Minningarkirkjan

Minningarkirkjan

Og Minningarkirkjan hefur eins og vegghleðslur Áslaugar, tvíbenta merkingu. Boðskapurinn hennar vísar ekki aðeins til vonsku heimsins. Rústirnar fela líka í sér von um að þrátt fyrir eyðingu og eld þá taki við tímar endurreisnar. Klukkurnar í kirkjuturninum þykja þær hljómfegurstu í borginni. Á þeirri stærstu er áletrun úr spádómsriti Jesaja: „Borgirnar yðar eru brenndar (Jes. 1.7). En hjálpræði mitt er ævarandi og réttlæti mitt líður ekki undir lok“ (Jes. 51.6).

Fyrir fimm árum sungum við í Kór Neskirkju í merkilegri kirkju í Berlín. Hún sker sig úr umhverfinu þar sem hún stendur í verslunar- og fjármálahverfi þess sem eitt sinn tilheyrði vesturhluta þessarar borgar.


Hola tönnin


Já, þarna allt í kringum hana eru fyrirtæki með glampandi speglaglugga og stálvirki en kirkjan sjálf er hryggðarmynd. Þar sem áður voru gluggar eru nú gapandi tóftir og aðeins helmingur turnspírunnar sem eitt sinn teygði sig til himins stendur eftir. Klæðningin er víða farin svo múrsteinarnir blasa við. Stórar skellur eru í veggjum eftir sprengjuregn og kúlnahríð. Svo aumt er á henni ástandið að gárungarnir kalla hana „tannskemmdina“ eða „holu tönnina“.

 

Hið hlið hennar er svo kapella þar sem við sungum og turn með krossi, hvort tveggja er alsett litlum ferstrendum gluggum að mestu dimmbláum að lit.

 

Kirkjan var tekin í notkun í lok 19. aldar og kennd við Vilhjálm fyrsta keisara en ber nú heitið Gedächtniskirche, Minningarkirkjan. Hún er minnisvarði um myrka tíma í sögu borgarinnar og auðvitað allrar heimsbyggðarinnar. Já, hún minnir á tíma illsku og grimmdar þar sem líf fólks var einskis virði og verðmæti eyðilögðust í áður óþekktum mæli.

 

Inni í henni eru verk sem kallast á við á þá tíma, þar á meðal lítil teikning af Maríu mey – sem hjúfrar Jesúbarnið að sér undir möttlinum eins og hún sé að reyna að halda á þeim hita. Listamaðurinn var einn þeirra þýsku hermanna sem voru innlyksa í Stalingrad og teiknaði þetta verk þar sem hann hímdi í kaldri skotgröf á jólunum 1942. Yfir myndinni standa orð úr Jóhannesarguðspjalli: „Ljós, líf og kærleikur.“ Eftirprentanir þess eru nú í Volgograd sem borgin heitir nú og í Coventry sem varð líka illa úti í sprengjuregni á þessum örlagatímum.


Ystu myrkur

 

Já, líf og dauði – eyðilegging og endurreisn, harka og mýkt: Vilhjálmskirkjan, tannskemmdin, minningarkirkjan – hvaða nafni sem hún nefnist þá á við okkur erindi sem kallast á við texta dagsins nú þegar við erum gengin inn í nýtt tímabil kirkjuársins – sjálfa föstuna.

 

„Svo er um himnaríki sem mann sem ætlaði úr landi.“ Á þessum orðum hefst guðspjallið og þótt það fjalli um himnaríki eins og fram kemur er tónninn eins nöturlegur og kaldur og veruleikinn stundum er. Og inngangsorðin benda til einhvers konar fjarlægðar. Hver er þessi maður sem dæmisagan fjallar um? Af hverju er hann svo harður við þjóninn þegar hann loks snýr aftur? Fordæmingin leynir sér ekki: „Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur.“

 

Hver talar svo? Er þetta almættið sjálft sem þarna hefur horfið á braut og snýr svo aftur með harðan dóm? Kallast þessi orð á við tilfinningu fólks sem verður fyrir horfir framan í grimman og kaldan veruleikann? „Hvar er Guð í þessum hörmungum?“ – spurði stríðshrjáð fólk í hildarleik seinna stríðs, þær spurningar hafa ómað í gegnum söguna og gera enn á vígvöllum heimsins og í öðru mótlæti. Þetta hrópaði Jesús á krossinum: „Guð minn, hví hefur þú yfirgefið mig?“

 

Þessi saga myndar tvo ása. Annars vegar er það heimkominn húsbóndinn og svo er það ónýti þjónninn. Sá síðarnefndi óttaðist viðbrögð húsbóndans faldi féð og ávaxtaði það ekki og er að lokum rekinn út í myrkur og kulda.


Grafið í jörðu

 

Þá er þessi dæmisaga í nokkrum ýkjustíl sem sést af þeim gjaldmiðli sem hún er jafnan kennd við. Talentur voru óheyrileg verðmæti og ein slík slagaði nærri ævilaunum daglaunafólks. Orðin: „yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“ Eru því nokkuð undarleg í því sambandi.

