Um veglyndi

Um veglyndi

„..fundust í þessi meðferð Jósefs þrír mannkostir og dýrlegir lutir, það er: Réttlæti, mildi og vitzka"

Predikun 12 sd e trin. (27. ágúst) 2023. Dómkirkjan, útvarp.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Allegóría heitir það, þegar maður segir ekki bert  hvað maður meinar;  þegar frásagan er ekki öll þar sem hún er séð; miklu frekar liggur merking hennar undir hinu sagða og í raun skiptir þetta, sem hulið er við fyrstu sýn, miklu meira máli skv. allegóríunni, en það sem blasir við.  

 

Er það reyndar nokkuð í takt við það hvernig lífinu sjálfu vindur fram, að sjaldnast er þar allt uppi á borðum. 

 

Þessi aðferð, að leita að huldri merkingu í textanum, rekur sig allt aftur til Hómers og túlkana Hesíódosar á Hómerskviðum og var reyndar nokkuð algeng hjá stóuspekingunum; Í kristinni komst hún á flug hjá Origenesi kirkjuföður - síðar hjá Ágústínusi og óx svo ásmegin langt fram eftir miðöldum, svo mjög að hinn bókstaflegi skilningur varð að hálfgerðri aukagetu.  

 

Eitt dæmi: í Maríu sögu, sem rituð var á norræna tungu en elsta handrit hennar er frá seinni hluta 13 . aldar -  er m.a. fjallað um Jóhannes skírara, frænda Jesú, og þar verður sú fræga setning Jóhannesar skírara : „Ég er ekki verður að leysa skóþveng hans" ekki til merkis um auðmýkt hans og lítillæti gagnvart Kristi, heldur táknar fóturinn, skv allegórískri túlkun, guðdóm Krists, skórinn er umbúnaður holdsins um hið guðlega eðli hans og skóþvengurinn táknar þá samgtengingu hins guðlega og mannlega í Kristi. 

 

Þá samtengingu má Jóhannes ekki rekja upp.

 

Sannast sagna veit ég ekki hvort þessi skilningur er nokkuð betri en hinn augljósi, en það er önnur saga. 

 

Þetta nefni ég hér því sumt í frásögu guðspjallsins í dag, þegar Jesús læknar hina krepptu konu í samkunduhúsinu á hvíldardegi, gefur því undir fótinn að hægt sé að nálgast merkinguna á þessum forsendum.

 

Og vissulega má skoða guðspjallið sem útlistun á stöðu mannsins en hin kreppta kona út af fyrir sig sé aukaatriði; þ.e. maðurinn sem tegund er allur í keng, af hvaða ástæðum sem það er; 

 

Þetta sé til að undirstrika að það er Kristur sem réttir manninn við. 

 

Þetta var einmitt frasi sem Lúther notaði um stöðu mannsins; homo incurvatus in se; Maðurinn er kengbeygður inní sjálfan sig. 

 

Þarf ekki lengi að velta mannlegu eðli fyrir sér til þess að átta sig á því að þar er margt sem fara mætti betur.

 

Dæmisagan um Adam og Evu og brottreksturinn úr Eden fjallar einmitt um það hvers vegnamaðurinn er á þeim erfiða stað sem raun ber vitni, en þetta hefur ekkert með sagnfræði eða sköpunartrú að gera. Af hverju er þessi veruleiki okkar svona fjarska ófullkominn? 

 

En svo má tala um söguna sem brýningu um það hvernig við nálgust best þá sem í keng eru, krepptir og bjargarlitlir. Þá er ég ekki að tala um þá sem líða fyrir ákvarðanir Seðlabankans, sem hækkar stýrivexti sí og æ og varnarlítill almúginn getur lítið gert nema að beygja sig enn frekar undir bankanna vald. 

