Af og til ræðum við um himnaríki hér í helgidómnum. Þó það nú væri, gæti einhver sagt. Guðs ríki er ekki aðeins eitt helsta umfjöllunarefni guðspjallanna, við leyfum okkur einnig að túlka ýmsar frásagnir í því ljósi.
Hjúskaparmál í eilífðinni
Þannig lesa margir sæluboð Krists þar sem hann segir þau sæl sem eru hungruð, ofsótt, sorgmætt – í ljósi þess að í ríki Guðs muni réttlætið og kærleikurinn ráða og hlutur þeirra sem hafa orðið undir í lífinu verður réttur. Oftast þegar Jesús hefur frumkvæði að því að ræða um himnaríkið þá er það í líkingum, þá um eitthvað sem var týnt, stóð á jaðrinum en kom svo í leitirnar. Veisluhöld eru algengt stefið í þeim efnum. Himnaríki tengist veruleika sem er okkur hulinn, ef til vill ofvaxinn skilningi okkar.
Það er sjaldan sem tónninn er jafn afdráttarlaus og í þessari frásögn. Saddúkear voru eins og fram kemur í textanum hópur manna sem neitaði upprisunni, eða yfir höfuð því að nokkuð tæki við að þessu lífi loknu. Sú var reyndar afstaðan víðast í því samfélagi sem við lesum um í Gamla testamentinu þar sem lítið er fjallað um handanheima.
Í Davíðssálminum sem hér var lesinn eru dregnar fram andstæður í lífi skáldsins: þorstinn og skorturinn þar sem Guð er fjarlægur. Og svo á hinn bóginn sældin og mettunin þegar einstaklingurinn hefur fundið Guð sinn. Það hefur ekkert með önnur líf eða tilverustig að gera. Hér er eingöngu vísað til jarðlífsins sjálfs.
Þess vegna getum við sagt að það sé ekki nema von þótt spurt sé eins og þeir gera – hvernig hjúskaparmálum sé háttað í himnaríki. Flækjustigið getur verið ærið í okkar takmarkaða heimi, hvað þá þegar við erum komin út á lendur eilfíðarinnar.
Svarið sem þeir fá er í sjálfu sér ekki nákvæmt og kallar mögulega á fleiri spurningar en það svarar. Guð er að sögn Jesú ekki „Guð dauðra heldur lifenda“ en hann gefur til kynna að lífið eigi sér einhverja framhaldsvist. „Hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi“ segir hann á öðrum stað.
Hvaða draumar vitja dauðasvefnsins?
Sjálfur hef ég alltaf goldið varhug við því að gægjast of langt og of djúpt niður í þá huldu heima sem bíða að lokinni jarðvistinni. Hvað tekur við þegar lífi okkar lýkur?
Í einni frægustu ræðu bókmenntanna spyr danski prinsinn Hamlet sig að slíku: „Því hvaða draumar dauðasvefnsins vitja þá holdins fjötrafargi er af oss létt?“ (þýðing, Helgi Hálfdánarson) og litlu síðar: „því það er þessi gaumur sem treinir mæðunni svo langa lífdaga.“ Með öðrum orðum – margur þolir órétt vegna óttans eða vonarinnar um það sem tækivið að lífdögum loknum.
Þeirri spurningu hafa ýmsir reynt að svara þótt oft hafi virst sem ör þróun þekkingar og upplýsinga hafi sett endapunkt við þá leit. Ég skal ekki segja. Í þeim efnum vakna oft nokkrar spurningar við hvert það svar sem opnast okkur mönnunum.
Nýverið las ég sjálfsævisögu Erlendar Haraldssonar sálfræðings, en hann kafaði ofan í þau myrku undirdjúp á sínum langa fræðimannsferli. Erlendur andaðist fyrir ári, nánast upp á dag, og var jarðsunginn héðan frá Neskirkju.
Hann helgaði sig umdeildu sviði sinnar fræðigreinar sem kallast dulsálarfræði og gefur sig að ýmsu því sem kann að vera á mörkum þess sem varðar mörk þess sem við getum skilið og skilgreint út frá okkar heimsmynd.
Meðal annars rannsakaði hann sýnir fólks á dánarbeði og dulskynjun fólks sem hann kvaðst geta sýnt fram á að væri mælanleg þótt vissulega væri hún ekki áreiðanleg. Ég deili því með ykkur að ég hreifst af einlægni Erlendar og dirfsku að setja fram kenningar sínar sem stangast svo mjög á við þær forsendur sem vísindamenn byggja almennt ransóknir sínar á.
Og frásagnirnar eru margar hreint með ólíkindum, svo að Erlendur sjálfur segir að tilviljanir geti vart skýrt niðurstöður þessara rannsókna. Þá hafa margir greint frá upplifun sinni (ef svo má að orði komast) af því að fara yfir móðuna miklu. Við erum svo lánsöm að lifa á tímum þar sem unnt er að endurlífga fólk sem hefur hætt líkamsstarfsemi, nokkuð sem var ekki mögulegt fyrir daga nútímalæknisfræði.
