Lærdómar liðins árs og stundir blessunar

Lærdómar liðins árs og stundir blessunar

Stundum veita erfiðustu stundirnar okkur mestan ljóssins lærdóm. Stundum þroskast hjartað mest þegar þrautirnar eru stórar og missirinn mikill. Nonni vinur minn kenndi mér margt.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
31. desember 2023
Flokkar

31. desember 2023 kl. 18

Aftansöngur

 

Sl. 90:1b-4, 12

Hebr. 13:5b-7

Lk. 12:35-40

 

Biðjum:

 

Ljósfaðir, viltu leiða mig,

ljá mér þinn sterka arm,

svala þorsta' og sefa harm,

í sannleika skapa undur ný,

beina mér birtuna í. Amen. (sl. 728:4)

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Kenn oss

 

Gamlársdagur í dag, gamlárskvöld, síðasti dagur ársins.

 

Árið 2023 að renna sitt skeið. Hvað færði það þér?

 

Við áraskil er eðlilegt að staldra við og horfa yfir liðið ár, meta stöðuna, hvar erum við stödd á lífsins vegi, hvar ert þú stödd/staddur á þínum lífsins vegi? Hvað var það sem árið 2023, færði þér?

 

Ljóssins stundir, stundir blessunar, lífs, samfélags og þess sem gerir lífið dýrmætt. Hverjar voru þínar ljóssins stundir á árinu sem er senn að líða? Hverjar voru síðan þungu stundirnar, stundir erfiðleika, sorgar, missis, eða stundirnar þar sem skóinn kreppti?

 

Hvar var það sem þú fannst fyrir blessun og þakklæti? Gjarnan eru það þær stundir sem veita okkur gjafir, sem ekki er hægt að pakka inn, gjafir þakklætis, gleði og kærleika. Stundir missis og sorgar geta einnig veitt gjafir sem við öðlumst ekki með öðrum hætti í lífinu en einmitt því að ganga í gegnum dimman dal, sorgar og erfiðleika, en þar eru gjafirnar gjarnan, gjafir skilnings, auðmýktar og mildis, þótt við auðvitað vildum helst vera án slíkra atburða í okkar lífi. En er slíkir viðburðir henda okkur, þá leynist þar gjarnan lærdómur, dýpt og viska sem maðurinn eignast ekki með öðrum hætti.

 

Viska kynslóðanna mætir okkur í textum dagsins, við áraskil. Þar má finna áleitnar spurningar um lífið og framgang þess, þar sem postulinn talar af heitri trú um að Drottinn sé hans hjálpari og því muni hann ekki óttast, því hann er sannfærður um að ekkert geti komið í veg fyrir að Guð sé okkur nærri. Þar má finna hvatningu frá Jesú um að við höldum vöku okkar. Þar má finna ljóð er miðlar ævarandi nærveru Guðs þar sem sálmaskáldið segir meðal annars og biður til Guðs:

 

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“

 

Telja daga vora – count our blessings

 

Sú bæn fjallar m.a. um að Guð hjálpi okkur að finna og sjá allt hið dýrmæta og djúpa sem lífið ber til okkar. Á ensku er talað um: „To learn to count your blessings!“ Að læra að telja blessunarstundir lífsins, telja gæfusporin, telja allt hið góða, læra að koma auga á það og leyfa því að gera hjarta okkar ríkara, mildara, stærra.

 

Stundum er talað um núvitund.

 

Stundum er talað um að lifa einn dag í einu.

 

Ég held að hvoru tveggja tengist þessari bæn: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta!“

 

Hvatning til manneskjunnar um að koma auga á gjafir visku og dýptar, þær stundir sem hafa breytt okkur og dýpkað líf okkar.  

 

Hvaða stundir í þínu lífi höfðu slík áhrif á liðnu ári?

 

Farsæld. Heilsa. Vinátta. Samvera með fjölskyldu og vinum. Stundir þar sem tengsl voru ræktuð, tengsl við Guð, tengsl við náunga okkar og samferðarfólk, tengsl við okkur sjálf.

 

Þessi þrenns konar tengsl eru gjarnan á dagskrá í kirkjunni, tengslin við okkur sjálf, við náungann og við Guð. Þegar okkur ber gæfa til að rækta þetta þrennt þá finnum við gjarnan djúpan tilgang, þakklæti og blessun.

