Að seinka umbuninni

Að seinka umbuninni

Í upphafi föstutímans horfum við til páska, en um leið, horfum við inná við. Leitumst við að dýpka okkar andlega innri mann, leyfum Jesú og upprisunni að taka sér bólfestu í lífi okkar. Getur verið að það sé einhver leyndardómur fólginn í föstunni? Önnur leið til að nálgast föstuna er að líta svo á að við séum að "seinka umbuninni". Við seinkum umbuninni þar til við höfum lagt eitthvað ákveðið að mörkum. Með biðinni veitist okkur eitthvað dýpra, meira, eitthvað sem við myndum annars ekki öðlast.

Biðjum:


Gefðu að móðurmálið mitt,

minn Jesú, þess ég beiði,

frá allri villu klárt og kvitt

krossins orð þitt út breiði

um landið hér

til heiðurs þér,

helst mun það blessun valda

meðan þín náð

lætur vort láð

lýði og byggðum halda. Amen. (sálmur 795)

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

  

Upphaf föstu

 

Upphaf föstu.

 

Í samhengi kirkjunnar er jólafasta, sunnudagana fyrir jól, og páskafasta, sunnudagana fyrir páska. Á þessum sunnudegi, í dag, erum við því farin að horfa til páskanna, í dagatali kirkjunnar.

 

Fastan.

 

Að fasta, hvað þýðir það?

 

Iðkið þið einhvers konar föstu?

 

Að neita sér um eitthvað. Að neita sér um kjöt, að gömlum skilningi, alveg til páska, þegar páskalambið var síðan borið á borð. Sprengidagur var þá síðasti dagurinn sem fólk neytti kjötmáltíðar og þá var belgurinn þaninn og þaðan er nafnið komið, sprengidagur. Í kjölfarið er svo öskudagur, sem minnir okkur á að við erum mold, við erum aska. Svo tekur við föstu tíminn, tími þar sem kirkjan hvetur okkur og styður til þess að við neitum okkur um eitthvað, kannski kjötmáltíða, því svo er páskalambinu slátrað á páskum og við neytum kjötmáltíðar, á ný. Sumir halda þá hefð enn í heiðri.

 

Af hverju?

 

Að neita sér um eitthvað. Af hverju?

 

Af hverju ættum við að neita okkur um eitthvað, sem við getum með réttu fengið, þá þegar?

 

Getur verið að það sé einhver leyndardómur fólginn í föstunni? Ef við notum annað hugtak yfir föstuna, þ.e. að neita sér um eitthvað. Þá getum við nálgast þetta á þann máta að við séum að seinka því að fá umbun. Seinka umbuninni á meðan við leggjum eitthvað á okkur. Við seinkum umbuninni þar til við höfum lagt eitthvað ákveðið að mörkum. Við hrifsum ekki allt til okkar bara af því okkur sýnist svo og getum það, nei við leggjum fyrst eitthvað á okkur og njótum síðan þess að öðlast umbunina síðar.

 

Þegar maður hefur fastað þá er sem dæmi, fyrsti matarbitinn að föstu lokinni, alveg sérstaklega góður. Ég hef svolítið prófað mig áfram með þetta, prófað ýmsar leiðir, þá helst sólarhringsföstur, einu sinni í viku yfir föstutímann. Ég hef iðkað slíkt á undanförnum áratugum, fyrir jól og fyrir páska. Þá er fyrsti bitinn að sólarhringnum loknum alveg sérstakur.

 

Þetta er einnig andleg iðkun, þetta hefur áhrif á mann andlega, hreyfir við einhverjum andlegum þáttum til dýpkunar og aukins þroska, tel ég.

 

Maður skyldi samt að fara varlega í slíka hluti, þ.e. að fasta, sérstaklega þegar maður er að vaxa úr grasi, þá er mikilvægt að borða vel, borða á öllum matmálstímum, borða hollan og næringargóðan mat. Kannski er þetta iðkun sem maður getur hugað að, þegar maður er orðinn fullorðinn.