 

Því þetta litla sem þarna er fjallað um er ekkert minna en þau verðmæti sem minningarkirkjan vísar okkur á – nú eða kolateikningin af madonnunni í Stalíngrad – lífið sjálft – sálin og eilífðin. Það er einmitt þetta sem boðskapur Krists beinist að. Ávöxtunin er útbreiðsla þeirra tíðinda, hvort manneskjan byrgir þau inn með sjálfri sér eða hefur hugrekki og dug til að miðla þeim áfram. Og dæmin sýna að sumir höfðu kjark til þess á ógnartímum þegar ofbeldisöflin óðu uppi og eirðu eingu. Þótt flestir hafa falið þá fjársjóði í jörðu.

 

Jú, af því að Jesús talar í þessum líkingum þarna sem víðar þá gefur það lesendum á ýmsum tímum svigrúm og frelsi til að túlka og leggja út af. Þegar Guð virðist svo órafjarri, eins og er á raunatímum – hvað gerum við þá við þann fjársjóð sem boðskapur hans er? Eru það ekki hin eðlislægu viðbrögð okkar að fyllast ugg og ótta – sem lamar sálina og við þegjum yfir sannfæringu okkar og hugsjónum? Eru það ekki viðbrögð þjónsins sem gróf verðmætin í jörðu? Er það ekki þannig sem flestir bregðast við þegar illvirkjar marsera um strætin?


Skil / Skjól

 

Biblíuna getum við skoðað sem listaverk þar sem áheyrendur og lesendur túlka sögur og frásagnir – setja þær í samhengi við daglegt líf, áskoranir og vegferð. Að því leyti svipar henni til annarra hugverka. Hér á eftir ætlum við að hlýða á samtal um verk Áslaugar Írisar Katrínar Friðjónsdóttur og útleggingu Völu Pálsdóttur af þeim. Við sem umgöngumst verkin á hverjum degi höfum ærinn tíma til að hugleiða boðskap þeirra ef einhver er. Jú, sumir listamenn sem hafa sýnt hérna hjá okkur draga fram myndir og form sem ekkert merkja. Það er vitaskuld hluti af því frelsi sem listin veitir.

 

En Áslaug vinnur held ég með svipuð mótív og blöstu við okkur kórfélögum í Berlín forðum daga. Hér eru það harkan og mýktin sem takast á. Verkin eru ekki unnin á striga eins og ætla mætti í fyrstu heldur er bakgrunnurinn steyptur, harður og þungur. Og á hann hefur hún rist rákir sem minna helst á ör á yfirborðinu. Steinar standa þar upp úr, harðir og hrjúfir. Þar allt um kring eru svo léttleikandi form sem minna á fjúkandi laufblöð – í rokinu. Þau voru eitt sinn græn, gáfu líf, unnu kolefni úr andrúmsloftinu og skiluðu af sér súrefni, sameinast svo moldinni og búa til næringu fyrir framtíðarvöxt.

 

En harkan á sér jákvæðar hliðar. Steinarnir veita líka skjól gegn vindum og veðrum. Þeir verða að grjóthleðslu þar sem við getum leitað vars í óveðrum lífsins.

 

Sú hugsun birtist okkur líka í textum dagsins. Páll postuli talar um byggingu þegar hann hugleiðir hvernig þessi ráðvillti en trúaði hópur fólks, söfnuðurinn í Kórintuborg, ávaxtar sínar talentur. Grunnurinn er fagnaðarerindið um réttlæti Guðs sem opinberast í Kristi, byggingin sjálf er kærleikurinn, umhyggjan fyrir okkar minnstu systkinum.


Fjarlægur Guð á ofsóknartímum

 

Þetta átti ekki síst við í þeim ofsóknum sem kristnir menn áttu eftir að þola, í fornöld sem á öðrum tímum. Það var þegar fólk hrópaði á hinn fjarlæga Guð sem virtist hafa horfið á braut eins og í frásögninni. Hermennirnir í skotgröfunum sem fundu það að þeir voru aðeins peð í þessum mikla hildarleik ornuðu sér við myndlistina sem gekk þar manna á milli: Myndina af Maríu og Jesúbarninu undir möttlinum.

 

Og Minningarkirkjan hefur eins og vegghleðslur Áslaugar, tvíbenta merkingu. Boðskapurinn hennar vísar ekki aðeins til vonsku heimsins. Rústirnar fela líka í sér von um að þrátt fyrir eyðingu og eld þá taki við tímar endurreisnar. Klukkurnar í kirkjuturninum þykja þær hljómfegurstu í borginni. Á þeirri stærstu er áletrun úr spádómsriti Jesaja:  „Borgirnar yðar eru brenndar (Jes. 1.7). En hjálpræði mitt er ævarandi og réttlæti mitt líður ekki undir lok“ (Jes. 51.6).

 

Sá er boðskapurinn sem ætti að fylgja okkur, ekki síst á þeim tímum þegar Guð virðist órafjarri og myrkrið virðist ætla að sigra. Þá mun réttlætið lifa áfram og hjálpræðið er ævarandi.