 

Ljósið loga

 

Jesús hvetur viðmælendur sína, og þar með okkur, í guðspjalli gamlársdags, til að „vera vel tygjuð og láta ljós okkar loga...“

 

Ljósið er eitt af grunntáknum Biblíunnar, sem hægt er að finna stað í nær öllum bókum Biblíunnar, allt frá sköpunarljóði fyrstu Mósebókar er Guð skapar heiminn og greinir ljós frá myrkri, og til guðspjallanna og bréfa Nýja testamentisins. Ljósið er ávallt tákn fyrir hið góða, fagra og sanna. Ljósið er sérstaklega tákn fyrir Jesú sjálfan, en á einum stað segir hann: „Ég er ljós heimsins, sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkrinu heldur hafa ljós lífsins!“

 

Og á öðrum stað segir hann síðan: „Þér eruð ljós heimsins, þannig lýsi ljós yðar mönnunum svo þeir sjái góð verk yðar og vegsami föðurinn sem er á himnum!“

 

Einmitt á þessum nótum talar Jesús í guðspjalli dagsins um ljósið og að við skulum láta ljós okkar loga.

 

Er við göngum í gegnum erfiðustu stundirnar, þar er viskan oft dýpst

 

Stundum lærum við hvað mest á erfiðustu stundunum. Stundum veita erfiðustu stundirnar okkur mestan ljóssins lærdóm. Stundum þroskast hjartað mest þegar þrautirnar eru stórar og missirinn mikill.

 

Nú við þessi áramót hugsa ég sterkt til Nonna vinar míns. Hann hefði orðið 49 ára í september. Hann hefði orðið afi á þessu ári, en það er rúmt ár síðan æskuvinur minn Nonni lést, hann var 48 ára, hann fékk því ekki að sjá fyrsta barnabarnið. Hann átti þrjú yndisleg börn, sem hann var óendanlega stoltur af, og stoltur hefði hann verið af litla barnabarninu, sem vex nú og dafnar í faðmi sterkrar fjölskyldu.

 

Nonni greindist með MS sjúkdóminn rétt kominn á þrítugs aldurinn og háði langa og harða baráttu við þann illvígja sjúkdóm. Mjög misjafnt er hvernig sjúkdómurinn herjar á einstaklingana, eins og þið kannski þekkið, hjá sumum er líkt og hann sé í dvala og sjúklingurinn getur lifað nær óbreyttu lífi, þótt viðkomandi hafi fengið MS greiningu. Hjá Nonna var það ekki svo, allt frá upphafi, skerti sjúkdómurinn lífsgæði hans til muna og undanfarin ár var hann algerlega bundinn hjólastól, búsettur á hjúkrunarheimili og þurfti umönnun um alla hluti.

 

Æðruleysið var aðdáunarvert og styrkurinn, sem hann sýndi. Nonni sem hafði verið í landsliðum Íslands í handbolta, búinn að mennta sig í rafvirkjun og rafeindavirkjun, með meistararéttindi í húsasmíði, dugnaðurinn fram í fingurgóma, var sviptur öllum þeim lífsgæðum og tækifærum, er hann veiktist.

 

Þegar ég hugsa um þennan feril, þennan lífsferil míns kæra æskuvinar, finn ég og sé að Nonni er einn af þeim einstaklingum sem hefur vitandi og óvitandi kennt mér hvað mest í lífinu.

 

Í sínum þröngu aðstæðum sýndi hann slíkan styrk og æðruleysi, sem ekki var hægt annað en að dást að. Glíma hans, setti öll önnur heimsins vandamál í allt annað samhengi. Erfiðleikar hverskonar og áskoranir sem maður sjálfur var að glíma við á þeim tíma bliknuðu í samanburði við hans glímu, sem hann þó tókst á við af eindæma styrk.

 

Samverustundirnar með honum voru síðan svo merkingarþrungnar, eftir að hann veiktist. Vonin um að hann myndi hljóta lækningu var rík og smituðust allir í kringum hann af þeirri von, því hann ætlaði sér að ná sér. Nýju lyfin sem komu á markað fyrir nokkrum árum, þau áttu til dæmis að gera kraftaverk. Þau dugðu fyrir marga, en því miður ekki fyrir Nonna. Það voru aldrei góðar fréttir af heilsunni, alltaf versnaði hann.

 

Það var merkilegt að finna að með hverju áfallinu var sem allir í kring öðluðust einhvern nýjan lærdóm. Nonni var kennarinn, vitandi og óvitandi. Og einnig síðustu stundirnar, síðustu sólarhringar hans hér í heimi, er ég fékk að deila með honum og fjölskyldunni hans í aðdraganda þess að hann lést á hjúkrunarheimilinu, þar sem hann hafði dvalið og búið undanfarin ár, stundir sem voru þrungnar merkingu, tengslum og því hve lífið er dýrmætt, ómetanlegt. Hve hver einstaklingur hér í heimi er einstakur, ómetanlegur. Lærdómarnir voru óteljandi.  

