Samtal við illvirkja

Samtal við illvirkja

Mitt í öllu því líkamlega, siðferðilega, pólitíska og tilvistarlega hruni sem krossfestingin lýsir – segir Lúkas sögu af tveimur illvirkjum. Já, hann færir út sjónarsviðið og Jesús er ekki einn þolandi þessarar grimmilegu refsingar. Af öllum þeim samskiptum sem hann hafði átt við fólk – áttu þessi eftir að verða hans síðustu, samtal við illvirkja.

Píslarsöguna þekkjum við í fjórum gerðum, þeirri sem guðspjallamennirnir, Mattheus, Markús, Lúkas og Jóhannes segja í ritum sínum. Frásagnir þeirra lýsa atburðunum frá ólíku sjónarhorni.


Píslarsögur

 

Sú hefð myndaðist snemma að flétta þessar sögur saman í eina frásögn. Hallgrímur Pétursson sótti í þann sjóð þegar hann samdi sálmana um Historíu pínunnar og dauðans drottins vors Jesú Kristí – sem við þekkjum undir nafninu Passíusálmar.

 

Píslarsagan er hugleiðing um þjáningu eins og nafnið gefur til kynna. Biblían geymir vissulega margar aðrar lýsingar á því þegar einstaklingar og heilu samfélögin horfa niður í djúp illsku og þrauta. Raunamaðurinn Job er þar kunnuglegt dæmi, spámenn töluðu til fólks í útlegð og hin óþekktu skáld ortu harmljóð. Sögur af krossfestingunni kallast á við þá texta.

 

Hér er krossinn sjálfur brennipunkturinn. Og eins og ásar hans vísa í allar áttir þá er sársaukinn allt um lykjandi. Okkur verður í fyrstu starsýnt á naglana sem reknir voru í gegnum holdið, á þyrnana sem stungu hörundið, á það hvernig fórnarlambið engdist þegar það reyndi að draga andann undan sligandi þunga eigin líkama.

 

En þarna eru líka pólitískar hliðar sem lýsa sundruðu samfélagi. Valdið þvær hendur sínar af réttarmorði og múgurinn vill sjá blóðið flæða. Þá mæta okkur svik. Vonir og draumar snúast upp í andhverfu sína. Ótti rýfur tryggðabönd og vinatengsl virðast slitna. Sagan er fjölskylduharmleikur. Móðir horfir máttvana á meðan líf sonar hennar fjarar út á þennan þjáningarfulla hátt.

 

Frásögn Lúkasar dregur svo fram enn eina vídd frásagnarinnar. Guðspjallamaður hinna fátæku, var hann kallaður, en honum eru einkum hugstæð samskipti Jesú við fólkið sem stóð á jaðrinum, átti sér enga málsvara og naut einskis skjóls í hinu samfélagslega kerfi. Hér birtist okkur ákveðið sjónarhorn á þessa atburði.


Samtal við illvirkja

 

Mitt í öllu því líkamlega, siðferðilega, pólitíska og tilvistarlega hruni sem krossfestingin lýsir – segir Lúkas sögu af tveimur illvirkjum. Já, hann færir út sjónarsviðið og Jesús er ekki einn þolandi þessarar grimmilegu refsingar. Af öllum þeim samskiptum sem hann hafði átt við fólk – áttu þessi eftir að verða hans síðustu, samtal við illvirkja..

 

Það verður eins og upptaktur að því sem harmleikurinn boðar – sem er endurheimt hins brotna og upprisa þess sem dauðinn átti að hafa lagt af velli.

 

Eins og leiftur af von sem brýtur sér leið í gegnum myrkið kemur setningin: „Í dag skaltu vera með mér í paradís.“ Þetta sagði Jesús við þann sem lýsti angri sínu yfir því sem hann hafði unnið á hlut annarra.

 

Allar götur síðan hefur það verið stef í kristinni trú að brotamenn geti fengið uppreista æru með sannri iðrun. Fyrr á öldum fóru slíkar játningar fram að viðstöddum söfnuðinum og gekk fólk svo saman til altaris. Var það til marks um að afbrot þess sem iðraðist væru fyrirgefin. Ýmis tilbrigði þekkjum við úr seinni tíð við þessa aðferð. Eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin í Suður Afríku voru illvirkjar leiddir fram fyrir fórnarlömb sín og fengu tækifæri til að lýsa því sem þeir höfðu gert, iðrast og biðja fyrirgefningar.

 

Með þessu vildu ný yfirvöld skapa einingu í landinu og koma í veg fyrir óöld hefndaraðgerða. En til þess að sættir gætu náðst þurfti einlægni, játningu og eftirsjá. Fyrirgefning er aldrei léttvæg og afsökun sem borin er fram af hálfum hug er afbrot númer tvö.

 

Samtal Jesú við ræningjann á krossinum er ein fyrirmyndin að þessu atferli.


Iðrandi illvirkjar

 

Og hvað með okkur? Getum við opnað dyr fyrir iðrandi illvirkja?

 

Á okkar dögum hafa þolendur hafa fengið rödd og leitað réttar síns gagnvart því fólki sem beitt hefur það ofbeldi. Slíkar frásagnir hafa leitt til þess að fjöldi manna sem eitt sinn voru áberandi hafa horfið af sjónarsviðinu. Þetta eru nánast allt karlmenn, eitt sinn vinsælir og farsælir, en á einu augabragði féllu þeir ofan af stalli sínum og eru nú hvergi sýnilegir. Já, löngu var kominn tími til rísa upp gegn sálarmorðum sem höfðu svo lengi viðgengist bak við luktar dyr.

 

Vandinn er sá að þessar aðgerðir eru aðeins komnar hálfa leið. Málin eru ekki útkljáð.

 

Þessi hugsun tengir okkur við sýninguna sem við ræðum hér á eftir. Karlarnir sem Arnar Ásgeirsson hefur mótað – minna um margt á þá sem hér hefur verið fjallað um: horfinn glæsileiki, týnd andlit, líkamar eins og neytendaumbúðir í stórverslunum. Hér er reisnin horfin sem og ásjónan. Við sjáum aðeins leifar af því sem eitt sinn var.

 

En það er eins og listamaðurinn skilji eftir vonarneista – rétt eins og í samtali Jesú við illvirkjann. Jú, mögulega er sápan sem fyllir stytturnar bara til marks um það hversu hjákátlegir þeir eru. Önnur túlkun gæti verið þveröfug. Eru þetta mögulega skilaboð um þá hreinsunaraðferð sem við köllum iðrun? Einmitt það sem gerir brotlegum kleift að dveljast í þeirri paradís sem mannlegt samfélag getur verið, þar sem hefur náðst sátt og endurheimt tengsla.

 

Píslarsagan er saga um þjáningu og hún á erindi við allt fólk. Hún skilur okkur eftir bæði hugsandi og skynjandi. Hún er undanfari upprisunnar og upprisa á ýmsa birtingarmynd í lífi okkar og samfélagi.

 

Heyrum nú hvernig Hallgrímur Pétursson tengir þessa frásögn við eigin stöðu sem synduga manneskju og bendir á að hreinsun sem iðrunin er.