Erlendur og samstarfsfólk hans hefur safnað saman þeim sögum sem þetta fólk miðlar. Lýsingar þeirra sem vakna upp af dauðasvefninum segir hann vera merkilega samhljóða. Fólkið greinir frá birtu, kærleika og fegurð, látnir ástvinir koma eins og til að fylgja því yfir á ókunnar lendur.
Á vit hins ókunna
Erlendur varpar fram þeirri tilgátu í lok ævisögu sinnar að mögulega þurfi samtíminn að endurskoða þá mynd sem við höfum af tíma og rúmi.
Ef til vill erum við ekki á þessari línulegu vegferð í gegnum tímaskeiðin, þótt við kunnum að upplifa slíkt og skynja. Hann giskar á að tíminn sé fremur einhvers konar ferli, þar sem víxlverkun geti átt sér stað og hún skýri sitthvað af því sem hann hefur orðið áskynja í fræðistörfum sínum.
Fyrir leikmann að minnsta kosti, virðast rannsóknir raunvísindamanna á þessu dularfulla fyrirbæri sem tíminn er benda til þess að hann sé í það minnsta margbrotnari en hversdagsleg reynsla okkar gefi til kynna. Sífellt mæta okkur nýjar ráðgátur eftir því sem þekkingunni fleygir fram. Er alheimurinn okkar aðeins einn af mörgum og hvað merkir það? Ef sú er raunin fær hugtakið „yfirnáttúra“ skyndilega aðra merkingu og verður raunhæfari en áður kunni að þykja.
En hér þarf að gæta allrar varúðar og það hefur kirkjunnar fólk löngum gert. Við störfum á lendum hins óþekkta og á þeim sviðum snýr boðun okkar að von og trausti, en ekki greiningum og mælingum. Ég hef hlýtt á gestapredikara tala hér í Neskirkju sem sagðist hafa glatað trúnni á Guð vegna þess að hann hafi aldrei fengið vitjun frá látnum ástvinum.
Ekkert gæti verið fjarri þeirri boðun sem við miðlum héðan úr kirkjunni. Því þótt við eigum texta um engla og himnafarir, um tóma gröf og upprisu, þá er boðskapur Biblíunnar furðu jarðbundinn. Sögusviðið og er oftar á jörðu en á himni. Við lesum af fólki sem var af þessum heimi, svitnað, fann fyrir hungri, öfund, ótta og ást. Þessi er vettvangurinn sem Biblían ávarpar. Og óvissan sem vaknar þegar Jesús talar um aðra heima eru slík að við getum ekki fellt neina afdráttarlausa dóma þar um.
Dæmin sýna líka að þar er margt að varast og birtan sem laðar okkur til sín getur reynst vera villuljós. Margir hafa gert sér forvitni fólks um handanheima að féfþúfu. Það sem í fljótu bragði virðist vera hið mesta hnoss þarf ekki að vera rétti áfangastaðurinn á leið okkar í gegnum lífið. Því er reyndar stundum þveröfugt farið.
Já Draumar dauðasvefnsins sem Hamlet talar um, kallast á við þekktar ljóðlínur Steins Steinarrs. „Í draumi sérhvers manns er fall hans falið“, orti Steinn og hélt áfram:
„Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.“
Í þessum orðum skáldsins felst sú áminning að draumar okkar geti um síðir orðið okkur að falli. Og skilaboðin eru jafnan þau sömu: Sú viðleitni sem dregur okkur áfram getur þrátt fyrir allt verið leiðin til glötunar.
Já, hvað er himnaríki? Er það nautn og friðsæld? Er að líf ríkt að tilgangi og merkingu? Er það staður þar sem englar svífa um og tengsl fólks eru af öðrum toga en hér í jarðvistinni?
Hér og nú
Að endingu talar boðskapur Biblíunnar til okkar hér og nú. Við erum hvött til að vinna ljóssins verk meðan dagur er, vaka og elska áður en dauðasvefninn vitjar okkar. Við erum vöruð við því að villast í leit að því sem ekki verður kannað til fulls - í hinum dimma kynjaskógi, eins og skáldið komst að orði.
Í Davíðssálminum eru þessar andstæður dregnar fram – hinn skrælnandi þorsti sem heltekur þann sem leitar og ekki finnur. Sú manneskja er eins og stödd í vatnslausri eyðimörk. Andstætt því boðar hið forna skáld þann kost að vera mett – það er samfélagið við Guð. Það er fullvissan um að við séum umlukin náð Guðs og kærleika. Um það fjallar sú lofgjörð sem getur verið inntak í lífi hverrar manneskju.
Svo verðum við bara að sjá til um hvað bíður okkar þegar þeir lífdagar eru á enda.