 

Þvílíkur missir fyrir okkur öll, þá sérstaklega börnin hans og foreldra, systur og fjölskyldu hennar, alla sem hann þekktu. En um leið þvílík blessun að fá hafa átt þennan góða vin, sem í sinni þröngu stöðu kenndi mér og öllum í kring lærdóma um þakklæti, lærdóma um æðruleysi, lærdóma sem svo skrýtið er að hann hafi kennt með lífshlaupi sínu.

 

Ljósið hans Nonna logaði skært, þótt í þröngri stöðu væri.

 

Ljósið hans Nonna logar enn, þótt hann sé horfinn héðan úr heimi.

 

Ljósið hans Nonna logar, því þannig áhrif hafði hann á mig, í sinni þröngu stöðu.

 

Mildi Guðs og kærleikur

 

Þrátt fyrir brútal staðreyndir lífsins, um hræðilega sjúkdóma sem herja á okkar nánustu vini og aðstandendur og kannski á okkur sjálf, stríð hvers konar í heiminum, ógnir náttúrunnar, jarðhræðingar og eldgos, og hvað annað sem við þurfum að glíma við, þá mun ekkert geta komið í veg fyrir að Guð elskar. Að það er raunverulega til Guð sem vakir yfir öllum mönnum og veitir af náð sinna þeim sem til hans leitar, blessun, ljós og líf.

 

Jafnvel þegar við finnum okkur í þröngri stöðu og við teljum líf okkar takmarkað og lítils virði, þá er það kannski einmitt þar sem við gefum hvað mest af okkur, lærdóma til annarra sem við vitandi og óvitandi miðlum. Jafnvel þótt að okkur finnist við ekki verð neins sérstaks, þá erum við öll, og allir menn, dýrmæt í augum Guðs, og Guð ætlar sér mikla hluti með okkur hvert og eitt.

 

Ljóssins ávextir eru stundum ósýnilegir. Hin góðu fræ sem við sáum með framgöngu okkar og lífi, bera stundum ávöxt á annan máta en við gerum okkur í hugarlund. Líkt og í tilfelli Nonna vinar míns, en við æskuvinir hans vorum sammála um að hann hefði verið sá af okkur hópnum sem hefði haft hvað mest áhrif á líf okkar allra. Áhrif til góðs, áhrif til aukins þakklætis, kærleika og mildis.   

 

Áburður og andleg rækt

 

Mildin er einmitt ein af þeim dyggðum kirkjunnar sem ég tel að við nútímafólkið þurfum að rækta. Við þurfum að rækta mildina í eigin garð og einnig annarra. Mildi fyrir því sem við ætluðum að gera á liðnu ári, en tókst ekki. Mildi einnig til framtíðar, okkar framtíðaráforma, til komandi árs, þar sem við skulum leggja okkur fram í því að finna hina djúpu lærdóma og kærleika sem bíða okkar við hvert fótmál, þar sem við öðlumst lærdóma, visku og blessun í ýmsu fyrirsjáanlegu en einnig ýmsu sem án efa á eftir að koma okkur á óvart. Biðjum Guð að kenna okkur að sjá þá lærdóma, svo þeir hreyfi við hjarta okkar, okkur og samferðarfólki okkar til blessunar.

 

Megi Guð efla okkur dug og þor, hugrekki og kjark, til að takast á við verkefni lífsins og áskoranir.

 

Hagur annarra

 

Í raun og veru eru verkefni okkar hér í heimi einföld, en þau eru fólgin í því er við mætum hvert öðru í gleði og alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll hvert öðru ljósi, við miðlum einnig bæði visku og blessun, huggun og styrk, því við eigum að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og sárt.   

 

Megi friður ríkja í hjarta þínu yfir árinu sem er að kveðja. Megi friður Guðs hvíla yfir öllu sem það gaf og öllu sem það tók. Megir þú finna öllum atburðum ársins sæti, þar sem friður Guðs er allt um kring.

 

Og megi nýtt ár gefa okkur öllum tækifæri til að verða öðrum til gagns, og megi það færa þér og þínum blessun og gæfu, líf og ljós.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Ég vil nota tækifærið hér til að þakka mínu góða samstarfsfólki hér í Grensáskirkju frábært samstarf á liðnu ári, samstarfsprestum, organista, Kirkjukór Grensáskirkju, kirkjuverði, messuþjónum, sóknarnefnd, sjálfboðaliðum, leiðtogum og öllum öðrum sem komu að þjónustu og starfi í Grensáskirkju. Þakka ykkur öllum viðburðarríkt ár, ég hlakka til áframhaldandi samstarfs á komandi ári.

 

Takið postulegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.

 

Prédikun flutt í Grensáskirkju við aftansöng á gamlárskvöld 2023