Sofið í snjónum

Sofið í snjónum

Þeir minna um margt á okkur göngugarpana forðum daga. Við sváfum í snjónum þegar við hefðum náð inn í hlýjuna ef við hefðum haldið aðeins lengur áfram. Við gengum jú ekki leiðina á enda. Með sama hætti lesa hinir meintu bókstafstrúarmenn ekki Biblíuna á enda.

Ég segi fermingarbörnum gjarnan söguna af því þegar ég var aðeins eldri en þau og við félagarnir ákváðum að fara í útilegu. 


Sofið í snjónum

 

Þetta var snemma vors, einhvern tímann í apríl og allra veðra von. Til stóð að hafa upp á einhverjum skála sem einn úr okkar hópi þóttist vita hvar var að finna og hafði lykla að. Okkur var því ekkert að vanbúnaði. Við þáðum far hluta leiðarinnar og svo örkuðum við af stað út í óbyggðir í þá átt sem skálinn góði átti að vera.

 

Snjór var á jörðu og eftir því sem leið á daginn, fór veðrið versnandi. Það gekk á með éljum, farið var að rökkva og enginn skáli kominn í leitirnar. Það var ekki laust við að uggur færi um okkur. Það dimmdi enn og hvessti, vasaljósin gerðu lítið annað en að lýsa upp kornin sem æddu á móti okkur í hríðinni og leitin að gististaðnum bar ekki árangur.

 

Hvað skyldi gera ef við fyndum nú ekki húsakynnin? Þá var ekkert annað í stöðunni en að grafa sig niður í fönnina og liggja þar í svefpokanum þar til dagur rynni upp að nýju. Við voru orðnir lúnir á göngunni og settum okkur markmið því einhvern tímann þyrftum við að hvíla okkur.

 

Það varð úr að ef skálinn kæmi ekki í leitirnar innan hálftíma þá myndum einfaldlega við sofa úti. Hálftími leið og ekki sást annað en éljahríðin í ljósgeislanum. Við prófum kortér í viðbót.

 

Það leið og enginn sást skálinn. Enn afréðum við að ganga stundarkorn en leitin bar ekki meiri árangur en fyrri skiptin. Það var því ekkert annað að gera en að reyna að gera gott úr þessu.

 

Við komum okkur fyrir í einhverri hlíð þar sem örlítið skjól var að fá fyrir veðrinu, renndum svefpoka upp yfir höfuð og gerðum heiðarlega tilraun til að festa blund þarna í kaldri nóttinni. Ekki svaf ég nú mikið en svo leið nóttin, veðrið gekk niður og morgunskíman heilsaði. Það voru stirðir ferðalangar sem bröltu úr pokunum og klæddu sig í klakabrynjaða skóna.

 

Já, við litum í kringum okkur þarna þar sem við höfðum náttað í einhverjum hólnum. Og viti menn. Þar fáeinum metrum frá ísköldum náttstaðnum reyndist hann vera, skálinn sem við höfðum leitað að alla nóttina! Já, það var gott að kveikja upp í kamínunni, en enn betra hefði það verið ef við hefðum getað gist innandyra um nóttina frekar en að kúldrast þarna í hríðinni. Bara fáein skref í viðbót og við hefðum séð útveggina í ljósgeislanum.

 

Maður vissi það ekki þá, að einhvern í framtíðinni yrði þessi kostulega gönguför inngangur að predikun. Já, hvaða lærdóm þóttumst við hafa dregið af þessu? Er þetta ekki stundum svona í lífinu? Herslumuninn góða vantar svo að allt gangi nú eftir.


Afmyndaðir göngumenn

 

Guðspjallið segir frá ferðalöngum og það fjallar um hóp sem gengur ekki leiðina á enda. Þessir einstaklingar sem urðu á vegi Jesú á ferð hans voru afmyndaðir.

 

Það sem Biblían kennir við líkþráa getur verið samheiti yfir ýmsa sjúkdóma sem eiga það sameiginlegt að útlit sjúklingsins ber þess merki. Stundum var talað um holdsveiki í þessu sambandi en auðvitað getur sitthvað annað hafa búið þar að baki.

 

Ákall þeirra til Jesú ber þess merki hversu aum staða þeirra var. „Jesús, meistari, miskunna þú oss“ hrópa þeir til hans. Hinir líkþráu báðu hann um að virða sig viðlits. Þetta hefur sjálfsagt vakið undrun meðal áheyrendanna fyrstu – að hann skyldi brjóta reglur lögmálsins og gefa sig á tal við þessa einstaklinga.

 

Lögmálið, hafði að geyma ákvæði um það hvernig koma skyldi fram við fólk sem bar sýnileg mein á líkama sínum. Í hinu gamla samfélagi voru slíkir einstaklingar útilokaðir frá mannlegu samfélagi og einkum helgihaldinu. Samkvæmt þessum reglum átti hinn sýkti að einangra sig frá öðru fólki og tryggja að aðrir gætu varað sig á honum. Í þessum ákvæðum stendur: „Hinn holdsveiki, sá sem sýktur er, skal klæðast rifnum klæðum, hár hans skal vera óhirt og hann skal hylja skegg sitt. Hann skal hrópa: „Óhreinn, óhreinn!“ Hann er óhreinn allan þann tíma sem hann hefur sjúkdóminn. Hann skal búa einangraður, bústaður hans skal vera utan herbúðanna“ (3.Mós. 3)


Lögmálið

 

Já, Jesús brýtur þessar reglur og gefur sig á tal við þá. Það eru tíðindi fyrir okkur sem fylgjum honum að málum. Nú er tekist á um það hvað það felur í sér að teljast kristinnar trúar. Á samfélagsmiðlum fara þeir mikinn sem vísa í þessa fornu texta Mósebóka og halda því fram að hlýðni við þá skilgreini það hvort fólk sé sanntrúað eða ekki.

