Innlifunaríhugun 2: Friður sé með þér!

Innlifunaríhugun 2: Friður sé með þér!

Orðin hans hljóma svo mögnuð, eins og bergmál úr innsta kjarna alls sem er, vera hans öll er svo þrungin krafti og kærleika. Friður sé með þér, friður og fyrirgefning fylgi þér, segir hann við okkur, fyrirgefning Guðs fái farveg í gegn um þitt líf, stöðvaðu ekki flæði fyrirgefningarinnar, veittu árstraumum friðar Guðs áfram.
Mynd

Kyrrðarstund 22.4.20 í streymi frá Grensáskirkju: Innlifunaríhugun

Kæru vinir, við erum hér á kyrrðarstund í Grensáskirkju og ætlum í dag að æfa okkur í innlifunaríhugun að hætti Ignatíusar Loyola.

Við komum okkur fyrir þannig að sem fæst verði til að trufla okkur, þöggum niður í símum, sitjum með báða fætur í gólfi, axlir slakar, höfuð reist, hendur í skauti. Við búum okkur undir að ganga inn í guðspjallið sem tilheyrir nýliðnum sunnudegi, úr Jóhannesarguðspjalli þar sem Jesús kemur að kvöldi upprisudagsins til vina sinna sem eru hrædd og hafa lokað sig inni (Jóh 20.19-31). Við ætlum að ganga inn í lærisveinahópinn, dvelja þar, vera þar og finna, reyna og sjá það sem fram fer. Við biðjum Guð um að leiða innlifun okkar þannig að við mættum vera þar sem Jesús er í frásögn dagsins, við biðjum Guð að fylla okkur eftirvæntingu, opna innri augu okkar og eyru, biðjum Guð að virkja andlegu skilningarvitin okkar þannig að við mættum meðtaka atburðina eins og við værum þar sjálf.

Og nú byrjum við í Jesú nafni, lokum augum og ljúkum upp innri sýn.           

Við erum stödd í herbergi á bak við luktar dyr. Það er kvöld og við skynjum myrkrið fyrir utan og fyrir innan. Myrkrið er mjúkt og hlýtt og kvöldið ómar af skordýrum næturinnar. Olíulampar varpa flöktandi birtu á hóp fólks sem er þarna með okkur. Það er óróleiki í loftinu, ótti jafnvel, hræðsla við einhverja ytri ógn, hræðsla við það sem er fyrir utan og gæti gert okkur mein. Það er vissara að hafa dyrnar læstar. Við tengjum við þennan ótta, við sem þorum varla að draga andann djúpt þegar við erum úti á meðal fólks af ótta við að smitast af veirunni.

Þau sem eru inni í þessu aflæsta herbergi eru reyndar ekki hrædd við neina veiru heldur grimmd mannanna sem tóku besta vin þeirra og andlegan leiðtoga af lífi. Það sama gæti komið fyrir þau og jafnvel fyrir önnur þau sem játast undir nafn hans öld eftir öld. Við hlustum á fólkið sem talar saman í hálfum hljóðum og áttum okkur á að upprisudagurinn er að kvöldi kominn og enn eru efasemdarraddir uppi um að Jesús hafi raunverulega risið upp frá dauðum. Getur verið að konurnar hafi rétt fyrir sér, að hann hafi ekki verið í gröfinni og að þær hafi jafnvel séð hann og talað við hann, augliti til auglitis?

En nú þagnar muldur fólksins skyndilega, þarna kemur Jesús, þarna er hann, mitt á meðal okkar, já við sjáum hann með eigin innri augum! Og svo segir hann við þau og okkur: Shalom aleichem, friður sé með ykkur! Friður. Orðin hans hljóma sem tær lind hjali og blíður vindblær hvísli, friður segir hann við þig og við mig. Og svo sýnir hann okkur sárin sín, sárin þar sem naglarnir gengu í gegn um hendur hans og þar sem sverðinu var stungið í síðu hans. Okkur langar ekkert að sjá þetta en það er mikilvægt svo að við skiljum að þetta gerðist raunverulega, að Jesús dó í alvörunni og er nú hér upprisinn í sínum meidda mannlega líkama. Við finnum gleðina streyma hikandi fram þegar við byrjum að skilja þetta, að Jesús er hér til að mæta okkur, meiddur eins og við, máttugur eins og Guð. Og nú gleðjumst við með hinu fólkinu, gleðjumst yfir því að fá að sjá Jesú. Og nú segir hann það aftur, friður, friður sé með ykkur: „Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“