 

Fastan fyrir páska er biðtími, eins og aðventan fyrir jólin, undirbúningstími. Við frestum því að fá að njóta einhvers, sem bíður svo handan hornsins. Á jólum njótum við veislu og gjafa í kjölfar aðventunnar, þegar jólin ganga í garð, og á páskum ættum við að njóta veislu og páskaeggja í kjölfar föstunnar.  

 

Það er eitthvað gott sem bíður okkar, handan biðtímans, föstutímans. Í biðinni felst eftirvænting, með biðinni fæst eitthvað dýpra, meira, eitthvað sem við myndum annars ekki öðlast.

 

Grunnur menntunar og þroska

 

Það er eitthvað við það að fresta umbun. Það er eitthvað við það að leggja eitthvað á sig og bíða umbunarinnar.

 

Það má segja að skólakerfið byggist á þessu. Við lærum og leggjum okkur fram, gerum verkefni, förum í próf og síðan fáum við umbun, þegar við fáum svo tækifæri til að sýna fram á kunnáttu okkar, fáum einkunn. Eins er það með okkar daglegu störf, umbun og laun fáum við síðar, fyrir okkar daglegu vinnu, oftast um næstu mánaðarmót.

 

Að fresta umbun er tengt fórn. Við jafnvel fórnum umbuninni, sem við hugsanlega gætum fengið í dag, fyrir meiri umbun eða annarskonar verðmæti sem við hugsanlega öðlumst í framtíðinni. Og samhliða því öðlumst við einhverja reynslu, andlega dýpt, sem ekki er annarsstaðar að finna.

 

Fórn

 

Fórn er hugtak sem er þessu tengt.

 

Fórn.

 

Að fórna einhverju.

 

Það er okkur svo eðlislægt að halda í allt sem við höfum og eigum og einmitt safna jafnvel og eignast meira. Það er svolítið takturinn í hinu eðlilega mannlífi, er það ekki?

 

Það að fórna einhverju, getur í því samhengi verið okkur framandi.

 

Af hverju að fórna einhverju?

 

Guð reyndi Abraham, þar sem Abraham hugðist fórna Ísak, syni sínum. En það var ekki vilji Guðs. Abraham sýndi þar fram á trúfesti og Guð sýndi þar fram á kærleika, þar sem það er ekki þessi Guð sem krefur manninn um slíkar fórnir.

 

Páll postuli fórnaði lífi sínu í þjónustu við Guð. Einnig margir af lærisveinum Jesú og píslavottum frumkirkjunnar, og einnig margir trúaðir í gegnum aldirnar. Þeir hafa að þessum skilningi fórnað lífi sínu í þjónustu við aðra. Fórn í því samhengi þýðir að fólk velur að leggja krafta sína fram í þjónustu við aðra, í þjónustu við lífið og Guð, án þess endilega að ætla að fá sérstaka umbun fyrir. Umbunin er í þeim skilningi þjónustan sjálf.

 

Páskarnir boða okkur síðan að Jesús fórnaði lífi sínu til að allir sem á hann trúa öðlist eilíft líf. Fórnin þar tengist lífi, lífi í fullri gnægð, fyrir alla.

 

Textar dagsins

 

Textarnir sem lesnir voru hér í dag geyma djúpa visku. Þar er að finna hinn þekkta texta um Adam og Evu og aldingarðinn, höggorminn og skilningstré góðs og ills. Meitluð viskusaga úr Gamla testamentinu um stöðu mannsins í heiminum. Stöðu mannsins gagnvart Guði. Myndræn saga sem allir geta skilið á sínum forsendum. Börnin sjá fyrir sér garð, fólk, tré og höggorm. Við getum ávallt skilið eitthvað nýtt, allt í takt við aldur okkar, þroska, menntun og reynslu. Þessar sögur eru svo djúpar að visku að þær geta snert við okkur, hvar sem við erum stödd á okkar lífsins vegi.

 

Svo eru textarnir tveir úr Nýja testamentinu.

