Skjálftar

Skjálftar

Skjálftar hafa áhrif. Dæmi eru um að fólk hafi hreinlega endurskoðað hugmyndir sínar um lífið og tilveruna, já Guð í kjölfar jarðhræringa. Áður en GPS mælar upplýstu fólk frá degi til dags um dýpt hraunhvikunnar undir jarðskorpunni áleit fólk að þar væru guðleg öfl að verki. Þarf ekki að undra. Drunurnar minna á ógnvekjandi karldýr sem urrar á bráð eða andstæðing. Og, eins og við höfum sjálfsagt mörg upplifað, þá erum við ósköp smá í samhengi jarðfræðinnar. Það má hrista okkur á alla kanta án þess að við fáum rönd við reist.

 

Ég játa, að í hvert sinn sem jörðin skelfur í þessum umbrotum fyllist ég ónotakennd.

 

Skjálftar hafa áhrif

 

Eftir að þessi stóri þarna um daginn vakti mig af værum blundi þá lá ég nokkra stund í bælinu og beið þess geta haldið áfram nætursvefninum. Á meðan velti ég því fyrir mér hvað nákvæmlega það væri sem fyllti mig þessum ugg við nötrandi jörðina. Jú, það þarf svo sem ekki að kafa djúpt ofan í þær tilfinningar til að geta fundið þeim einhverja yfirskrift: Varnarleysi, vitundin um ógnaröfl undir fótum okkar, óttinn við að einhver kunni að slasast, heimilið verði fyrir tjóni, jafnvel að eitthvað gefi sig í undirstöðum hússins.

 

Skjálftar hafa áhrif. Dæmi eru um að fólk hafi hreinlega endurskoðað hugmyndir sínar um lífið og tilveruna, já Guð í kjölfar jarðhræringa. Áður en GPS mælar upplýstu fólk frá degi til dags um dýpt hraunhvikunnar undir jarðskorpunni áleit fólk að þar væru guðleg öfl að verki. Þarf ekki að undra. Drunurnar minna á ógnvekjandi karldýr sem urrar á bráð eða andstæðing. Og, eins og við höfum sjálfsagt mörg upplifað, þá erum við ósköp smá í samhengi jarðfræðinnar. Það má hrista okkur á alla kanta án þess að við fáum rönd við reist.

 

Sögulegir skjálftar

 

Svo eru dæmi um að skjálftar hafi hreinilega valdið stefnubreytingum. Jú, Suðurlandsskjálftinn árið 1784 jafnaði öll hús á svæðinu við jörðu og markaði um leið endalok biskupsstóls í Skálholti. Hólar fóru sömu leið. Biskupinn skyldi sitja í Reykjavík og í tveimur árum síðar fékk þetta litla þorp kaupstaðarréttindi.

 

Skjálftinn í Lissabon þremur áratugum fyrr – árið 1755 – skók heimsmynd margra áhrifamanna á þeim tíma. Það var á allra heilagra messu og munu ósköpin hafa staðið í hálfa fjórðu mínútu. Gjár og sprungur opnuðust í borginni. Og kertin sem fólk hafði kveikt í tilefni dagsins ultu um koll svo mikill eldsvoði varð. Þegar íbúar þustu úr húsum sínum í átt að höfninni tók ekki betra við. Hrikaleg flóðalda gekk þá yfir ströndina, sem leiddi til enn frekari hörmunga.

 

Jarðskjálftinn í Lissabon, getum við sagt, kom flatt upp á hugsuði þess tíma sem höfðu fléttað skynsemistrúinni saman við guðstrúna. Þeir höfðu flutt þann boðskap að veröldin stigi taktfastan dans framþróunar og þekkingar og að yfir því öllu vakti almætti sem ekki mætti neitt aumt sjá. Örlög borgarbúa bentu sannarlega ekki til þess að sú væri raunin.

 

En sjálfur kyndilberi þessarar stefnu, Immanúel Kant, tók hins vegar að safna saman gögnum þar sem hann leitaði náttúrulegra skýringa á skjálftanum. Upp úr því varð til fyrsta jarðfræðiritgerðin, eða í það minnsta fyrsta skipulega viðleitnin til að skýra eðli jarðskjálfta. Fræðimenn sem flytja okkur fréttir af gangi mála byggja starf sitt á þeim grunni.

 

Nú getum við nánast í rauntíma skynjað viðbrögð fólks við þessum hræringum. Ég er sannarlega ekki einn um að finnast það ónotalegt þegar undirstöðurnar leika á reiðiskjálfi. Og stenst þó kvikan undir Fagradalsfjalli engan samanburð við ógnaröflin sem hafa lagt borgir í eyði og jafnvel breytt hugmyndum fólks um hin æðstu gildi.

 

Skjálfti í Sesaraeu

 

Því er leitun að meira viðeigandi guðspjallstexta á tímum skjálftavirkni en þeim sem hér var lesinn. Fyrst fær Símon þessa nafnbót – kletturinn sjálfur, undirstaðan sem allt hvílir á. En hversu traustar reyndust þær stoðir?

