolli eða svo hefur góð áhrif á heilann og te af öllum tegundum hefur jákvæð áhrif á ýmsa líkamsstarfsemi. Í náttúrunni leita dýr að þeirri fæðu sem passar þeirra líkamskerfi og staðháttum og neyta yfirleitt mátulega, ef þau ráða sér sjálf. Hjá okkur mörgum er þetta ýmist of eða van, við drekkum of lítið af vatni eða drekkum of mikið af öðru, við borðum of mikið af unninni óhollustu en of lítið af því sem nærir og styrkir líkamann.

 

Dans og félagstengsl

Um hreyfingu er kannski óþarft að fjalla, en bara rétt að minna á að við erum öll ólík, bæði að ytri og innri gerð, og við þurfum ekki öll að stunda langhlaup eða lyftingar. Dans heima á stofugólfinu, hæfileg ganga, helst utan dyra og í dagsbirtu, léttar æfingar, þetta ráðum við flest við. Og allt er betra en ekkert!

 

Já, heilsan er nokkuð sem við getum haft áhrif á sjálf að einhverju leyti. Jafnvel þegar við erum í aðstæðum sem við ráðum ekkert við og er engum að kenna, heldur ekki okkur sjálfum, getum við tamið okkur að staldra við og hugsa: Hvað get ég gert til að bæta líðan mína? Það þarf ekki að vera mikið eða flókið – alls ekki því þá er miklu meiri hætta á að við gefumst upp. Bara lítil atriði sem geta bætt lífsgæði okkar og þar með annarra því við erum líklegri til að geta hlúð að öðrum ef við hlúum að eigin heilsu. Og ekki má gleyma að félagsleg tengsl eru heilsunni mikilvæg og hamingjan eykst þegar við gefum af okkur. 

 

Tölum af virðingu

Kæru vinir. Á Degi heilbrigðisþjónustunnar viljum við þakka öllu því góða fólki sem vinnur hörðum að því að hjálpa okkur og ástvinum okkar þegar heilsan bregst eða slys verða. Temjum okkur að tala af virðingu um störf þeirra. Þó gagnrýnin í heita pottinum og kommentakerfunum snúi sjaldnast að þeim einstaklingum sem vinna innan heilbrigðisþjónustunnar heldur kerfi sem mörg telja að þurfi að bæta, hlýtur að vera sárt fyrir heilbrigðisstarfsfólk að hlusta í sífellu á neikvæða umræðu um sitt vinnuumhverfi. 

 

Og við viljum einsetja okkur að vera með lífinu í liði, hlú að eigin heilsu og annarra eftir því sem það er á okkar færi. Hér hefur aðeins verið minnst á æðruleysi og andlega iðkun – sem er bara fínt orð yfir bænalíf. Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg en líkamleg og auðvitað er ekkert vatnshelt skilrúm þar á milli. Geðheilbrigði hefur verið í brennidepli núna í haust í gulum september með áherslu á forvarnir gegn sjálfvígum og á alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn, 10. október. Geðheilbrigði tengist líkamlegri, félagslegri og andlegri heilsu og allt er þetta samofið. 

 

Heilsubótin í kirkjunni

Í kirkjunni ræktum við trú okkar í samfélagi við annað fólk. Það eitt er heilsubót. Við syngjum saman, sem er mjög heilsusamlegt eins og rannsóknir sýna, leggjum kvíðaefni okkar og heimsins fram í bæn, og spjöllum saman á undan og eftir messu, þegar færi gefst. 

 

Hér heyrum við um og fáum að reyna lífsbætandi og heilsueflandi nálægð Guðs sem vakir yfir okkur allar stundir. Hér getum við lagt frá okkur hlutverkin sem við gegnum í hversdeginum og bara verið við sjálf, umvafin kærleika Guðs sem er stærsta gjöfin. Og hér tökum við á móti náðargjöfum Guðs, hér virkjast í lífi okkar, öðrum til blessunar, gjöf trúar, vonar og kærleika. Hér er Guð sem gefur æðruleysi, kjark og vit og gerir okkur heil, í Jesú nafni.

 

Því að þú komst mér til hjálpar,
í skugga vængja þinna fagna ég.
Sál mín heldur sér fast við þig,
hægri hönd þín styður mig.

Sálm 63