 

Nei ég tala um það fólk sem getur í alvöru ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

 

Maríusaga, svo ég víki aftur að henni, talar m.a. um göfuglyndi Jósefs - veglyndi hans, vil ég segja. María var í mjög þröngri stöðu félagslega og lá við sjálft að hún lenti í kjaftakvörn Nazaretbúa, og reyndar hann líka; Samfélagið leit á blessun kviðar hennar sem ótímabæra þungun og var tilbúið að jaðarsetja hana á stundinni; þótt allur heimur síðar mætti þakka fyrir og fyndist það verið vonum seinna að frelsarinn fæddist og Guð gengi inn í mannleg kjör.

 

Það vildi gjarnan henda manninn þá, líkt og síðar, að verða fljótur að teygja sig í steinana til grýtingar.  - Hvort heldur hina stafrænu steina eða gamaldags grjót.

 

Jósef brást við því með ákveðnum hætti, sem ég rek ekki hér, en um það segir í Maríusögu:

 

„..fundust í þessi meðferð Jósefs þrír mannkostir og dýrlegir lutir, það er: Réttlæti, mildi og vitzka"

 

Réttlæti, mildi og vitzka.

 

Allt þetta verður að fá að haldast í hendur og fara saman; og að mínu viti eru þetta uppistöðurnar í því sem við köllum veglyndi. 

 

--

 

Annað slagið er sagt frá því í guðspjöllunum að Jesús læknar á hvíldardegi og í einni slíkri frásgön angrar Jesús besservisserana með því að kenna þeim eilítið í hagnýtri notkun lögmálsins – praktískri lögfræði með því að benda þeim á til hvers lögmálið hefði verið sett; þ.e. manninum til blessunar en ekki þjökunar; hann bendir á anda laganna en ekki lagakrókana og undirstrikar að þess vegna mætti lækna á hvíldardegi. 

 

Þannig dregur hann fram þá þverstæðu að blind eftirfylgni við lögmálið er í raun í andstöðu við lögmálið; það að hlýða því útí hörgul án þess að gefa samhengi eða anda laganna gaum, er í raun misbrúkun á lögmálinu. 

 

Hér er nýtt komið í heiminn:

 

Líf hinnar krepptu konu verður náttúrulega ekki samt og áður, það er óþarfi að taka slíkt fram, og Jesús birtir enn einu sinni hver hann er og hvert erindi hans við manninn er; að reisa hann við og gera heilan. 

 

         Þegar kemur að faríseunum og fræðimönnum - en samkundustjórinn orðaði þanka þeirra -  getum við ekki svo sem vitað hvað hver og einn þeirra hugsaði á þessari stundu; hvort einhverjir þeirra sáu ljósið og skildu hverju var að mæta í Jesú Kristi og verkum hans.  Vissulega segir að þeir hafi orðið sneyptir.

En sem hópur var ekki að sjá að þeir breyttust mikið miðað við það sem síðar gerðist og það er að líkindum hið óhuggulega mannlega í þessu öllu; að sennilega lærðu þeir ekkert.

 

Getum við tekið eitthvað af þessu til okkar hér og nú? 

 

Samkundurstjórinn gat veifað lögfræðiáliti máli sínu til stuðnings - reyndar svo þungvægu að það hafði pondus á við stjórnarskrá. 

 

Jesús kaus hins vegar að taka annan pól í hæðina. 

 

Hann bregst við af miskunnsemi; bendir svo á að hinir skriftlærðu - reyndar gyðingar almennt - færu betur með skepnur sínar en sína þjökuðu, því uxa og asna leiddu þeira af stalli á hvíldardegi til að brynna þeim en bönnuðu að fólki væri hjálpað, jafnvel eftir áratuga þjáningu.  

 

Vitaskuld getur ekkert mannlegt samfélag verið án laga og reglna - ef allir væru syndlausir þá var það kannski minna mál en þannig er það bara ekki,  - og málefni innflyjenda og hælisleitenda er ekki sér í umslagi með það. 

