Húsið fylltist af ilmi smyrslanna. Þetta var gleðistund hjá systkinunum Lazarusi, Mörtu og Maríu. Lazarusi hafði fengið nýtt líf, vinur hans, Jesús – og lærisveinarnir auðvitað – sátu veislu í húsi hans. Og María kemur með dýr, ómenguð nardussmyrsl. Hún smyr fætur Jesú og þerrar með hári sínu. Kannski gekk það fram af einhverjum en húsið fylltist af ilmi smyrslanna. Ilmur – lykt – kannski ekki oft nefnd í guðspjöllunum. Við sjáum það samt í kaflanum á undan þegar Marta reyndi að koma í veg fyrir að Jesús opnaði gröf Lazarusar – af því að hann hefði verið dáinn í fjóra daga og það væri örugglega komin nálykt. Ilmur smyrslanna skapar andstæðu við nályktina, gleðin kallast á við sorgina. María smyr fætur Jesú, sem sjálfur þvær síðan fætur lærisveinanna. „Sá sem vill vera mestur meðal ykkar skal vera þjónn allra.“ María skilur það. Júdas gerir það ekki. Hann mótmælir eyðslunni – hefði ekki verið hægt að gefa þetta fátækum? Jesús svarar: „Fátæka hafið þið alltaf hjá ykkur.“ Tilvitnunin er í fimmtu mósebók, 15. kafla, þar sem segir að fátækra muni aldrei verða vant í landinu og því ber okkur að ljúka upp hendi okkar fyrir þurfandi. En svo bætir Jesús við: Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.
Inn í angan smyrslanna blandast önnur lykt – lykt af ryki og hermönnum, reiðu fólki, dauða, blóði – en þau finna hana vart því að enginn vill hlusta á Jesú þegar hann talar um dauða og greftrun. Hvað getur verið betra og öruggara en að sitja á heimili, borða góðan mat, gleðjast saman.
--
Það eru ekki tveir mánuðir síðan á fjölmörgum heimilum í Úkraínu sat fólk og borðaði saman kvöldmat. Ræddi hversdagslega hluti, talaði um draumana. Irina Lopuga og maðurinn hennar ætluðu að eignast eigið hús – og svo langaði þau líka að ferðast – að komast til Egyptalands.
Þau grunaði ekki að innan skamms myndu þau flýja sprengingar og ógn. Að það tæki þau tvo daga að mjakast í bílalest að pólsku landamærunum með börnin. Og þar myndu þau skiljast að.
Var svona stríð virkilega raunveruleikinn árið 2022. Eitthvað sem sumir þekktu aðeins af sögunum frá heimsstyrjöldinni síðari, sem í Sovétríkjunum var kölluð Ættjarðarstyrjöldin mikla. Það var ótrúlegt, óraunverulegt og óendanlega hryllilegt að heyra sprengjurnar falla, finna lyktina af eldi og brennisteini – enn hryllilegra að heyra af afleiðingum sprengjuregnsins. Af fólkinu sem varð fyrir sprengjunum.
---
Það eru tvær sögur í guðspjalli dagsins. Sú fyrri lýsir samverunni í húsi vina Jesú, í húsi Lazarusar, Mörtu og Maríu. Það var í Bethaníu, þorpi skammt frá Jerúsalem.
Sú seinni lýsir því Þegar Jesús heldur áfram ferðinni inn til borgarinnar. Páskar nálgast, það er fjöldi fólks á veginum og auðvitað tekur fólk eftir Jesú, þessum mikla lærimeistara – spámanni – lækni – já, það hafði frést að hann hefði reist mann upp frá dauðum. Margir héldu því fram að hann væri Messías, sem skyldi leysa þjóðina. Og þjóðin vildi lausn – lausn undan oki hernáms Rómverja. Var komið að uppreisn?
Í ljósi þessara hugmynda er innreið Jesú á baki ösnufola mikilvæg. Þar var ekki stríðsherra á ferð, heldur friðarhöfðingi. Og fólkið hreyfst og veifaði pálmagreinum og hrópaði Hósanna. Það hefur verið gaman að vera í fylgdarliði Jesú þennan dag. Gaman að vera lærisveinn svo vinsæls manns. Jú, það voru blikur á lofti – en hvað gat klikkað þegar leiðtoginn var svona vinsæll. „Hósanna,“ hrópaði fólkið. Áður en vika var liðin höfðu þau óp breyst í „krossfestu hann.“
--
Það þyrmdi yfir mig eins og ugglaust ykkur öll þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Ekki af því að stríð væri eitthvað sem við höfum verið laus við hér á jarðarkúlunni á þessari öld – hörmungar þess eru því miður daglegt brauð víða. En ég man aðra tíma í Evrópu. Ég fæddist 19 árum eftir að því sem við köllum seinni heimsstyrjöldin lauk. Fyrir mér var það stríð forneskja þegar ég óx úr grasi á tímum kalda stríðsins. Ég var ungur blaðamaður í austur Evrópu þegar múrar hrundu og frjálsar kosningar voru haldnar. Ég man ennþá vonina í augum fólks, gleðina yfir frelsinu – en man líka ótta við breytingarnar. Ég bjó síðar í einu af löndum fyrrum Sovétríkjanna, man fátæktina og líka nýríka fólkið, fylgdist með breytingum sem því miður birtust í vaxandi spillingu og einræðistilburðum í því landi – og mafíum, en síður í lýðræði. Í öðrum nýfrjálsum ríkjum gekk þó sums staðar betur.