 

Freistingarfrásagan þegar Jesú er freistað í eyðimörkinni.

 

Hvenær freistar djöfullinn Jesú, í þeirri frásögu?

 

Jú, þegar hann er orðinn þreyttur, svangur, kannski illa upplagður.

Hvernig gerist slíkt hjá okkur í dag? Hvenær erum við mest berskjölduð og eigum mest á hættu að svíkja okkur sjálf? Jú, þegar við erum þreytt, svöng, illa upplögð, þá getur verið meiri hætta á ferðum.

 

Jesú er boðin öll heimsins gæði, öll heimsins völd, þarna er honum boðið að þiggja og fá, allt strax.

 

En nei, Jesús stenst freistinguna. Hann veit að hann á ekki að þiggja og fá, þarna, hann þarf að ganga lífsins veg, það er hans verkefni. Tíminn var ekki kominn, þarna var tími undirbúnings, biðtími.  

 

Lífsins vegur liggur í gegnum erfiðleika, þrautir, dimman dal og dauða. Jesús gekk þann veg, jú, til að sigrast á öllu því sem erfitt er, sigra alla dimma dali og einnig sigra dauðann.

 

Ef hann hefði þegið umbunina strax þarna, þá hefði sá sigur ekki unnist.

 

Þannig er lífið. Þannig var það með Jesú, þannig er það almennt með heiminn og okkur manneskjurnar.

 

Við erum aska, eins og öskudagurinn, nýliðni, minnir okkur á. Við erum mold, eins og kemur fram í Gamla testamentinu. Við hverfum aftur til moldar, hér að lífi loknu. En vegna Jesú þá er ekki þar með öll sagan sögð. Því með trúnni á Jesú eignast maðurinn eilíft líf. Með Jesú í för, erum við samferða hinu eilífa góða, hér í heimi. Eins og segir í Fyrsta Jóhannesarbréfi: „Til þess birtist Guðs sonur að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“

 

Þar er verið að vísa til baráttu Jesú við hið illa, eins og vitnað er um í guðspjalli dagsins, en þar er einnig verið að vísa til baráttu okkar í dag, þar sem við getum fyrir trú á Jesú, valið að eiga samfylgd við hið góða hér í heimi.

 

Í upphafi föstutímans horfum við til páska, en um leið, horfum við inná við. Leitumst við að dýpka okkar andlega innri mann, leyfum Jesú og upprisunni að taka sér bólfestu í lífi okkar.

 

Föstutíminn getur veitt okkur tækifæri til að breyta örlítið taktinum í lífsformi okkar. Við neitum okkur um eitthvað, sem gerir það að verkum að við horfum með öðrum augum á lífið, við metum gjafir lífsins meir, en ella, við dýpkum tengingu okkar við okkur sjálf, náunga okkar og Guð.

 

Föstutíminn getur einnig veitt okkur tækifæri til að sjá skýrt, sjá það sem er dýrmætt í kringum okkur, ekki ana bara áfram í hugsunarleysi, heldur staldra við, stilla fókusinn upp á nýtt, stilla lífsklukkuna upp á nýtt. Staldra við og meta fæðu og klæði, ekki bara rífa í sig fæðuna, án þess að vita hvort við erum að borða epli eða appelsínu, staldra við til að njóta, þakka, biðja og gleðjast. Iðka þakklæti á þann máta að við metum Guðs góðu gjafir og þiggjum þær af heilum hug og hjarta.

 

Á þennan máta geta tímabil kirkjunnar, tímabil kirkjuársins, laðað fram í okkur eitthvað nýtt, djúpt og mikilvægt. Tími föstunnar er kannski vanmetinn tími, megi föstutíminn veita þér nýja dýpt og nýja sýn, einhver þau tæki sem nýtast þér til góðs í þínu daglega lífi.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen. 


Textar: 1Mós 3:1-24, 2Kor 6.1-10, Matt 4.1-11


Bústaðakirkja, 1. sd. í föstu

9. mars 2025