Ekki vera Golíat

Ekki vera Golíat

Sú kirkja sem átti eftir að kenna sig við nafn Jesú átti síðar eftir að öðlast yfirburðarstöðu í heiminum og hefur hana í einhverjum skilningi ennþá. Nýlenduveldin skreyttu sig með krossi Krists þegar þau lögðu að velli heilu þjóðirnar. Á tímum kalda stríðsins var kristin trú eitt af einkennum vesturlandanna andstætt kommúnismanum sem boðaði trúleysi. Og þegar múrar hrundu þá þótti mörgum ljóst að yfirburðir hins fyrrnefnda hefðu þar komið í ljós. Hún hefur löngum verið eins og tröll á velli og hefur undirstrikað það með glæsibyggingum og flóku kerfi embætta.

Sagan um Davíð og Golíat er ein af þekktustu rimmum sem færðar hafa verið á prent.

 

Margar ásjónur Davíðs

 

Þarna höfðu herirnir komið sér fyrir hvor á móti öðrum með Elah-dalinn mitt á milli sín. Þeir voru í pattstöðu en þurftu að útkljá mál sín með einhverjum hætti og því varð úr þetta fræga einvígi.

 

Við vísum gjarnan í átök þessi þegar undirsátar hafa betur gegn ofureflinu. Má í því sambandi nefna orðasnerrur Haraldar Þorleifssonar við hinn vellauðuga og volduga Elon Musk? Eða það hvernig Zelenski hefur leitt baráttuna gegn Pútín og hans fylginautum? Nú svo vikið sé að friðsælli tilbrigðum við átök þá vekur það alltaf athygli þegar einhver leggur af velli miklu öflugri andstæðing í íþróttum. Sigur Íslands á Englandi fyrir sjö árum er í því sambandi sígildur.

 

Saga þessi og söguhetjurnar geyma frásagnarminni og fléttast í gegnum atburði og aðrar sögur allt okkar daga. Konungar í kristnum ríkjum litu til Davíðs sem fyrirmyndar. Fluttir hafa verið lærðir fyrirlestrar um líkindi til dæmis Egilssögu og þessara heimilda. Þar kemur vitaskuld til stríðshetjan sem bjó að skáldlegri andagift. Já, Davíðssálmarnir eru kenndir við þennan rauðbirkna hirði sem þarna er kynntur til sögunnar. Þeir höfðu sterka stöðu í menningu okkar.

 

Nægir að nefna að Þjóðsöngur okkar byggir á þeim 90. úr því safni. Og Sæmundur Fróði hafði Saltarann eins og Davíðssálmarnir voru kallaðir með í för er hann sigldi á baki kölska frá Svartaskóla. Svo þegar komið var að Íslands ströndum, þá lamdi hann þann vonda með bókinni og steyptist hann þá í hafið. Endurspeglast í þessari þjóðsögu krafturinn sem býr í hinum trúarlega kveðskap. Og þar er auðvitað þetta sama minni – sigur lítilmagnans á ofureflinu.

 

Forystufólk með ágalla

 

Segja má að hugmyndin um mátt orðsins endurspeglist í þessari rimmu sem hér er til umfjöllunar. Aflsmunurinn á andstæðingunum átti að ekki að leiða í ljós einhverja dulda eiginleika þess sem sigraði. Þetta voru í raun átök á milli tvenns konar trúarkerfa og guða. Og það var ekki lítið í húfi. Þjóðir sem töpuðu í slíkum átökum voru leiknar grátt – ægileg fjöldamorð fylgdu og ánauð þeirra sem eftir lifðu.

 

Sagan er í samræmi við það sem við getum kallað biblíulega forystusýn. Leiðtogar verða jú til þegar aðstæður virðast vera ómögulegar. Við slíkar aðstæður stígur einhver fram sem nær að leiða hópinn inn í betra ástand. Og leiðtogar í Biblíunni koma flestir úr óvæntum áttum.

 

Einstaklingar sem veljast til forystu í því samhengi hafa veikleika sem ættu að öðrum kosti getað gert þeim ókleift að rækja slíkt hlutverk. Móse var málhaltur, Rut var bæði kona og útlendingur, spámennirnir voru margir hverjir á jaðri samfélagsins og í Nýja testamentinu þá voru postularnir flestir úr lægstu stéttum. Páll var með andlitslýti og loks má benda á að menn spurðu um Jesú: „Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?“ Samúel sem rit þetta er kennt við orðar þetta svo: „Guð lítur ekki á það sem maðurinn lítur á. Maðurinn sér hið ytra en Guð sér hjartað.“

 

Leiðtogi sem bregst

 

Já, þetta er einnig saga forystumanns sem rís ekki undir hlutverki sínu. Sál þessi var fyrsti konungur þjóðarinnar og ólíkt þeim sem fyrr voru nefndir var Sál einmitt valinn vegna meðfæddra yfirburða. Hann var frumburður í sinni fjölskyldu, mikill á velli, bar höfuð og herðar yfir aðra karlmenn og minnir þá ef til vill á Golíat í því sambandi. Og auðvitað hefði það verið hlutverk konungsins að verja menn sína fyrir tröllinu sem ögraði þeim við upphaf hvers dags.