 

Er von að spurt sé. Í beinu framhaldi formælir Jesús honum og kallar hann Satan. Fróðlegt hefði verið að hlýða á útleggingu Leibniz og annarra skynsemistrúaðra á því samtali. Hér birtist okkur jú önnur guðsmynd þeirri sem þeir höfðu boðað og hafði hrunið til grunna ásamt húsunum í Portúgal. Þetta snýst sannarlega ekki um þægindi og lausn undan óréttlæti og þrautum.

 

Biblían er raunsæ í afstöðu sinni til lífsins og tilverunnar. Þar er ekkert fegrað eða upphafið þegar kemur að lífi manneskjunnar á jörðinni. Þvert á móti gengur sú hugsun sem rauður þráður í gegnum mótandi sögur þessarar bókar að þrautir og þjáningar séu órjúfanlegur þáttur mennskunnar. Og upp úr þeim getur hugsjónafólk unnið mikla dáð.

 

Raunir hugsjónafólks

 

Þessi hugmynd að Guð starfi með sama hætti og rökhugsun okkar myndi gera – þar sem markmiðið beinast öðru fremur að hamingju – birtist okkur þó víða í hinum ólíku ritum Biblíunnar. En þá oftar en ekki sem einhvers konar andsvar við því sem höfundar þessara bóka vilja koma á framfæri.

 

Við lesum hana í samtali Jeremías við Drottin, þar sem hann kveinkar sér undan hlutskipti sínu, þrautum og óréttlæti. En Guð brýnir hann að „tala þungvæg orð en ekki léttvæg.“ Hér var jú annað og meira í húfi en makindi. Það var sjálf tilvera þjóðar, með sögu og framtíð, frelsi og sjálfstæði – allt slík lá undir. Og það voru þau þungvægu orð sem spámanninum var ætlað að flytja.

 

Að sama skapi lesum við af þrautum postulans sem sat í fangelsi í kjölfar vitrunar sinnar og lýsir því fyrir konunginum að hann vildi hlýðnast sinni himnesku köllun.

 

Ég leyfi mér í samhengi yfirstandandi atburða að tala um guðfræðileg flekaskil sem ganga í gegnum ritninguna og síðar kirkjusöguna.

 

Að mæta mótlætinu

 

Þegar Pétur vill forða Jesú frá þeim þjáningum sem bíða hans tekur hann sér stöðu með þessum hópum. Fyrir vikið verður tilsvar Jesú ef til vill skiljanlegra. Hann hrópar á hann eins og hann hafði gert við freistarann sjálfan: ,,Vík frá mér Satan! þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“ Þetta er freistingin stóra að þvinga almættið inn í það mót sem við sjálf myndum vilja.

 

Sú menning sem Biblían miðlar er eitt stórt uppgjör við þá hugmynd, eða eins og Jesús segir í hranalegu tilsvari sínu við Pétur: ,,Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn en glata sálu sinni.”

 

Þess vegna verður þjáningargripurinn sjálfur – Krossinn – einkennistákn trúarinnar. Þau sem hafa í gegnum tíðina stunið undan þrautum þessa heims hafa horft þangað og mætt þeirri mynd af hinum æðsta og mesta sem tók sér stöðu með þeim mitt í myrkrinu.

 

Eftir stendur þessi boðskapur: Gætið að því að láta ekki velsældinaræna ykkur sjálfu lífinu, eftirsókn valda og auðs, löngunina á að græða á heiminum. Þá glatið þið um leið sálu ykkar. Þá missir lífið innihaldið. Þetta skynjum við vel á okkar tímum þar sem ærandi kliðurinn fyllir upp á allt tóm og við þeytumst frá einni dægrastyttingunni til annarrar. Það er eins og einhver öfl séu að ýta okkur frá því að taka á þeim málum sem eru svo brýn.

 

Því það er einmitt í mótvindinum sem við skynjum best hvar köllun okkar liggur.

 

Flekaskil hjartans

 

Já, undirstöðurnar bifast. En skilin liggja í þessu tilviki ekki um jarðskorpuna heldur í gegnum hjarta okkar sjálfra. Þar drögum við línuna. Er sjónarhornið þröngt, eru hvatirnar eigingjarnar og frumstæðar? Ekkert gott liggur eftir þann sem eingöngu hugsar um eigin hag og skeytir engu um hin æðri gæði.

 

Kletturinn sem fær þarna lyklavöldin í hendurnar reyndist sannarlega ekki óhagganlegur og traustur. Það var öðru nær. En honum var engu að síður falið þetta hlutverk. Því hann var eins og við öll, mennskur og ófullkominn í heimi sem er fullur mótlætis og mótsagna. Líf okkar er vegferð þar sem við glímum við stórar spurningar, mætum þrautum og þjáningum þessa heims með því hugarfari að okkur sé ætlað stórt hlutverk.


Textar dagsins.