Jaðarstund

Jaðarstund

Er það ekki eðli góðrar listar að snúa sjónarhorninu að áhorfandanum sjálfum? Þetta hugleiddi ég á safninu í Ósló og þessar hugsanir mæta okkur í óði Huldu til nýliðinnar jaðarstundar. Að endingu réttir listamaðurinn fram spegil sem sýnir áhorfandann sjálfan og þá veröld sem hann er hluti af.

Nú í vor heimsótti ég Munch listasafnið í Ósló, við hlið óperunnar fögru þar sem vegfarendur geta rölt upp á þakið og horft yfir flóann og miðbæinn.

 

Í kjölfar Helfarar og Hiroshima


Í samanburðinum er Munch safnið hálf misheppnað að sjá en um leið og inn í það er komið gleymast kauðskar útlínur hússins og við göngum inn í skapandi umhverfi myndlistar. Áður en við virðum fyrir okkur verk þessa expressjónista sem byggingin er kennd við, mætir okkur sýnishorn þess sem við leikmenn myndum kalla nútímalist. Með öðrum orðum – óhlutbundin eða abstrakt listaverk.

 

Sum þeirra eru nánast ógnvekjandi í einfaldleik sínum – önnur margræð og flókin. En öll eiga þau það sammerkt að birta veruleikann, ekki eins og hann blasir við augum okkar með formum og útlínum – heldur eins og listamaðurinn sjálfur vill koma honum á framfæri óbundinn af hlutlægum mælikvörðum og viðmiðum.

 

Yfirskrift þessarar sýningar er The Shape of Freedom – eða Frelsis formið. Verkin voru unnin í kjölfar seinna stríðs. Í sýningarskrá má lesa hvernig sá hildarleikur mótaði listsköpun með afdrifaríkum hætti. Verkin eru birtingarmynd áfallastreitu helfarar og Hiroshima. Hamfarirnar leystu upp hin hefbundnu form og nú þurftu listamenn að leita nýrra leiða til að tjá veruleikann. Atómsprengjan var hin endanlega upplausn og hvernig á að yrkja ljóð eftir Auschwitz?

 

Þetta féll vel að þeirri list sem safn þetta er helgað. Tjáning sprettur fram af þjáningu, tekst á við hana. Þekktustu verk Munchs endurspegla angist þess sem þjáðist af því sem við myndum í dag kalla geðræna kvilla. Með svipuðum hætti, eftir fyrra stríð höfðu framúrstefnumenn tekist á við eyðilandið sem við þeim blasti.

 

Þrautir eru frjósamur jarðvegur túlkunar. Syrgjandann þarf að finna kenndum sínum farveg. Við kistulagningu leggja börn gjarnan myndir á sæng ástvinar og það fer ekki á milli mála hversu mikilvæg sú listsköpun er í úrvinnslu sorgarinnar. Sálgæsla snýst öðru fremur um að hjálpa fólki að koma orðum að líðan sinni. „Þegar ég þagði, tærðust bein mín“ segir hið forna skáld Davíðssálma. Útlegðin var gróskumesti tíminn í ritun heilagra texta gyðinga. Með sama hætti ryður samtalið leiðina og geta breytt mótlæti í friðarveg.

 

Nú var frelsi forms og tjáningar algjört. Ógnarkraftar höfðu klofið atómin, veruleikann, eytt borgum og þjóðarbrotum, hrakið fólk á flótta, skapað slíka sundrungu að ekkert yrði aftur eins og það var. Engar hömlur skyldu vera á þeirri túlkun – agressívar pensilstrokur, fingraför, brenndur strigi. Hér eru hendur og hugur óbundinn. Og sú staðreynd að þarna stigu konur fram á sviðið undirstrikar enn frekar þá nýsköpun sem þessir tímar mörkuðu.


Jaðarstund
 

Já, ræðum Munch í annarri predikun. Þessi sýning kom upp í huga minn þegar ég virti fyrir mér sýninguna hennar Huldu Stefánsdóttur Jaðarstund á Torginu hér í Neskirkju. Við opnum hana í þessum töluðu orðum.

 

Verk Huldu takast á við aðrar spurningar en sýningin sem fyrr er nefnd. Snertifletirnir eru þó augljósir. Sjálf talar Hulda um þann innblástur sem hún fékk þar sem hún dvaldi í listamannabænum Sala í Svíþjóð þar sem áður voru miklar silfurnámur. Silfrið nýttu frumherjar ljósmyndunar til að frysta andartökin á mynd og má segja að sú uppgötvun hafi einnig sett nýja mælikvarða á myndlist. Hér sjáum við silfraðar línur á málmfleti, himinbláma og björt form.


Hulda tengir sýninguna við sumarsólstöður sem eru að sönnu þrungin merkingu hvort heldur er í náttúru eða trú. Jónsmessan sækir nafn sitt til Jóhannesar skírara sem boðaði komu Krists og var brautryðjandi nýrra tíma. Tilefni þess að við kennum töfrastundir þessar við hinn úfna predikara eru orð hans sjálfs: „Hann á að vaxa en eg á að minnka“ og vísaði hann þar til Jesú. Þess vegna helgum við honum tímamótin þegar gangur sólar hér á norðurhveli styttist að nýju. Kristsmessan er svo hinum megin á árinu – um vetrarsólstöður þegar daginn tekur að lengja að nýju. Þetta er jaðarstund, á mörkum tveggja tímabila.


