Ríkidæmi mýktar

Ríkidæmi mýktar

Auðmjúk manneskja er eins og frjósöm moldin - það fer vissulega ekki mikið fyrir henni en upp úr henni vex gróskan í ótal litbrigðum.

 Orð eru til alls fyrst, segir máltækið en reyndin er nú líklega frekar sú að hugsandi fólk hefur í gegnum tíðina fundið orð yfir einhver þau fyrirbæri sem þegar eru til.


Hvað segja orðin?


Jú, Biblían vissulega boðar það að orðið hafi verið til alls fyrst – í orðsins fyllstu merkingu – þegar almættið hóf sköpunina með orðunum: „Verði ljós“. Í næsta kafla segir á hinn bóginn frá þeim Adam og Evu sem fengu það verkefni að nefna öll dýr jarðarinnar og gerðu það augljóslega með miklum myndarskap.

 

Já, orð eru ekki síður áhugaverð ef þau endurspegla viðleitni til að skilja, grípa eða fanga í hugann eitthvað af þessum endalausu efnislegu og óefnislegu fyrirbærum, kenndum, hugmyndum eða eðlisþáttum sem mæta manninum á ferð hans frá vöggu til grafar. Þannig getur orðið falið í sér eðli þess sem það lýsir. 

 

Fyrst ég var að nefna Adam og Evu, þá eru þau auðvitað lýsandi dæmi um þetta. Þetta eru hebresk nöfn og þegar við rýnum í hugtök og heiti á því tungumáli finnum við tengingar í alls kyns skylda þætti. Adam, nafnið á þessari persónu merkir hvorki meira né minna en ,,maður“ og rétt eins og í indóevrópskum málum eins og til dæmis íslenskunni – sprettur orðið upp úr moldinni. Homo á latínu er af sama stofni og humus – sem merkir mold. Adam er samstofna orðinu adamah sem merkir einmitt líka jörð eða mold. Eva merkir svo lífvera, komið af orðinu hawa sem merkir líf þótt, það kunni, merkilegt nokk að hafa aðrar rætur. Fræðimenn hafa leitt að því líkum að nafnið merki þvert á móti, höggormur. En það er önnur saga.


Þetta með moldina og Adam finnst mér vera listilega til fundið. Við mennirnir erum auðvitað mold í einhverri mynd. Það er hluti af fegurð tilverunnar að þegar dagar okkar eru að baki þá skilum við því aftur, orkunni og efninu sem við samanstöndum af, til jarðarinnar. Í kirkjulegum útförum er þetta sérstaklega áréttað í lok athafna – þegar prestur segir: ,,Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu aftur verða" og svo bætir hann því við að við munum rísa upp af jörðu.


Spekin

 

Og nú heyrðum við lesið guðspjall dagsins sem hljómar í mínum eyrum eins og drjúg og sígild speki sem allir hafa gott af því að hlýða á. Áður fengum við áminningu frá einu af þessum spekiritum Biblíunnar, Orðskviðunum, þar sem við finnum þennan málshátt: „Dramb er falli næst.“ Og í framhaldi stendur: „Hroki veit á hrun“. Þetta gæti verið yfirskrift uppgjörs samfélags sem hætti sér of langt, og hreykti sér of hátt.

 

Jesús talar um þetta, þegar einhver olnbogar sig fram fyrir aðra og treður sér í hefðarsæti í virðulegu boði. Hafið þið lent í einhverju svipuðu? Ég hef örugglega sjálfur staðið mig að því að mislesa aðstæður í einhverjum félagskap og trana mér fram þar sem ég átti að bíða þolinmóður eftir að vera vísað til sætis – í einhverri merkingu. Tilfinningin er einmitt eins og Jesús lýsir henni – kinnroði og vandræðagangur.

 

Það er heldur ekki alltaf þannig að við getum bara jafnað okkur í ósköpunum og hlegið svo að þeim síðar – svona í anda þeirrar speki að fyndni sé harmleikur plús tími. Nei, við verðum stundum áþreifanlega vör við það að einhver ætlar sér stærra og merkilegra hlutverk en hann eða hún ræður við og á skilið.


