Einum huga

Einum huga

Þessa minnumst við nú, þegar liðin eru 40 ár frá því að fyrsti einstaklingurinn var greindur með alnæmi hérlendis. Þeir atburðir birta okkur er napran vitnisburð um það andrúmsloft sem getur myndast í kirkjunni. Af þessu tilefni rifjum við upp ummæli kristinna leiðtoga sem töldu hið banvæna mein vera refsingu Guðs fyrir því sem þeir töldu vera ólifnað samkynhneigðra.

Ég segi stundum við fermingarbörnin eitthvað á þessa leið: Hugsið ykkur ef við værum með fótboltalið, byrjunarlið á vellinum, ekki varamenn, þjálfara og annað starfslið, bara þessa ellefu. Og þetta væri ekkert sérstakt lið, léki í neðri deildum, enginn leikmanna hefði gert garðinn frægan og að öllu óbreyttu væru litlar líkur á því að svo yrði nokkurn tímann.

 

Óleysanlegt verkefni?

 

Já, hugsum okkur hóp ellefu leikmanna og við mælum okkur móts við þá upp á fjalli. Þar fá þeir þetta verkefni: Farið út um allan heim og kennið fólkið það sem þið hafið lært.

 

Við getum verið sammála um að það þyrfti kraftaverk til, ætti þeim að takast slíkt ætlunarverk. Og þó er þetta saga kristninnar. Þetta er frásögnin sem við kennum við fagnaðarerindi, verkefnið sem hinir ellefu fengu að segja sögurnar af Jesú út um allan heim.

 

Fræðimenn spyrja sig enn að því hvað bjó að baki þeim ótrúlega árangri, að nokkrum mannsöldrum síðar var þessi trú sem þeir boðuðu komin svo víða sem raun bar vitni. Og var hún þó ekki hugmyndakerfi eða úthugsuð kenning heldur öðru fremur kærleiksverk, sögur og síðar sendibréf til þessara fámennu safnaða sem höfðu myndast í kjölfar trúboðsins sem þeir stunduðu.

 

Angar þessarar trúar teygðu sig allt austur í Kína, til Indlands og Persíu. Þessari trú fylgdi mikil ritmenning. Á fjórðu öld kynntust Gotar í Vesturhluta Evrópu þessum sögum og þeir feng Biblíu á sínu tungumáli sem er í dag ein helsta heimild okkar um hina horfnu tungu þeirra, gotneskuna.


Að stofnanavæða hugsjónir

 

Já, þessar sögur. Þær höfðu sannarlega áhrif. En um leið og fleiri aðhylltust hina nýju trú sköpuðust ný vandamál. Þegar valdhafar á borð við Konstantín Rómarkeisara skynjuðu mátt þessarar óvenjulegu trúar þá tók við nýtt skeið í þessari framþróun. Keisarinn kallaði helstu kirkjuleiðtogana saman til fundar. Það var í Níkeu 325 og hugmyndin var að fá þá til að sameinast um einn skilning á kennisetningum kristninnar. Sú sameiningarviðleitni endaði með ósköpum og þarna klofnuðu fylkingar kristinna manna og sér ekki fyrir endann á því.

 

Kennisetningar og opinber íhlutun höfðu þessar afleiðingar. Allar götur síðan hafa kristnir menn horft aftur til upphafsins og séð þar fyrir sér hina ákjósanlegu kirkju þar sem einhugur ríkti.


Einum huga

 

Þessi texti sem hér var lesinn úr Postulasögunni dregur fram mynd af þessu samfélagi. Þarna eru ekki mótaðar hugmyndir, settar fram í flóknum dogmum þar sem hópar fólks eru aðgreindir á grundvelli skoðana og afstöðu. Nei, hér halda þau aftur til borgarinnar helgu frá fjallinu þar sem þau fengu köllun sína.

 

Hugarfari þeirra er lýst með þessum orðum: „Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.“ Síðar í þessari frásögn er talað um það hvernig„Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.“

 

Þessi litla frásögn er eins og lýsing á upprunalegu ástandi sem allir síðari tímar ættu að miða við. Hún kallast jafnvel á við sögurnar um aldingarðinn í upphafi Biblíunnar. Þar ríkir sátt og jafnvægi rétt eins og við lesum um það hvernig þessi hópur sameinaðist í tilbeiðslu og helgihaldi. Þessi texti birtir okkur raunar tilgang þessarar kirkju sem postularnir stofnuðu til.

