Hugvekja: María móðir Drottins í upphafi bænaviku

Hugvekja: María móðir Drottins í upphafi bænaviku

Fyrirbænaþjónusta kirkjunnar er þannig undir krossinum með Maríu í raunveruleika samtímans. Vil ég hvetja alla sem tækifæri hafa að fylgjast með átta daga bænunum. Það eru ritningarlestrar, íhugun og bæn fyrir þessa daga sem bænavikan stendur, gefa Guði tíma að morgni eða um miðjan dag eða að kvöldi til að biðja fyrir þeim bænaefnum sem þar eru og því sem andinn minnir okkur á. Áttadaga bænirnar má finna á facebook síðunni: Bænavika 18-25 janúar.
fullname - andlitsmynd Guðmundur Guðmundsson
16. janúar 2020
Það vill svo til að guðspjall næstkomandi sunnudags í lútersku kirkjunni er um fyrsta táknið sem Drottinn gerði í Kana í Galíleu (Jh. 2.1-11). Þar er sagt frá brúðkaup og góðri veislu. Af einhverjum ástæðum var Jesús og móðir hans þar og lærisveinar hans. Sumir hafa ætlaði að þetta hafi verið brúðkaup Jóhannes guðspjallamanns sem er sögumaðurinn. Hann var þá einn af lærisveinunum. En þessi frásögn er um bænina. Vil ég draga lærdóm af henni í upphafi alþjóðlegri, samkirkjulegri bænaviku fyrir einingu kristninnar, sem er að hefjast nú um helgina og stendur yfir frá 18. janúar til 25. janúar. (Frétt um það má finnahér).
María, sem reyndar er ekki nefnd á nafn í guðspjallinu, heldur sagt frá henni sem móðir Drottins, er táknmynd fyrir eitthvað meira þá þegar, eins og hún hefur verið í gegnum kirkjusöguna. Móðir Drottins táknar kirkjuna sem biður sínar tíðabænir á öllum öldum. Það er sagt frá henni tvisvar, hér í upphafi guðspjallsins (2. kafla) og að hún stóð undir krossinum. Þá fól Jesús móðir sína í forsjá Jóhannesar og sagði við móðir sína: „Kona, nú er hann sonur þinn“ (Jh. 19.26). Ótal málverk eru til sem túlka móður Drottins undir krossinum. 
Það hefur verið góð reynsla að kynnast fólki í ólíkum kristnum söfnuðum hér á Akureyri. Við höfum verið með bænastundir í samstarfskirkjunum þessa viku og verður þannig einnig að þessu sinni. Bænin í Jesú nafni skapar merkilega samkennd. Ég hef lært margt af trúsystkinum mínum í því efni. Bænin er þetta að ákall Guð í neyð sinni einn eða með öðrum. Myndin af Maríu undir krossinum birtir djúpa mannlega neyð og sorg sem knýr til bæna. En atvikið í brúðkaupinu í Kana gerir það einnig og minnir á að við megum biðja til Guðs um hversdagslega hluti, enda lifum við í veruleika, þar sem þörfin knýr okkur og vandræðin eins og þegar vínið þraut í brúðkaupinu forðum. María fór og sagði Jesú frá þessari neyðarlegu uppákomu, sagði svo þjónunum að gera það sem hann myndi biðja þá um og hvíldi svo í trausti til sonar síns. Bænina er að gera alla hluti kunna Guði, láta hann vita og vænta góðra hluta frá honum. Ef við getum ekki beðið yfir smáræðinu þá er hætt við að við kunnum það ekki heldur þegar reynir virkilega á. Látum þetta verða, kristnu systur og bræður, hvatningu til að vera stöðug í bæn, María er okkur fyrirmynd í því.