 

Í þeim anda hafa þeir vegið að réttindum kvenna, samkynheigðra auk ýmissa jaðarhópa í samfélaginu á þeim forsendum Biblían kenni að staða þeirra eigi að vera lakari en gagnkynhneigðra karlmanna.

 

Þeir minna um margt á okkur göngugarpana forðum daga. Við sváfum í snjónum þegar við hefðum náð inn í hlýjuna ef við hefðum haldið aðeins lengur áfram. Við gengum jú ekki leiðina á enda. Með sama hætti lesa hinir meintu bókstafstrúarmenn ekki Biblíuna á enda.

 

Boðun Páls postula er eitt allsherjar uppgjör við þessa hugsun. Í bréfi hans til Kórintumanna segir: „Það er vegna Krists sem ég er svo öruggur frammi fyrir Guði. Ekki svo að skilja að ég sé sjálfur hæfur og geti eitthvað sjálfur heldur er hæfileiki minn frá Guði. Guð hefur gert mig hæfan til að vera þjónn nýs sáttmála sem ekki er ritaður á bók heldur er hann andlegur. Því að bókstafurinn deyðir en andinn lífgar.“ (2.Kor. 3).

 

Innblástur þessara orða Páls er starf Jesú. Þegar hann gefur sig að hinum líkþráu sýnir hann okkur, fylgjendum sínum, hvaða augum Guð lítur okkur mennina. Biblían geymir margar frásagnir af því hvernig Guð einmitt virðir mennina viðlits þegar raunir þeirra eru sem mestar. Í útlegðinni, í neyð, í kjölfar ofbeldisverka, hamfara, sorgar og mitt í einsemdinni – þá mætir Guð manninum þar sem hann er staddur.

 

Með þessu var einangrun mannanna rofin. Þrátt fyrir hin skýru ákvæði þá mætti Jesús þeim og gaf þeim athygli sína. Hann sagði þeim að fara og sýna sig prestunum en prestarnir skáru úr um það í anda þess sem fyrr er sagt hverjir væru með slíka sjúkdóma að þeir teldust óhreinir. Fyrir vikið var það svo brýnt að prestarnir litu þá sem svo skyndilega höfðu fengið bót meina sinna, voru eins og vinningshafar í happadrætti lífsins, harmur þeirra og mein var á enda.


Að gefa Guði dýrðina

 

Og enn tekur sagan óvæntan sveig. Níu þeirra fara að ráðum hans en þessi Samverji sneri við og sýndi Jesú þakklæti sitt. Hann „gaf Guði dýrðina“ og Jesús bendir okkur á það að andstætt allri þeirri forskrift sem samfélagið og hinar gömlu lögbækur lögðu fyrir fólkið þá var það raunar annað sem skipti sköpum, jú það var trúin, vonin og kærleikurinn – með öðrum orðum sú einlæga löngun til að lifa verðugu lífi og færa þakkir fyrir þær gjafir sem okkur eru veittar.

 

Trú Samverjans bjargaði honum og kemur í staðinn fyrir það hlutverk sem prestarnir höfðu í helgihaldinu með sektar- og syndafórnum. Og orðin sem Jesús notar skapa hugrenningatengsl við tónskáldið sem síðar var kallað fimmti Guðspjallamaðurinn, það er Jóhann Sebastian Bach. Hann ritaði þessi orð efst á nótnablöðin sín: Soli Deo Gloria – Guði einum dýrðin. Náðargjafirnar eru ekki sjálfgefnar, nei þær eru tæki til að fremja hið stóra og máttuga – gera hið jarðneska himneskt og hið himneska jarðneskt eins og sagt var um tónlist meistarans.

 

Með því að gefa Guði dýrðina er gjöfin færð í æðra samhengi þakklætið fyrir að geta verið hluti af samfélagi manna skín í gegn.


Að sofa í snjónum

 

Eftir stendur áminning til okkar um að ákvörðunin býr ætíð í brjósti okkar sjálfra. Þessi eini hvarf aftur og færði þakkir. Hann valdi hamingjuleiðina, þakklætið sjálft. Það er kenndin sem fullkomnar leið okkar í lífinu. Andstætt henni er það lögmálsþrælkunin, þar sem líf manneskjunnar og kostir eru njörvuð niður í hugsunarleysi vanans og hollustu við dauðan bókstafinn. 

 

Þess vegna þótti mér viðeigandi að deila með ykkur sögunni af hrakförum okkar ferðalanganna sem sváfum í snjónum, steinsnar frá áfangastaðnum sjálfum. Trúin, kærleikurinn og þakklætið eru þeir þættir sem gera okkur kleift að ganga leiðina á enda og njóta birtu náðarinnar.