 

Áður en kemur að þeim texta sem hér var lesinn segir frá því þegar Sál færa Davíð vopn sín og brynju. Það reynist of þungt fyrir ungan piltinn – en skilaboðin eru þau að þarna hefur konungurinn brugðist. Þessi brynvörn var sniðin á hann sjálfan sem átti að axla þá ábyrgð sem honum er falin á hendur.

 

Ekki vera Golíat

 

Já, Davíð og Golíat – þarna verða veikleikar að styrkleikum og öfugt. Ungur og óbrynjaður hjarðsveinn með slöngubyssu leggur ramman vígamann að velli, steinninn tekinn upp af jörðinni er hættulegri en vopn og verjur – þetta er sagan sem snertir taugar í brjóstum okkar.

 

Já, hvað segir þessi frásögn okkur í dag? Hvernig kallast hún á við guðspjallið sem hér var lesið? Hér fáum við nasasjón af samskiptum sem eru um margt einkennandi fyrir það hvernig trúarhópar hafa komið fram hverjir við aðra. Tekist er á um sannleikann: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért samverji og hafir illan anda?“ segja fræðimenn við Jesú. En hann lítur ekki til þess sem hann sjálfur veit og skilur heldur hvert hlutverk hans er. „Ég leita ekki míns heiðurs“ segir Jesús. Í átökum sínum og orðasnerrum var Jesús í hlutverki hjarðsveinsins í sögunni frægu. Hann gekk ekki fram með yfirburðum og styrk heldur í auðmýkt og af lítillæti en um leið staðfastur í sinni boðun.

 

Sú kirkja sem átti eftir að kenna sig við nafn Jesú átti síðar eftir að öðlast yfirburðarstöðu í heiminum og hefur hana í einhverjum skilningi ennþá. Nýlenduveldin skreyttu sig með krossi Krists þegar þau lögðu að velli heilu þjóðirnar. Á tímum kalda stríðsins var kristin trú eitt af einkennum vesturlandanna andstætt kommúnismanum sem boðaði trúleysi. Og þegar múrar hrundu þá þótti mörgum ljóst að yfirburðir hins fyrrnefnda hefðu þar komið í ljós. Hún hefur löngum verið eins og tröll á velli og hefur undirstrikað það með glæsibyggingum og flóku kerfi embætta.

 

En nú horfir kristin kirkja upp á gerólíka tíma. Við getum jafnvel sagt að kirkjan hafi á einhvern hátt verið fórnarlamb eigin velgengni – því það er ekki hennar hlutverk og eðli að hampa yfirburðum. Sú hugsun á ekki að ráða för að annars konar lífsskilningur sé rangur og „við“ hömpum hinum eina sanna. Slík hugsun er skaðleg. Hún er í andstöðu við boðskap Krists sem sá einatt fegurðina og verðmætin í þeim sem aðhylltust aðrar hugmyndir en voru ríkjandi á því svæði.

 

Eiginlega getum við sagt að þessi strangi tónn í orðum Jesú í guðspjallinu sé nokkuð sem við ættum að gæta okkar á – en að því sögðu þá beinist hann einmitt að þeim sem útiloka aðrar hugmyndir og vilja dauðhreinsa hugsun fólks og trúarlíf.

 

Þessi staða þar sem herirnir stóðu hvor andspænis öðrum með Elah-dalinn á milli sín – er áhugaverð. Hvorugur hópurinn gat ráðist til atlögu gegn hinum. Kannast einhver við slíkar aðstæður? Þekkjum við slíka störukeppni þar sem andstæðingar bíða þess að annar gefist upp og hverfi á braut?

 

Boðskapur Jesú er einmitt sá að við ættum ekki að mæta systkinum okkar sem féndum heldur nálgast þau í kærleika og af bróðerni. Hlutverk okkar í slíkri stöðu er ekki að klæðast þungum brynjum og taka okkur spjót í hönd. Nei, við göngum fram eins og hjarðsveinninn sem hafnaði öllu slíku. En ekki til að leggja einhvern að velli heldur til að boða frið.

 

Hugmyndir okkar um hin æðstu gildi snúa nefnilega að því að við umfaðma hvert annað, fögnum því sem er frábrugðið í fari fólks og kveðjum þá hugsun að eitthvert okkar hafi náð að höndla Sannleikann með stóru essi og ákveðnum greini.

 

Ef við gerum það ekki verðum við afgreidd á spjöldum sögunnar eins og tröllið Golíat sem reyndist ekki búa yfir neinum mætti þrátt fyrir það hversu stór og ógnvekjandi hann virtist vera. Þessi mergjaða saga sem við vísum svo oft til geymir nefnilega fleiri hliðar og víddir en okkur kann í fyrstu að gruna.

 

Kristin trú horfir á gildi alls fólks og þar sem ólíkar trúarhugmyndir eigast við ættum við að líta svo á að þar leynist leið til aukinnar þekkingar og skilnings. Slíkt kann að vera áskorun ekki síst í samhengi hinnar fyrrum stóru og voldugu kirkju. Mögulega krefst slíkt hugarfar innri átaka þar sem fólk skorar á hólm fordóma og lífvana trúarhugmyndir. Við ættum ekki að óttast þá rimmu því hún er hluti af leið okkar sem einstaklinga og samfélags til betri vega.