 

Við hljótum að setja okkur áþekkar reglur og tíðkast í löndunum í kringum okkur. Samræmi og samkvæmni í þessum málum er mikilvæg. Auk þess verður hælisleitandi ekki við þá stöðu sína undanþeginn því að fara eftir lögum, rétt eins og aðrir. 

 

En það má  líka benda á að nokkur hópur hælisleitenda hefur eins og lent á einskis manns landi; og með nýjum lögum getur hvorki komið né farið og við því þarf að bregðast.

 

Að sjálfsögðu á heldur ekki að nálgast þessi mál af gagnrýnisleysi eða óvitaskap. 

 

Öllum má ljóst vera að hve miklu máli skipti að vel takist til að skapa réttláta, mildilega og viturlega umgjörð þessara mála; svo ég vitni aftur til öðlingsins Jósefs.

 

Hugsanlega eru ákveðin tímamót hvað þetta varðar  - ég segi ekki ögurstund; en það er ljóst að þungi flóttamannastaumsins á eftir að verða meiri og engum er greiði gerður með því að hending ráði hvernig haldið á þessum málum.

 

Ég veit það ekki; kannski tekur það bara lengri tíma en maður ætlaði að smíða lög sem ná almennilega utan um málaflokkinn; gjarnan þarf líka að sjá hver reynslan af lögunum verður til að geta endurskoðað þau skynsamlega; og mikilvægt að rætt sé um þessi mál reiðlaust og af yfirvegun. 

 

En að þessu öllu sögðu er ekkert sem segir að við getum ekki sýnt ákveðið veglyndi: - Felst ekki veglyndið einmitt í því að við gerum umfram það sem lögin krefjast og getum sýnt mildi, mannúð, og samhygð?

 

Síraksbók er eitt svokallaðra apokrýfra rita Biblíunnar og geymir safn spakmæla.

Það er kannski ekki úr vegi að rifja aðeins upp það sem stendur í Síraksbók um veglyndið:

 

 

Sýn þú biðlund bágstöddum manni, 
lát þér ei dveljast að liðsinna honum.


Hjálpa fátækum vegna boðorðsins, 
send hann ei tómhentan frá þér og þurfandi.


 Ver ör á fé við bróður og vin,
lát það ei tærast upp undir steini.


 Nota þú efni þín samkvæmt boðorðum Hins hæsta,
það mun gagnast þér meira en gull.


Safna þú góðverkum í forðabúr þín,
það mun bjarga þér frá öllu illu
og verja þig gegn óvinum

fremur en sterkur skjöldur og stinnt spjót.

 

Veglyndið birtist í því hvernig þú kemur fram við þá sem ekki hafa sömu tækifæri og þú; hvar þú ert í betri stöðu. 

Veglyndið er einmitt ein birtingarmynd þess að maðurinn skeri sig frá annarri skepnu í samskiptum sínum hvert við annað. 

 

Að maður geti hafið sig yfir frumstæða lífsbaráttu og látið sér annt um þá sem höllum fæti standa og eru veglausir að öðru leyti. 

 

---

Ég nefndi í upphafi að sennlega er nú heimurinn þannig saman skrúfaður að hlutirnir er langt frá því að vera ljósir. 

Það á líka við um hælisleitendur og flóttamenn;  við þekkjum sögu hvers og eins takmarkað og líkast til verður allt aldrei sagt eða vitað. 

 

En þannig er það líka með lífið almennt og þarf ekki hælisleitendur til. Það getur verið vandi að lifa; En einmitt í því er svo mikilvægt að sýna miskunnsemi, sanngirni - og veglyndi.

 

Með því byggjum við réttlátt og mannsæmandi samfélag. Samfélag þar sem mannúð, miskunnsemi og bræðralag fær sitt rými og við höfum í heiðri gullnu regluna sem aldrei verður of oft áréttuð; 

 

Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.  

 

 

Dýrð sé Guði föður og Syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.