Bænastund á aðventu

Bænastund á aðventu

Á aðventu er gott að eiga kyrrláta stund við kertaljós. Hér eru bænir sem hægt er að hafa til hliðsjónar á einfaldri aðventustund.
Mynd

Við tendrum ljós og biðjum um frið: Guð friðarins. Við þökkum þér fyrir spádómana um friðarhöfðingjann, barnið sem fæðist inn í okkar kjör til að færa með sér frið. Við biðjum um frið á þessari aðventu, frið um alla jörð, frið á milli þjóðfélagshópa, frið inn á heimilin, frið í hjarta. Gefðu okkur að ganga inn í aðventuna með þér, að friður fylgi skrefum okkar.

Við tendrum ljós og biðjum um trú: Trúfasti Guð. Þú sem valdir litla bæinn Betlehem sem fæðingarstað frelsarans. Gefðu okkur að beina sjónum okkar til þín á þessari aðventu og þiggja gjöf heilags anda, trúna. Opnaðu hjarta okkar fyrir nærveru þinni. Hjálpaðu okkur að lifa í trúmennsku, réttlæti og hjartans einlægni.

Við tendrum ljós og biðjum um kærleika: Kærleikans Guð. Við þökkum þér fyrir hirðana sem heyrðu gleðiboðskap englanna. Leyfðu okkur sem líka erum vanmáttugt og venjulegt fólk að heyra kærleiksröddu þína og geyma það allt í hjarta okkar og hugleiða það eins og María móðir Jesú. Láttu kærleika þinn streyma inn í hjörtu okkar og bera ávöxt án afláts.

Við tendrum ljós og biðjum um von: Guð vonarinnar. Þér sungu englar dýrð á dimmri jólanótt. Þú ert ljós heimsins. Hjálpaðu okkur að festa von okkar á þér og sýna kjark í öllum aðstæðum lífsins. Við biðjum þig um að fylla okkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að við séum auðug að voninni í krafti heilags anda.

Fyrir Jesú Krist, frelsara heimsins. Amen.

Biðjum saman: Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji svo á jörðu sem á himni. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu. Amen.

Kærleiki Guðs, trú Jesú Krists og von heilags anda leiði okkur á friðarins vegi. Amen.