Kristniboð og mannúð Krists

Kristniboð og mannúð Krists

Ræða flutt á kristniboðsdegi 2017. Hafði ég með í för nokkra muni frá Afríku sem ég sýndi ásamt klæðnaði. Prédikunartexti var út frá Matt 9.35-38: Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann […]
Mynd
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
16. nóvember 2017
Flokkar

Flutt 16. nóvember 2017

Ræða flutt á kristniboðsdegi 2017. Hafði ég með í för nokkra muni frá Afríku sem ég sýndi ásamt klæðnaði. Prédikunartexti var út frá Matt 9.35-38:

Jesús fór nú um allar borgir og þorp og kenndi í samkundum þeirra. Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóm og veikindi. En er Jesús sá mannfjöldann kenndi hann í brjósti um hann því menn voru hrjáðir og umkomulausir eins og sauðir er engan hirði hafa. Þá sagði hann við lærisveina sína: „Uppskeran er mikil en verkamenn fáir. Biðjið því Drottin uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“

I. Inngangur

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Við höfum í dag fengið nasasjón af annarri menningu en okkar eigin. Klæðin og skrautið gefur til kynna hver við erum. Mér er það sérstaklega ljóst þegar ég er að þjóna í guðsþjónustu í fullum skrúða eða þegar ég fer á fjármálamarkaðinn þar sem allir eru nánast með bindi og í jakkafötum. Og auðvitað er það vegna þess að okkur finnst við vera að gera eitthvað voðalega mikilvægt, bæði mér og sölumanninum.

Það á líka við fólk sem klæðir sig í leðurföt og með táknrænt skraut, það er að segja, þetta er mikilvægt fyrir mér. Það er að segja eitthvað um trú sína og sið. Sumir halda því fram að kristniboðið eyðileggi menningu þessarar þjóðflokka og auðvitað er gaman að eiga dæmi um frumlæga menningu sem þessi föt og siðir bera vitni um. En við mundum fæst vilja lifa við þeirra kjör. Það er nú svo að menning er ekki bygging sem einu sinni var gerð og ekkert má hagga við, menning er fólk sem lifir og andar, vex og þroskast, finnur til, hugsar og vill eitthvað með líf sitt. Raunin er sú að það eru innlendir leiðtogar safnaðanna sem leiðbeina sínu fólki í siðferðilegum málum. Umskurn kvenna er víða í Afríku áfangi í fullorðinsvígslu, að verða gjafvaxta kona. Það er sláandi dæmi!

Þetta á líka við um trúarbrögðin. Þau eru ekki óhagganlegar byggingar, þó að víða standa guðshúsin tignarleg og stór, hluti af trúarbrögðunum, tákn þeirra og mynd, en ekki trúarbrögðin sjálf. Þau eru samfélag manna um ákveðin trúaratriði, frásagnir, helgisiði, samskipti og siðferði. Og það á líka við kristna menn, þó að trúin sé mörgum dálítið fjarlæg, stundum finnst manni að kirkjubyggingarnar standi einar eftir.

Hvernig sem fer fyrir kirkjunni okkar þá var og er og verður fordæmi Jesú Krists alltaf grundvöllur kristinnar kirkju. „Hann flutti fagnaðarerindið um ríkið og læknaði hvers kyns sjúkdóma og veikindi“ (v. 35). Kristin kirkja er boðandi og þjónandi, það er eðli hennar. Við eigum að finna til með Kristi þegar hann horfir yfir mannfjöldann, „kenndi í brjóst um“ (v. 36). Við skulum staldra hér við og íhuga með okkur sjálfum. Finn ég þannig tilfinningar með mér, finn ég til með fólki í kringum mig og með þeim sem þjást út um allan heim. Finn ég til með meðbræðrum mínum og systrum sem verða fyrir ranglæti og kúgun í kirkjum heimsins? Á ég þessa mannúð Krists? Kristni og kristniboð er ekkert annað en þetta að biðja í Jesú nafni svo að hjarta manns slái í takt við hjarta Guðs, fara svo af stað og boða hann og þjóni meðbræðrum sínum og systrum í líkingu við Jesú.

I. Erindi

Ég veit ekki hvað þú þekkir til sögu kristinnar kirkju. Í stórum dráttum má segja að hún hafi lengst af verið bundin við Miðjarðarhafið og Atlandshafið eða Vesturlönd, það er ekki fyrr en á 19. öld að kristni verður trúarbrögð í öllum heimsálfum svo einhverju nemi. Það er að þakka trúboðsvakningu sem enduruppgötvaði þessa sýn á Kristi, fann til með honum, vildi fara að fordæmi hans og fylgdi honum til endimarka jarðarinnar.

Og þetta varð til þess að „kristnir menn“ mættu fólki af öðrum trúarbrögðum. Og hvernig gerir maður nú það? Það er eitthvað sem við þurfum að læra sem kirkja hér upp á Íslandi í dag. Við lifum meira og meira í alþjóðlegu fjölhyggju samfélagi, líka hér. Og heimsmálin í dag krefjast þess af okkur, knýja okkur til þess.

