Hversu gaman er í vinnunni? Já, hvernig líður okkur þegar við mætum á vinnustaðinn? Fólk veltir þessu eðlilega fyrir sér. Við helgum jú vinnuveitendum okkar virkasta vökutímann, komum oft lúin heim og eigum lítið að gefa þegar búið er að sinna ótal verkefnum.
Áhugalaus í vinnunni
Það er svo ekki að spyrja að því, að sumir hafa það að atvinnu að kanna svona lagað, til að mynda fyrirtækið Gallup sem sendir árlega spurningar til vinnandi fólks út um allan heim. Það kannar líðanina á þessum mikilvæga vettvangi eða öllu heldur áhugann sem svarendur hafa á því sem þeir fá borgað fyrir að gera.
Niðurstöðurnar birta þau svo í skýrslu sem við gætum þýtt sem: Ástandið á vinnuafli heimsins. Þar er farið yfir alla breiddina, allt frá þeim sem þrífast vel í vinnunni og til þeirra sem hreinlega þjást. Bilið þar á milli er svo afmarkað tilteknum vörðum sem gefa nákvæmari mynd af þessum málum.
Hversu hátt hlutfall jarðarbúa skyldi nú mæta til vinnu af áhuga og jafnvel eldmóði samkvæmt þessari könnun? Nú veit ég ekki hvernig ykkar ágiskun kann að hljóða. Sjálfur hugsaði ég með mér að væntanlega og vonandi væri það meira en helmingur. Svo er þó ekki. Þau eru ekki nema 23%. Innan við fjórðungur lýsir líðan sinni á þennan jákvæða hátt. Stærsti hlutinn segist ekki hafa áhuga en það eru heil 62%. Hvort sem okkur þykir það gott eða slæmt þá hefur fjöldinn sem nýtur starfa sinna farið vaxandi allt frá árinu 2009 þegar þessi könnun fór fyrst í gang. Þá var hlutfallið aðeins 12%.
Svo er það þriðji flokkurinn sem kann að vera áhugaverðastur – afsakið kaldhæðnina. En það eru þau sem á enskunni eru sögð vera actively disengaged, virkt áhugalaus gætum við kallað þau. Þetta eru 15% vinnuaflsins. Þessum þriðja flokki lýsa þau með því að hann leysi ekki vandamál, heldur búi þau til á vinnustaðnum. Það geri þau til dæmis með sífelldum aðfinnslum, neikvæðu umtali og reyni jafnvel að skaða reksturinn og starfsemina. Það er svolítið ógnvekjandi að hugsa til þess að á 100 manna vinnustað falla 15 manns í þann flokk.
Þeir taka dæmi af tilteknum svaranda sem féll í þennan flokk. Hann lýsti líðan sinni svo að hann væri svo þrúgaður af því hvernig starfseminni væri háttað að hann einsetti sér að vinna ekki nokkurn skapaðan hlut að gagni fyrir félagið. Fulltrúi stærsta hópsins lýsir því svo að störfin séu einhæf og leiðinleg. Markmiðið sé bara að komast heim sem fyrst. Einn úr hópi hinn ánægðu segist njóta vinnunnar og vinnufélaganna, hann kvaðst skynja það á sterkan hátt hversu þýðingarmikil störfin séu og gefandi.
Að sögn skýrsluhöfunda kostar þetta háa hlutfall áhugalausra starfsmanna (samtals 77%) hagkerfi heimsins hátt í 9 billjónir bandaríkjadala (og þá er ég tala um það sem enskir kalla trillion). Svo það eru ekki litlir hagsmunir í húfi.
Guðspjall dagsins fjallar einmitt um pirrað starfsfólk, verkamenn í víngarði nánar tiltekið. Þar er nú heldur betur verið að reyna á réttlætiskennd þeirra, eða hvað? Sennilega hefðu þeir svarað, ef aðspurðir, að launin væru eina ástæða þess að þeir mættu til vinnu. Það er því súrt ef þeir sem mættu rétt fyrir lok vinnudags fái sömu þóknun.
Nei, þetta hljómar næstum eins og svindl þar sem allir standa uppi með sömu sigurlaunin þrátt fyrir mismikið framlag. Við getum svo vel sett okkur í spor þeirra sem unnu lengstan vinnudag en fengu engu meira greitt en hinir sem mættu til vinnu rétt fyrir lokun. „Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.“
Svarið endar á þeirri speki sem margur hefur síðan vísað til ef lýsa á einhverri óreiðu, til dæmis íslenskri biðraðamenningu: „Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“
Textinn hefur verið túlkaður á ýmsa lund. Beinast liggur við að benda á að andspænis hinu takmarkalausa og eilífa gilda aðrar reglur en í mannlífinu. Það er vissulega ágæt byrjun og í hennar anda hafa kristnir menn litið svo á að þegar kemur að stöðu okkar gagnvart Guði, þá séum við komin út fyrir þau svið tilverunnar lögmálin um réttmætt endurgjald, ráða för. Í þeim efnum erum við einfaldlega þiggjendur. Góð verk og allt strit er ekki forsenda þess að Guð taki okkur til sín, heldur endurspeglar það fremur trú okkar og afstöðu.
