Fórnir og hreinsunaraðferðir

Fórnir og hreinsunaraðferðir

Hér er eitthvað ófullkomið rétt eins og líkamarnir sem Arnar hefur fest upp á veggi safnaðarheimilisins. Og um leið er það vitundin um að allar manneskjur eru breyskar – ekki fullkomnar eins og steinstyttur sem ekki breytast - nema þegar hamrarnir mölva þær – heldur síbreytilegar. Já, fegurðin býr í hinu ófullkomna – það getur breyst til batnaðar, tekið stakkaskiptum, endurheimt það sem var brotið og bjagað.

Við kennum börnunum okkar að til þess að ná árangri þurfi þau að leggja hart að sér, sinna ekki bara því sem er skemmtilegt heldur líka því sem reynir á líkama og sál. Sjálf höfum við jú fengið að heyra það oft að gæði krefjast fórna og fólkið sem stendur sig best í þessum efnum köllum við dugnaðarforka.


Fórnir

 

Þetta er jú ekki flókið. Við eyðum ekki sömu krónunni tvisvar, nýtum ekki sömu vökustundina aftur, gefum ekki sömu gjöfina í tvígang. Til að öðlast eitthvað þurfum við að kosta einhverju til. Þetta geta verið ánægjulegir kostir en við getum líka leitt hugann til átakasvæða eins og í Úrkaínu þar sem mannslífum er fórnað. Fórnir og fórnarkostnaður eru hluti af lífi okkar. Í kjaradeilum er talað um dagvinnulaun – hvað fáum við fyrir vinnudaginn sem við fórnum? Og seðlabankastjóri setur óvinsælar aðgerðir í samhengi við sólarlandaferðir – og gefur til kynna að stór hluti þjóðarinnar sé engan veginn tilbúin að færa nauðsynlegar fórnir!

 

Frásögnin af Kain og Abel er lykilsaga í samhengi Biblíunnar og já, hún fjallar um fórnir. Þessir bræður fórna því sem þeir áttu best að gefa.

 

Við getum séð fyrir athöfn þar sem karlar ganga fram fyrir altari og brenna verðmætum. Annar kemur með fyrstu uppskeru ávaxta og grænmetis og hinn dregur á eftir sér lambhrút til slátrunar. Eldur logar og reykur teygir til himins. Næring verður að ösku og tilgangurinn er sá sami og hér að framan er rakinn. Þeir vilja fá eitthvað í staðinn, eitthvað meira en þeir fórnuðu.


En þiggjandinn, sem er Guð, lýsir ánægju með aðra fórnina og lítur ekki við hinni. Engar skýringar eru gefnar. Við hljótum að geta sett okkur í spor Kains. Almættið minnir í þessu tilviki á foreldri sem mismunar afkvæmum sínum. Öðru er hampað en hitt er vanrækt. Það getur ekki leitt af sér neitt gott enda lýsir þessi upptaktur að mannkynssögu Biblíunnar, réttnefndu voðaverki.


Tómhentur dugnaðarforkur

 

Einföld sem sagan virðist vera – þá leynir hún á sér. Fyrir það fyrsta – hvað merkir það að Guð í alveldi sínu skuli ekki hafa áhuga á fórn Kains? Tengist það helgihaldi við fórnarstall eða snertir það á stærri þáttum og sammannlegum? Eru þetta skilaboð til þeirra sem hafa fórnað miklu en uppskorið ekkert? Er þetta saga af dugnaði sem engu skilar?

 

Hver eru viðbrögð okkar þegar við höfum að eigin mati lagt mikið á okkur, lesið fyrir próf og fengið slæma einkunn, hlúð að fólki sem mætti okkur með tómlæti, barist í gegnum skafla en setið eftir tómhent og í verri stöðu en við vorum í áður? Já, er eitthvað sem reitir okkur meir til reiði en þegar við fáum ekki það sem við teljum okkur eiga skilið?

 

Í sinni öfgafyllstu mynd getur tómhentur dugnaðarforkur orðið að hinni háskalegustu skepnu. Við getum í því sambandi rifjað upp framgang nasista í Þýskalandi. Fyrir sléttum hundrað árum, árið 1923 reyndu þeir að ræna völdum, í Bjórkjallarauppreisninni svo nefndu. Sá atburður markaði upphaf hörmunganna. Og hver var rót alls þessa? Var það ekki fórnin sem ekkert gaf? Öllu hafði verið til kostað í styrjöldinni sem þá var nýafstaðin og þjóðin sat uppi með tvær hendur tómar. Rétt eins og í tilviki Kains, þá beindist reiðin að þeim sem lygin hermdi að hefði grætt á öllu saman.

 

Þessi afstaða leiddi til slíkra ódæðisverka að mannkyn hefur aldrei kynnst öðru eins. Og þar kemur fórnin aftur við sögu. Þegar saklaust fólk var myrt svo milljónum skipti, túlkuðu eftirlifendur það sem fórn: Holocaust merkir „heilfórn“ eða „eldfórn“. Hvað bjó að baki þeirri túlkun? Var mögulega verið gefa þjáningum og dauða saklausra tilgang og merkingu? Var eftir allt hægt að öðlast eitthvað í staðinn – umhyggju, þekkingu, viðleitni til að láta slíkt nokkuð aldrei endurtaka sig?

 

Hver er þessi Guð sem mismunar bræðrunum svo rækilega? Guð er nefndur Jahve í Gamla testamentinu. Orðið merkir einfaldlega – „Ég er sá sem ég er“. Við getum í því sambandi sagt að Guð sé veruleikinn sjálfur. Og þarna bregst veruleikinn Kain, þessari andhetju sögunnar með þeim hætti að karlmennskan verður eins eitruð og hún gerist. Skilaboðin geta verið þau lífið er stundum óréttlátt. Öllu máli skiptir hvernig við mætum þeirri staðreynd. Kain brást við eins og svo margir aðrir áttu eftir að gera – í beiskju og heift sem beindist gegn saklausum.