Hér er Jesús, holdi klæddur, í friði Guðs og fátækt manns, og hann vill senda okkur, mig og þig, út í þessum friði. Og svo andar hann á okkur, andar lífsanda Guðs á okkur og hann streymir inn í okkur og Jesús býður okkur að meðtaka heilagan anda. Orðin hans hljóma svo mögnuð, eins og bergmál úr innsta kjarna alls sem er, vera hans öll er svo þrungin krafti og kærleika að við erum við það að líða út af. Friður sé með þér, friður og fyrirgefning fylgi þér, segir hann við okkur, fyrirgefning Guðs fái farveg í gegn um þitt líf, stöðvaðu ekki flæði fyrirgefningarinnar, veittu árstraumum friðar Guðs áfram yfir þau sem þarfnast þess að þiggja eða veita fyrirgefningu.

Og svo er hann farinn, jafn skyndilega og hann kom. Eftir situr í loftinu ilmur kærleikans, blíður vindblær orða hans og nærveru. Við horfum hvert á annað, djúpt snortin og gripin ólýsanlegri gleði sem svellur fram eins og iðandi friður og fögnður. Og við óskum þess eins að allir Tómasar veraldarinnar mættu verða viðstaddir viku síðar þegar Jesús kemur aftur og á sérstakt erindi við hann sem ekki var með okkur í kvöld, hann Tómas sem segist ekki trúa fyrr en hann taki á því, ekki fyrr en hann fengi að setja fingur í naglaförin og hönd sína í síðusárið. Fyrr mun ég alls ekki trúa, segir Tómas.

En við vitum að það er einmitt það sem gerist, að Jesús kemur enn á ný, jafnvel í gegn um læstar dyr hjartans sem ekki vill trúa nema augun sjái og fingur snerti. Og þarna er hann aftur, Jesús, kominn í hópinn miðjan og segir enn á ný: Friður sé með ykkur! og komdu svo hérna, Tómas, komdu og sjáðu og settu hönd í síðu mína fyrst það er það sem þú þarft, sjáðu og snertu og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður, Tómas. Og við fáum að sjá hvernig Tómas gengur nær, svipur hans allt í senn, óttasleginn, efablandinn og vonglaður; hann gengur nær og við heyrum hann segja: „Drottinn minn og Guð minn!“ Og við tökum undir í hjarta okkar, Drottinn minn og Guð minn, Guð minn sem ég trúi á. Meira sjáum við ekki né heyrum því nú snúum við til baka og leggjum allt í Herrans hönd, allt sem okkar er, allt sem Guðs er, allt, já allt. Og við biðjum þess að við mættum vera sá farvegur friðar og fyrirgefningar sem Jesús sjálfur hefur falið okkur og gefur okkur kraftinn til að vera.


Jóh 20.19-31

Um kvöldið þennan fyrsta dag vikunnar voru lærisveinarnir saman og höfðu læst dyrum af ótta við Gyðinga. Þá kom Jesús, stóð mitt á meðal þeirra og sagði við þá: „Friður sé með yður!“ Þegar hann hafði þetta mælt sýndi hann þeim hendur sínar og síðu. Lærisveinarnir urðu glaðir er þeir sáu Drottin. Þá sagði Jesús aftur við þá: „Friður sé með yður. Eins og faðirinn hefur sent mig, eins sendi ég yður.“ Og er hann hafði sagt þetta andaði hann á þá og sagði: „Meðtakið heilagan anda. Ef þér fyrirgefið einhverjum syndirnar fyrirgefur Guð þær. Ef þér synjið einhverjum fyrirgefningar synjar Guð þeim.“
En einn af þeim tólf, Tómas, nefndur tvíburi, var ekki með þeim þegar Jesús kom. Hinir lærisveinarnir sögðu honum: „Við höfum séð Drottin.“
En hann svaraði: „Sjái ég ekki naglaförin í höndum hans og geti sett fingur minn í naglaförin og lagt hönd mína í síðu hans, mun ég alls ekki trúa.“
Að viku liðinni voru lærisveinar hans aftur saman inni og Tómas með þeim. Dyrnar voru læstar. Þá kemur Jesús, stendur mitt á meðal þeirra og segir: „Friður sé með yður!“ Síðan segir hann við Tómas: „Kom hingað með fingur þinn og sjá hendur mínar og kom með hönd þína og legg í síðu mína og vertu ekki vantrúaður, vertu trúaður.“
Tómas svaraði: „Drottinn minn og Guð minn!“
Jesús segir við hann: „Þú trúir af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir sem hafa ekki séð og trúa þó.“
Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.