Textinn á sér þó fleiri víddir og ein þeirra er eiginlega pólitísk ef svo má að orði komast. Hún er vissulega nátengd hinni en við getum lesið söguna í samhengi annarra frásagna Jesú. Og þá getum við spurt okkur hverjir tilheyri þessum flokkum verkamanna sem þarna koma við sögu. Eru þetta mögulega hópar sem lifðu og hrærðust í þessu umhverfi?
Gagnrýni Jesú beindist jafnan að þeim sem töldu sig standa ofar öðru fólki hvað varðaði guðhræðslu og frómleika. Hann ögraði þessum hópum í sífellu og gaf sig fremur að hinum sem stóðu á jaðrinum í samfélaginu eða jafnvel fengu ekki að vera hluti af því. Þetta var fólkið sem aðrir litu niður á og fordæmdu og Jesús benti í sífellu á að þessir einstaklingar væru jafn dýrmætir í augum Guðs og aðrir.
Já, hér kann að leynast lúmsk ádeila á þá sem töldu sig hafa höndlað sannleikann stóra og voru þess fullvissir að þeirra biðu ríkulegri laun en annarra. Enn í dag sjáum við hvernig ýmsir trúarhópar fordæma fólk sem fellur ekki inn í mynstrið, og nær sú dómharka langt út fyrir svið hins trúarlega.
Ástríða
En hvað þá með orð Páls postula hvernig hann agar sig eins og íþróttamann? „Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær,“ segir hann og vísar í þær fórnir sem hann var búinn að færa fyrir málstaðinn, sjálfsagann sem hann beitti og vitundina um hið háleita markmið. Hann sinnir þjónustu sinni ekki af þrælslund eða í bið eftir einhvers konar launum síðar meir. Nei, hann keppir að markinu og leggur sig allan fram. Hvatinn leynist innra með honum sjálfum.
Hvaða tenging er þetta við trúarsannfæringu og íþróttir? Jú, er það ekki ástríðan, eða áhuginn svo vitnað sé til þessarar könnunar sem rædd var hér að framan? Hana sjáum við hvað skýrast á leikvanginum. Nú síðustu helgi sauð upp úr á milli nágrannaliða og erkifénda í Liverpool borg eftir fótboltaleik. Leikmenn þrifu í treyjur hver annars og létu öllum illum látum. Rauð spjöld fóru á loft. Í umfjöllun um það hvernig boltayfirvöld á Englandi hyggjast refsa fyrir átökin sagði blaðamaður á BBC að það væri nú eiginlega synd því lætin öll sýndu að leikmenn brynnu af eldmóð fyrir liðin sín!
Já, ég berst eins og hnefaleikakappi, segir Páll. Leikir hafa jú markmið eða tilgang, nokkuð sem kann að skýra að hluta til ástandið sem hér var lýst. Bolti þenur út netmöskva, andstæðingur lyppast niður undan þungum höggum, fætur toga keppanda fyrstan í mark. Það er ekki að undra að íþróttir laði að sér aragrúa fólks, sem setur sig í spor þeirra sem strita og puða, gleðjast á sigurstundum og bera harm sinn misvel þegar illa gengur.
Þetta er andstæða þeirrar myndar sem hin alþjóðlega könnun dregur upp af vinnudegi jarðarbúa. Hér má greina hvernig fólk ver dýrmætasta tíma ævi sinnar í umhverfi þar sem það er ekki metið að verðleikum, fær hvorki frelsi né raunverulega hvatningu og leitar sennilega á náðir afþreyingar til að mæta þörf sinni fyrir tilgang og raunveruleg markmið.
„Hví hímið þið hér iðjulausir?“ spyr Jesús verkamennina. Spurningin er ekki sett fram í gagnrýni. Henni er beint að hverju og einu okkar sem spyr sig um tilgang og merkingu. Og hann bendir á að launin bíða okkar ekki endilega handan við markið. Leitin sjálf felur í sér markmiðið.
Já, samkvæmt þessari könnun sinna 77% okkar störfu okkar án nokkurs áhuga. Mér finnast þær niðurstöður benda til þess að þau sem ráða för í atvinnulífinu mættu hugleiða það betur hvað það er sem drífur okkur áfram, hvað vekur áhuga okkar og athygli. Já, hvaða þarfir búa innra með okkur? Kristin trú svarar þeirri spurningu. Við sem fyllum flokk kristinna skynjum okkur sem hluta af einhverju því sem er stærra og varanlegra en við sjálf. Við finnum að við höfum ríkan tilgang í lífi okkar. Og það sem sennilega er mest um vert: Við höfum þá sjálfsmynd að þrátt fyrir takmörk okkar og breyskleika erum við ómetanleg hvert og eitt í augum Guðs. Þetta drífur okkur áfram í meðbyr sem mótlæti og kallar fram áhuga fyrir lífinu í allri sinni fjölbreytni.