Hreinsunaraðferðir

 

Hreinsunaraðferðir – sýning Arnars Ásgeirssonar á snertifleti með þessari sögu. Við sjáum karlmannsskrokka, vörpulega í viðurkenndum hlutföllum. Allt frá fornöld hefur þetta þótt vera hið fullkomna form mannslíkamans. Á eftir þegar við virðum fyrir okkur verkin ættum við að kannast við fyrirmyndirnar.

 

Eitthvað er samt bjagað við þessar styttur. Útlimir hafa verið fjarlægðir og svo vitaskuld það sem gerir karlana allt að því broslega – þeir eru orðnir að handhægum neytendaumbúðum, gerðir úr plasti og fylltir sápu. Í stað höfuðs þar sem ásjónan býr, hugsunin og hið auðkennanlega við hverja manneskju er kominn tappi. Hann kallar fram þau hughrif að notagildið sé mjög afmarkað.

 

Er þetta uppgjör listamannsins við dugnaðarforka? Nú fer fram róttækt endurmat þar sem við spyrjum hvort fyrirmyndirnar gömlu hafi í raun verið forkastanlegar þegar á allt er litið. Eins og hæfir öllum byltingum þá er styttum velt af stalli sínum. Leifur Eiríksson er nýjasta dæmið á listasafninu í Ósló. Þeir sem áður þóttu lofsverðir fyrir framtak sitt – eru nú táknmyndir mengaðrar karlmennsku.

 

Þetta er í grunninn sama framtak og siðbótarmenn stunduðu á 16. öld þegar þeir rifu líkneski og listaverk úr kirkjum Evrópu og skildu þær eftir gapandi tómar. Við kunnum því framtaki litlar þakkir og tregum þau verk sem þar var varpað á bálið. Byltingin snertir auðvitað líka á núlifandi fólki sem ýmist er sett út í kuldann. Bókmenntum sem breytt er svo þær samræmist því sem rétt getur talist. Og nú heyrist muldrað úr hornum að gengið sé of langt í hreinsunarstörfum. Kirkjusagnfræðingurinn í mér þykist sjá þarna tengsl við baráttu kirkjufeðra fortíðar við svo nefnda villutrú. Mögulega er þetta ein arfleið kristindómsins.


Eitthvað ófullkomið

 

Biblíuna getum við lesið sem mikla yfirlýsingu sem tengist þessu orði sem hér er nefnt í sífellu: fórn. Hún er til umfjöllunar hér á fyrstu síðum og allt til enda. Í þessari sögu eru önnur lykilstef sem tengjast ekki dómi heldur endurlausn.

 

„Á ég að gæta bróður míns?“ spurði hin flóttalega sögupersóna. Síðar áttu spámenn Gamla testamentisins eftir að beina spurningu Kains að foréttindakörlum í því samfélagi sem þeir störfuðu. Og bentu á þá fórn sem væri Guði þóknanleg, að hlúa að okkar minnstu bræðrum og systrum. Krossinn er að sama skapi óskiljanlegur nema í þessu samhengi. Þar lesum við um þjáninguna: líkamlega, andlega og félagslega sem er undanfari stórkostlegra atburða. Í guðspjallinu sem hér var lesið birtist sú síðastnefnda – sem er brostin vinátta. Það eru orð Jesú: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“

 

Hér er eitthvað ófullkomið rétt eins og líkamarnir sem Arnar hefur fest upp á veggi safnaðarheimilisins. Og um leið er það vitundin um að allar manneskjur eru breyskar – ekki fullkomnar eins og steinstyttur sem ekki breytast, nema þegar hamrarnir mölva þær – heldur síbreytilegar. Já, fegurðin býr í hinu ófullkomna – það getur breyst til batnaðar, tekið stakkaskiptum, endurheimt það sem var brotið og bjagað.


Endurheimt 

 

Yfirskrift sýningarinnar vísar þó ekki til umbúðanna heldur þess sem þær geyma – sápuna. Hreinsunaraðferðir eru að endingu það sem skiptir máli. Hvernig náum við því aftur sem hefur glatast og reisum það við sem er brotið? Hvað gerist þegar við stígum sjálf niður af stallinum, viðurkennum breyskleika okkar og takmörk, þörf fyrir hjálp og þá staðreynd að við erum ekki úr marmara eins og fyrirmyndir verka Arnars. Markmið okkar sem samfélags á ekki að vera að útskúfa heldur að gefa fólki kost á að snúa aftur, koma til baka.

 

Leit okkar snýr því að auðmýkt og iðrun. Sem slík erum við ekki hjákátleg eins og styttur sem liggja í brotum undir stallinum – heldur heil og sönn í auðmýkt okkar og auðsæranleika. Og þar liggur lausnin í sögunni. „Sekt mín er meiri en svo að ég fái borið hana,“ sagði Kain og þar gefur hann tóninn fyrir hvern þann sem hefur brotið gegn varnarlausum í gegnum söguna. Játningin er forsenda þess að unnt sé að hreinsa burtu það sem mengar og eitrar. Þetta skilur hin magnaða frásögn eftir sig. 

 

Og þá færist sagan frá dómi til fyrirgefningar, frá bölvun til blessunar. Einlæg játning og iðrun er sú hreinsunaraðferð sem Biblían boðar. Með henni geta brotin samfélög orðið heil og breyskir einstaklingar endurheimt stöðu sína og tilverurétt.