Orðavaðall


Nú á dögunum fóru til dæmis fram kappræður forseta Bandaríkjanna og frambjóðanda demókrata. Það hefði verið gott að geta hlegið að þessum ósköpum, lygavaðlinum sem vall upp úr þeim fyrrnefnda, fúkyrðunum sem þeir hentu á milli sín og glórulausum orðavaðli – sem hafði litla merkingu – ólíkt orðum sem standast tímans tönn.

 

Því fer fjarri að þessi ömurlega staða sé eitthvert einsdæmi. Víðsvegar um heiminn hafa einstaklingar troðið sem fram fyrir aðra í krafti hávaða og þess sem virðist vera útsmogin auglýsingamennska á samfélagsmiðlum. Undantekningarnar virðast einkum koma frá löndum á borð við Finnland þar sem yfirvöld hafa lagt kapp á að kenna þegnunum að varast áróður og öfgasamtök sem láta til sín taka í netheimum.

 

Það er ekki langt síðan leiðtogar víða um heim lýstu einum rómi áhyggjum af vistkerfi þessarar jarðar sem við búum í og erum hluti af. Þá vildu menn ganga til varnar moldinni og því sem af henni óx skógunum og fjölbreyttu lífi, einnig hafinu, og andrúmsloftinu. Síðan hefur hver á fætur öðrum stigið fram og látið eins og það sé engin ástæða til að hlúa að þessum ómetanlegu verðmætum. ,,Hroki veit á hrun" – segir í hinum fornu speki. Við þekkjum það hvernig efnhagskerfi getur hrunið ef menn seilast of langt. Við vitum líka að græðgin, systir hrokans, lætur fleira falla. Lífið og framtíð þess á allt sitt undir því að við horfu niður til moldarinnar þaðan sem við erum sprottin og hlýðum kalli hennar.


Auðmýkt

 

Auðmýktin er orðið sem býr að baki þessum textum. Hvað merkir það. Íslenskan fer sínar eigin leiðir hér sem víðar og skapar þetta fallega orð sem vísar í senn til auðs og mýktar. Við getum sagt að það að vera auðmjúk feli í sér það ríkidæmi mýktar og sveigjanleika. Það felst líka í boðskap sögunnar sem Jesús flytur. Sá auðmjúkir sest ekki í hefðarsæti en svo getur vel farið að honum verði boðið þangað er líður á samkvæmið.

 

Það að vera ríkur að mýkt er ekki veikleiki heldur byggir það á traustri sjálfsmynd þess sem leitar ekki mælikvarða til hégómlegra þátta. Hún felur líka það í sér að fagna ábendingum og gagnrýni. Í henni býr því í senn styrkur og sveigjanleiki. Af auðmýkt vex hreinskilni: Ég á ekki svör við öllu, ég hef gagn af því að kynna mér það sem aðrir hafa fram að færa. Þarna býr viljinn til að gera betur, halda áfram að sinna þeim grunnþörfum sem líklega búa í okkur öllum, sem er að tilheyra einhverju sem er dýpra og breiðara en við sjálf. Og lifir okkur þegar dagar okkar eru að baki.


Orð eru til alls fyrst

 

Já, orð eru til alls fyrst, segir máltækið. Hvort sem það er nú rétt eða ekki þá geta orðin stundum leitt okkur áfram þegar við viljum öðlast skilning á lífinu og gátum þess. Mörgu tungumál sækja sína auðmýkt í latneska orðið Humilitas. Það er af sama stofni og orðið humus – mold – rétt eins og sjálfur maðurinn. Þarna mætum við því uppruna okkar, því sem leyfir okkur að vera manneskjur í umhverfi okkar, stundum berskjölduð í einlægni og auðsæranleika. Spekin, hampar auðmýktinni og hófsemdinni sem er henni náskyld. Auðmjúk manneskja er eins og frjósöm moldin - það fer vissulega ekki mikið fyrir henni en upp úr henni vex gróskan í ótal litbrigðum. . 

 

Hér sem fyrr sýnir Jesús okkur hvað felst í sannri mennsku og sönnu lífi. Forystumenn sem ganga fram í hroka og skeytingarleysi eiga það til þegar hentar að veifa Biblíunni framan í myndavélarnar. Slíkt er þó ekki annað en eitt bragðið enn til að villa um fyrir fólki. Sannir leiðtogar eru eins og gróðurinn sem vex upp úr moldinni. Það fer ekki mikið fyrir þeim í fyrstu en svo kemur að því að þeir glæða umhverfi sitt lífi og næringu.