Margir óttast að innrás Rússa í Úkraínu sé fyrirborði frekari átaka. Átaka þar sem ungir menn, unglingar, eru sendir til að drepa fólk sem þeir eiga ekkert sökótt við og hatur magnast milli bræðraþjóða. Við getum vel gert okkur í hugarlund þau áföll sem fólk upplifir, hrætt, á flótta, í sprengjuregni – og í hernum. Áföll sem fylgja mörgum þeirra alla æfi – og lengra því að minnið um áfallið, birtingarmynd áfallsins, erfist í fjölskyldum, setur mark á þær kynslóðum saman.
--
Hvernig gat þetta gerst árið 2022 spurðu margir. Og ég minntist þess að hafa heyrt svipað um árin fram að stríðinu sem hófst 1914 og við köllum nú heimsstyrjöldina fyrri. Þá var svo mikil bjartsýni ríkjandi – við höfðum lært svo mikið – vísindi voru að leysa allan vanda og upplýst fólk var skynsamt fólk og gott. Það færi ekki í stríð. Sem reyndist rangt. Við viljum horfa á það góða, á möguleika manneskjunnar, á kærleikann og það er gott. En við megum ekki gleyma hinu að í okkur öllum býr möguleikinn að gera illt. Að breyta rangt.
Einn af rauðu þráðum Biblíunnar er einmitt glíman við hið illa í heiminum. Hvers vegna breytir fólk ekki alltaf rétt – til góðs? Við sjáum þetta strax á fyrstu blaðsíðum Biblíunnar, í sögunni af syndafallinu, sem er svo sönn í því að lýsa mannlegum tilfinningum og viðbrögðum. Adam og Eva bregðast við frelsi sínu eins og börn. Þau gera eitthvað sem ekki má, þegar þau horfast í augu við það reyna þau að fela sig og þegar gengið er á þau kenna þau öðrum um. Hvar ertu? spyr Guð og svo Hvað hefurðu gert?
Biblían setur nafn á það ástand mannkyns að velja að gera rangt og kallar það synd. Á grísku er orðið hamartía, sem þýðir að missa marks. Það er góð lýsing á ástandinu. Og svo fjallar Biblían öll um það hvernig Guð leiðir samfélag og leiðbeinir og hvetur til að setja reglur, bæta líf, gera það sem rétt er.
Og nú erum við stödd á pálmasunnudag heimilinu þar sem smyrslin anga eða á leið til Jerúsalem syngjandi fagnaðarsöngva. Í gleðinni og örygginu. En vitum að handan hornsins eru svik, ofbeldi, dauði á krossi. Því að Kristur varð einmitt fyrir því óréttlæti sem leiddi af ástandinu sem við köllum synd og birtist skýrast í ofbeldi ríkjandi afla, á öllum tímum.
„Hið góða, sem ég vil, geri ég ekki en hið vonda, sem ég vil ekki, það geri ég.“ segir Páll postuli í Rómverjabréfinu. Áhersla Páls postula er að minna á verk Krists sem sátt milli okkar og Guðs. Guð þekkir og skilur og fyrirgefur. En Pállhvetur líka þau sem lesa eða heyra bréfið til að muna að þau geta valið að breyta rétt og segir „Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ Á hverri stundu dagsins er það líka val okkar.
--
Irina Lopuga og fólkið frá Úkraínu sem nú er á flótta vonast til að geta snúið aftur heim. En þá þarf að byggja upp. Það kostar tíma og peninga. Það getur því teygst á dvölinni.
Fyrir nokkrum árum braust út borgarastyrjöld í Sýrlandi sem ekki sér fyrir endann á. Það leiddi til þess að hátt í sjö milljónir manna þurfti að flýja landið. Við munum ugglaust mörg eftir myndum af því og eftir viðbrögðum í Evrópu sem voru bæði góð og slæm. Hér var mikill áhugi og mikil samúð en sumir sem hingað hafa leitað úr þessum hópi og beðið um hæli hafa ekki fengið jafngóðar mótttökur. Samúðarþol þjóðarinnar er nefnilega ekki alltaf sterkt. Við eru góð að bregðast við neyð en skortir þolið sem þarf vegna þess að svona ástand getur varað lengi. Verst er þegar við snúum baki í neyðina og gerum hana jafnvel tortryggilega. Þegar Hósanna breytist í Krossfestu!
Ég hef hitt unga menn og konur sem hingað hafa flúið og beðið um hæli. Efst á óskalista þeirra er að fá vinnu og geta séð fyrir sér og lifað í friði. Margir hafa lent í ólýsanlegum aðstæðum og þjást af áfallastreitu, líkt og mörg þau sem hingað koma núna frá Úkraínu. Af því að það tekur bara andartak að hleypa af fyrsta skotinu og hefja átök. En það tekur langan tíma að koma á friði sem byggir á réttlæti og græða sárin sem af átökum hljótast.
Þess vegna kalla þessar aðstæður á þrautsegju, ekki bara þeirra, heldur líka okkar í umhyggju og stuðningi. Og alveg sérstaklega skulum við muna að syngja hósanna áfram og sleppa krossfestingum.
--
Páskavikan, sem hefst í dag, er tækifæri til að íhuga píslarsöguna og skoða okkur sjálf um leið. Til að minna okkur á að jafnvel árið 2022 er vel upplýst fólk sem tekur rangar ákvarðanir með skelfilegum afleiðingum. Að illskan er staðreynd nú, rétt eins og 1914, rétt eins og fyrir 2000 árum. En líka að við höfum bæði val og getu til að gera rétt, vinna að réttlæti og friði.
--
Angan dýra smyrslanna lagði um húsið allt. María hafði fórnað því besta og dýrasta af því að hún elskaði meistarann. Þegar kemur að því að vera lærisveinn þá vitum við að það getur kostað. Einmitt vegna þess að fátæka hafið þið alltaf hjá yður. Og vegna þess að Jesús sagði: allt sem þið gerið einum þessara minna minnstu bræðra og systra, það gerið þið mér.