Ég hef ályktað þannig fyrir sjálfan mig að best er að lesa guðspjallið í bæn. Mér finnst ástæða til þess fyrst Jóhannes, sem reyndar er ekki heldur nefndur á nafn í guðspjallinu, heldur skrifar um sig sem lærisveininn sem Jesús elskaði, rammar inn frásögu sína með Maríu á bæn. Hún hefur verið honum náin, frá brúðkaupsdeginum og þar til sonur hennar dó á krossi og meistari hans. Þá heyrum við og sjáum um hvað er verið að ræða með kraftaverkunum meðal annars þegar Jesús breytti vatni í vín, við megum vænta góðra hluta af Drottni. Jóhannes er að veita okkur þekkingu á Guði, að Guð elskar, Guð er kærleikur, sem vekur trú og von í hjörtum okkar. Til þess varð Guð maður. Þessi hugsun brýtur upp okkar vanahugsun og nauðungarhyggju, að allt fara eftir genum okkar og umhverfi. Getur verið að hugsunin um Guð brjóti þann hugsunargang mélinu smærra. Ég held það. Orðið sem Jesús er, vitið í tilverunni, segir okkur allt annað, að handan við tilveruna, utan við tíma og rúm, er Guð sem elskar. Það er að í grunni tilveru okkar er Guð sem vill okkur allt það besta. Vandinn er bara sá að það er frekar erfitt að trúa því í tilveru sem ef rökum einum er beitt leiðir allt annað í ljós. Getur Guð verið réttlátur fyrst allt fer á einhvern annan veg en ég vonaði? Er það ekki rökrétt að tilvera okkar sé merkingarlaus, efni og orka ein, þó að flókinn heili okkar manna, sem varð til fyrir tilviljun eina í alheimi, er eina meðvitundin sem greinir tilveruna? Ef málum er þannig farið verðum við að búa til merkingu vegna þess að tilgangsleysið er okkur af eðlisfari óþolandi. Eitthvað finnst mér svona röksemdafærslur vafasamar.
Guð er meira en rökhugsun okkar? Guð skapar með Jesú samband við sig sem er ofar mannlegum skilningi, enda talar Biblían þannig, að það er æðri hugur, sem hefur skapað tilveru okkar í öllum margbreytileika sínum og víddum, tíma og rúm, ekki eins og við dreymum um, heldur eins og hún er, af einhverjum huldum ástæðum, sem er mjög erfitt að ráða í. Ég verð að viðurkenna það af reynslu. Tilvera okkar brýtur þannig hugmyndir okkar um Guð enda verður hann ekki tekin hugtökum þá væri hann heldur ómerkilegur ef hann rúmaðist í mannlegum huga en við getum lifað Guð þegar við áköllum hann í neyð okkar.
Sá texti sem hefur verið valinn fyrir bænavikuna 2020 er kröftugt dæmi um bæn í neyð. Að þessu sinni var efnið undirbúið á Möltu. Á hverju ári er haldið upp á það í janúar að Páll ásamt allri áhöfn skips náði þar landi eftir sjáfarháska eins og sagt er frá í Postulasögunni 27. kafla. Með einhverjum hætti fékk Páll vitrun svo að hann gat boðað áhöfninni að allir myndu komast af úr storminum sem geisaði í marga daga. Hann gat leiðbeint þeim að beina skipinu að landi undan vindi. Hann var fangi ásamt öðrum á leið til dóms í Róm en fyrir Guðs náð drápu fangaverðirnir þá ekki þó uppi voru ráð um það. Allir björguðust eins og Páll hafði spáð fyrir og vel sinnt þegar þeir komu í land. „Eyjaskeggjar sýndu oss einstaka góðmennsku“ (Post. 28.2), eins og skrifað er. Þau orð eru valin sem yfirskrift vikunnar. Þessi saga minnir á flóttafólk sem fer í hættuför yfir Miðjarðarhafið á okkar tímum. Páll lifði sinn raunveruleika og bað. Við heyrum af þessum flótta fólks frá stríði og ógnvænlegum aðstæðum. Bæn er að finna til með öðrum og ákalla Guð um hjálp. Það er að tengjast raunveruleika sínum og lífi meðbræðra og systra. Þá erum við að tala um samband við Guð þegar við fylgjum honum þangað sem hann leiðir okkur. Oft látum við nægja að biðja en Guð vill nota hendur okkar og fætur til að hjálpa hvert öðru hvort sem það er í stóru eða smáu. 
Fyrirbænaþjónusta kirkjunnar er þannig undir krossinum með Maríu í raunveruleika samtímans. Vil ég hvetja alla sem tækifæri hafa að fylgjast með átta daga bænunum. Það eru ritningarlestrar, íhugun og bæn fyrir þessa daga sem bænavikan stendur, gefa Guði tíma að morgni eða um miðjan dag eða að kvöldi til að biðja fyrir þeim bænaefnum sem þar eru og því sem andinn minnir okkur á. 
Áttadaga bænirnar má finna á facebook síðunni: Bænavika 18-25 janúar.