Jaðarfólk

 

Já, jaðarinn hvar stendur hann? Það er eitt einkenni á stefnubreytingum þegar epíferían – hið fjarlæga er skyndilega orðið að miðjunni, kjarnanum, sjálfu hjartanu. Sá er í raun boðskapur margra þeirra frásagna sem við eigum af Jesú og starfi hans. Þar birtist okkur jaðarfólk, verðlaust á mælikvarða samtíma síns en í því samhengi sem Jesús dregur fram verður það ekki aðeins hlaðið gildi og verðmæti – heldur jafnvel sjálfur mælikvarði á líf okkar sem einstaklinga og samfélags.

 

Dómarinn á hinum efsta degi bendir á hungraða, þyrsta, hrakta og fangelsaða og segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu systkina það hafið þið gert mér.“ Við getum kallað það jaðarstund þegar þessi orð voru fyrst sögð því nú var mælikvarðinn ekki lengur að þóknast hinum sterku og voldugu heldur þeim sem eiga um sárt að binda.

 

Við lesum um það í guðspjallinu þar sem Jesús stendur frammi fyrir réttnefndum ógöngum. Við getum séð konuna fyrir okkur og karlana allt í kring með grjót í höndum. Í þeirra augum hefur hvorki meira né minna en jafnvægi sjálfrar tilverunnar verið í húfi – það er þetta sem gyðingar kölluðu lögmálið, eða torah. Þetta voru flóknar og nákvæmar reglur um mannlega hegðun sem hverjum og einum bar að hlýða, annars myndi Drottinn allsherjar rjúfa sáttmálann við þetta samfélag og skelfilegar ógnir dynja á fólkinu.

 

Já, slíkur var óttinn við skaparann að í lögmálinu stóð skýrum stöfum að engar myndir mætti mála eða smíða líkneski af því sem er á himni, á jörðu eða í djúpinu.

 

Að baki bjó ekki ósvipuð hugsun og einkennir abstrakt eftirstríðsáranna. Þarna var eyðandi máttur sem ógnaði allri tilverunni. Hér var varað við því að dauðlegir menn að tækju sér guðlegt hlutverk og færu að tilbiðja eigin sköpun. Fyrir vikið spratt upp annars konar listheimur. Bókstafir voru flúraðir á ýmsan máta, þeir fengu tölugildi og nýtt samhengi og túlkun.

 

Af þeim stofni kom svo dulúðin, sem Hulda vísar til þar sem hún ræðir súfistana innan íslam sem dansa sinn seiðandi hringdans. Dulúðin tekst við þá hugmynd sem sennilega tengist öllum trúarbrögðum – að tungumálið nái ekki að tjá hið ótakmarkaða, eilífa. Orðið Jahve sem gyðingar nota um guðdóminn – er ekki annað en mynd af sögninni „að vera“. Við getum litið á listsköpun súfistanna sömu augum, sem eins konar myndlíkingu, metafóru fyrir það sem orðin fá ekki lýst né heldur verður mótað í myndform.

 

Þess má geta að listakonan Gerður Helgadóttir sem á verkið hér á vesturglugga kirkjuskipsins, var einnig heilluð af þeirri hefð og hlýddi á tónlist súfistanna meðan hún vann gluggana í Skálholtskirkju. Mörg verka hennar geyma hugleiðingu um hringformið, symmetríuna sem hún brýtur svo upp með ýmsum hætti, ekki síst í þrívíðum skúlptúrum. Sama stef sjáum við í þremur verkum Huldu hér á sýningunni. Hún mála hringi sem ramma inn auðan flötinn – „tómið sem inniber allt litrófið“ eins og Hulda kemst að orði.

 

Útlínurnar gera hringinn að því sem hann er – þær eru jaðarinn sem þó aðeins sýnilegur. Jaðarinn gefur miðjunni merkingu sína og eðli.


Skrifað í sandinn

 

Guðspjallið lýsir einmitt þessu andrými – þegar Jesús stóð andspænis þessum hring sem þeir mynduðu. Hann gaf sér tóm og skrifaði eitthvað í sandinn. Var þetta einhver gjörningur? Í þessum heimi ritaðs máls getum við spurt okkur hvort þar hafi einhver tákn verið rituð sem gáfu orðum hans aukna merkingu. Sannarlega hafa kynslóðirnar velt því fyrir sér en víst er að sandurinn á gólfinu hefur ekki varðveitt þau orð nema stundarkorn. Mögulega var þetta óður til forgengileikans – jafnvel hið skráða lögmál, sem tilveran stóð og féll með, var ekki eilíft og óbreytanlegt. Önnur gildi voru veigameiri. Í stað blinds réttlætis kom hið næma auga kærleikans sem leitar uppi þau sem standa á jaðrinum.

 

„Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum.” Orð þessi höfðu áhrif og konan slapp við refsingu. Dæmið ekki sakborninginn – fyrr en þið hafið litið í eigin barm og spurt ágengra spurninga.

 

Er það ekki eðli góðrar listar að snúa sjónarhorninu að áhorfandanum sjálfum? Þetta hugleiddi ég á safninu í Ósló og þessar hugsanir mæta okkur í óði Huldu til nýliðinnar jaðarstundar. Að endingu réttir listamaðurinn fram spegil sem sýnir áhorfandann sjálfan og þá veröld sem hann er hluti af.