 

Að borða saman


Þeir safnast í kringum borðið, þar sem Jesús hafði áður setið með þeim og taka þátt í þeirri athöfn sem hann stofnsetti og við enn í dag stundum í kirkjunni.

 

Já, það er önnur samlíking sem við deilum gjarnan með fermingarbörnum og foreldrum þeirra. Nefnilega að í kirkjunni komum við saman og borðum. Já, með hverjum viljum við borða? Skiptir það okkur einhverju máli? Vissulega, þegar við snæðum saman er það oftar en ekki hópur sem við höfum sérstaklega valið til að deila með okkur máltíðinni. Þetta er ein skýringin á því af hverju við göngum til altaris í kirkjum. Þessir hugsun birtist víða. Þannig er frummerking enska orðsins ,,companion" - ,,Þeir sem borða saman (com) brauð (panis)." Hér sjáum við áhrif þessara frásagna.

 

Þegar við borðum saman brauðið lýsum við því að við erum eins og fjölskylda eða vinahópur. Þar er fólk vissulega oft ólíkt og hefur ýmsar skoðanir, en við leggjum ágreining okkar til hliðar og setjum að hinni sameiginlegu máltíð. Þetta er einmitt skýringin á því að presturinn ávarpar matargesti í upphafi með orðunum: „Friður Drottins sé með yður“ og þeir svara „og með þínum anda.“ Þetta er yfirlýsingin sem á að draga fram einkenni borðhaldsins.

 

En það allir séu með einum huga breytir því ekki að hér eru breyskir einstaklingar samankomnir. Síðasta kvöldmáltíðin, fyrirmynd þessara máltíða sem hér er lýst, var að sama skapi stund svika og sundrungar. Þar má segja ákveðinn forsmekkur hafi verið gefinn að því sem var í vændum.


Kristindómurinn á tímum alnæmis

 

Þessa minnumst við nú, þegar liðin eru 40 ár frá því að fyrsti einstaklingurinn var greindur með alnæmi hérlendis. Þeir atburðir birta okkur er napran vitnisburð um það andrúmsloft sem getur myndast í kirkjunni. Af þessu tilefni rifjum við upp ummæli kristinna leiðtoga sem töldu hið banvæna mein vera refsingu Guðs fyrir því sem þeir töldu vera ólifnað samkynhneigðra.

 

Og framundan var löng barátta innna Þjóðkirkjunnar fyrir auknum réttindum þess hóps. Líta má svo á að hugsjónin um ein hjúskaparlög fyrir fólk óháð kynhneigð hafi einmitt sprottið upp úr umræðunni um alnæmisfaraldurinn.

 

Já, kristnir söfnuðir sem eiga upptök sín í því samlyndi sem lýst er í postulasögunni, og birtast okkur í bæn Jesú í guðspjallinu, áttu margir eftir að feta leið sundrungar og útilokunar – jafn fjarstæðukennt sem það er í þessu samhengi. Slíkt birtist okkur einmitt í þessu samhengi. Afsakanir hafa borist og þær eru mikilvægt skref. Markmiðið er auðvitað að opna faðminn fyrir fólki og hópum sem hingað til hafa staðið á jaðri samfélagsins. Er það eitthvað nýtt og framandlegt kristninni? Nei, öðru nær, það stendur í kjarna kristinnar trúar og var lykilþáttur í starfi þessara safnaða.


Ferðalangar 

 

Já, hér voru talin upp nöfn þessa fólks sem sneri aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu. Öll þau sem voru stöðug í bæninni. Og hér erum við saman komin – eins og ferðalangar á sömu leið. Frá fjallinu til hinnar helgu borgar. Okkar nöfn eru nú hluti þessarar runu sem þarna er lesin upp. Við erum eins ólík þeim og hugsast getur – úr allt öðru umhverfi, á allt öðrum tíma. En tengingin er engu að síður augljós og hún yfirgnæfir allt annað. Það er trúin á Jesú sem við byggjum á hvert og eitt okkar og svo söfnumst við saman við borðið eins og ein fjölskylda – einn vinahópur þótt kynslóðir skilji á milli.


Texti:

Post 1.12-14

Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.