Ljómi dýrðar Guðs

Ljómi dýrðar Guðs

Kannski getum við lært af vitringunum að fyllast gleði yfir nærveru Guðs, yfir ljóma dýrðar Guðs og ímynd veru Guðs í barninu sem fæddist í Betlehem.

Helgistund í Grensáskirkju 3. janúar 2021

Gleðilegt ár, kæru vinir, og velkomin á helgistund í Grensáskirkju.

Í dag er sunnudagur milli nýárs og þrettánda. Í sumum löndum er dagurinn kallaður „annar sunnudagur í jólum“ en víða eru textar þrettándans lesnir í kirkjum sunnudag í fyrstu viku ársins. Við hér í Fossvogsprestakalli höfum valið að fara þá leið og heyrum því guðspjall þrettándans, Matt. 2.1-12. 

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst.Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Í þessu guðspjalli þrettándans fáum við loksins að heyra frásöguna af vitringunum sem komu að vitja Jesúbarnsins. Þeir eru með á öllum glansmyndunum, ómissandi hluti af jólasögunni en reyndar ekki jólaguðspjalli Lúkasar sem við heyrðum á aðfangakvöld. Lúkas gefur okkur hirða í haga og englafjöld sem syngur Guði dýrð. Eina sem Matteus guðspjallamaður hefur að segja um þennan mikla heimssögulega viðburð er þetta: „Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs.“ Við fáum að vita hvar frelsarinn fæddist og hvenær.

Og Matteus færir okkur vitringana. Hve margir þeir voru vitum við ekki. Hefðin segir þrír, í samræmi við konunglegu gjafirnar þrjár, gull, reykelsi og myrru. Hefðin gefur þeim líka nöfn, Melkíor, Kaspar og Baltasar. Frásaga Matteusar endurómar spádóm Jesaja (60.1-3, 6b):

Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur
og dýrð Drottins rennur upp yfir þér.
Myrkur grúfir yfir jörðinni
og sorti yfir þjóðunum
en Drottinn er runninn upp yfir þér
og dýrð hans birtist yfir þér.
Þjóðir munu stefna á ljós þitt
og konungar á ljómann sem rennur upp yfir þér.
---
og allir, sem koma frá Saba,
færa þér gull og reykelsi
og flytja Drottni lof.

En hvað hafa þessir virtu og auðugu fræðimenn úr austri að segja inn í okkar trú og hversdagslíf? Hvaða hlutverki gegna þeir í fagnaðarerindinu um „Immanúel, það þýðir: Guð með oss“ eins og segir í kaflanum á undan hjá Matteusi (Matt 1.23)?

·       Kannski að „hinn nýfæddi konungur Gyðinga“ er ekki bara konungur Gyðinga heldur heimsins alls. Himintunglin benda á hann, ljóminn hans laðar að sér fólk frá framandi löndum.

·       Kannski að þó kross hins nýfædda hafi verið „Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimska“ sáu vitringarnir „kraft Guðs og speki Guðs“ í barninu litla. Koma vitringanna vitnar um „að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari“ (1Kor 1.23-25).

·       Og kannski getum við lært af vitringunum að fyllast gleði yfir nærveru Guðs, yfir ljóma dýrðar Guðs og ímynd veru Guðs í barninu sem fæddist í Betlehem (Heb 1.3).

·       Kannski, bara kannski, geta vitringarnir, eins og hirðarnir, verið okkur vitnisburður um að við öll, sama hver við erum, há eða lág, vís eða fávís að mati heimsins, við öll sem eitt erum börn Guðs í Jesú Kristi, dýrð Guðs til vegsemdar, blessuð í Kristi með allri andlegri blessun himinsins, eins og segir í Efesusbréfinu (Ef 1.3-6, 12-14):

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem í Kristi hefur blessað oss með allri andlegri blessun himinsins. Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi hann oss í Kristi að hann hefði oss fyrir augum sér heilög og lýtalaus í kærleika. 
Fyrir fram ákvað hann að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi. 
Sá var náðarvilji hans. 
Hann vildi að vér yrðum til vegsemdar dýrð hans og náð 
sem hann hefur gefið oss í sínum elskaða syni. 
...
til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, 
skyldum vera dýrð hans til vegsemdar. 
Í honum eruð og þér eftir að hafa heyrt orð sannleikans, 
fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar 
og tekið trú á hann 
og verið merkt innsigli heilags anda sem yður var fyrirheitið. 
Hann er pantur arfleifðar vorrar 
að vér verðum endurleyst Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.