Kristniboðið var unnið með verulegri umhugsun. Í löndum mótmælenda í Hollandi og Þýskalandi og Bretlandi voru settir á fót kennarastólar í öðrum trúarbrögðum og kristniboðsfræðum. Síðar einnig í Skandinavíu. Ég vil nefna eitt dæmi sem er mér nærtækt. Carl F. Hallencreutz, blessuð sé minning hans, var leiðbeindi minn í þessum fræðum í Uppsala í Svíþjóð. Hann lagði mikla áherslu á samtalið milli fólks af mismundi trúarbrögðum. Og hann ásamt fjölda annarra benti á að það sé ekki aðeins háskólamanna heldur líka fólksins á hverjum stað að talast við, það skapar skilning og úrlausnir.

Hann tók mig með sér á ráðstefnu í Birmingham á Bretlandi þar sem Skandínavískir fræðimenn á þessu sviði funduðu með breskum kollegum. Þar hittum við anglíkanskan prest og leiðtoga í múslímsku samfélagi þar í borg. Það var innileg vinátta á milli þeirra. Þeir ræddu sín á milli hvort og hvernig þeir gætu beðið saman. Við fengum að vera við föstudagsbænagjörð múslimanna og skoða stóra mosku sem þeir voru að byggja. Og þeir vinirnir töluðu saman um Múhameð og Jesú hvor með sína sannfæringu sem styrktist frekar en hitt. En þeir skildu hvorn annan. Aðra kirkju heimsóttum við sem búið var að breyta í hindúa-musteri. Við settumst með fólkinu á gólfið þar sem það var við íhugun og var svo boðið til máltíðar með þeim á eftir. Þetta er sem sagt á nærliggjandi eyju, ef kalla má Bretlandseyjar eyju, þar sem anglíkanska kirkjan hefur nokkuð misst fótanna í samfélaginu, um leið og hún horfist í augu við nýjan raunveruleika.

Ég nefni þessi dæmi hér til að mótmæla þeim fordómum sem heyrast oft að kristniboð eyðileggur menningu frumstæðari þjóða og er ekkert annað en heimsvaldastefna meðal „æðri trúarbragða“. Saga trúarbragðanna sýnir það að trúarbrögðin þróast saman, eins og sjá má á Vesturlöndum í dag. Stundum skerpast andstæðurnar en þá er því nauðsynlegra að hafa að leiðarljósi kenningu Krists um að elska óvini sína og biðja fyrir þeim.

III. Heimsfærsla

Nú mætti misskilja mig svo að ég haldi því fram að kristin trú sé öðrum trúarbrögðum æðri. Þú kannt að spyrja: Hlýtur hann ekki að halda því fram vegna þess að hann talar máli kristniboðs? Eða álykta sem svo: Sá sem vill boða trú sína öðrum hlýtur að álíta sína trú æðri og betri. (Það er ekki laust við það! Þannig er það með fordómana, þeir þvælast allsstaðar fyrir manni, jafnvel þegar maður heldur að maður sé laus við þá. Og þegar maður lendir í raunverulegum aðstæðum eins og ég var að lýsa blossa þeir upp, jafnvel þeir sem maður veit ekki af.) Sú var og er sannfæring mín að Guð Jesú Krists er einstakur, vegna þess að trúin var mér og er afar mikilvæg. Það er trúin sem ég lifi fyrir. Ég verð að játa að skilningur minn er takmarkaður. Ég þekki ekki öll trúarbrögð innan frá þó hef ég lagt mig fram við að kynnast þeim.

Nú er ég reyndar kominn á þá skoðun að það sé ekki rétt að tala um kristna trú sem æðstu trúna af æðstu trúarbrögðunum. Þau rök halda svo skammt. Ég er farinn að sætta mig við það að við lok tímanna kemur það í ljós hver sannleikurinn er. Nú er þekking okkar í molum. En þeir geislar, það ljós, sem Jesús hefur veitt okkur, sú þekking sem hann hefur gefið okkur á Guði, að hann er hinn himneski faðir, miskunnsamur og fyrirgefandi, að í upphafi og grunni tilveru okkar er kærleikur, er nægileg mér til að boða orðið hans og þjóna í líkingu við hann. Það er ljósið sem mér er gefið og það vil ég setja upp á ljósastiku svo allir megi sjá það. Það þarf ekkert meira til þess að taka þátt í þessu mikla verki sem kristniboðið er. Kristniboðið byrjar með því að við sjáum Krist sem kallar okkur til að vinna kærleiksverk sín á jörð, að vera kærleikur Guðs á meðal meðbræðra okkar, það er köllun kristinnar kirkju að boða og þjóna. Það er mjög dapurlegt ef kirkjan tekur ekki þátt í að breiða út trú sína, það er eins og ef barn hættir að vaxa, eða að ávöxtur trésins morknar og þornar og eyðileggst.

IV. Niðurstaða

Á kristniboðsdegi skulum við hugleiða mannúð Jesú Krists og slá í takt við hjarta Guðs. Ef það er rétt sem Kristur kenndi okkur um Guð og sjálfan sig kemur ekkert annað til greina en að standa upp og fylgja dæmi hans. Kirkjan er í eðli sínu þessi hópur sem fylgir Kristi þangað sem hann leiðir okkur. Hann hefur leitt okkur til þátttöku í kristniboði í Eþíópíu og Kenýu, og enn á ný í Kína og Japan. Við getum verið stolt af því mikla starfi sem unnið er á þessum stöðum og við getum margt lært af ungu kirkjunum um eftirfylgdina við Krist.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.