Nú í vikunni fengum við í Neskirkju í heimsókn forseta Lútherska heimsambansins, nígeríska biskupinn Panti Filibus Musa.
Nígería
Tilefni þess að Musa var á Íslandi, er þátttaka biskupsins í ráðstefnunni Arctic Circle í Hörpunni sem þá var nýafstaðin þar sem fjallað var um umhverfismál, einkum hnattræna hlýnun. Það voru Guðfræðistofnun og Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands sem stóðu fyrir þessari málstofu.
Sjaldan hef ég hrifist jafn mikið af ræðumanni eins og þessum.Nígería, heimaland Musa er stórt land og fjölmennt. Hann lýsti fyrir okkur aðstæðum þar en landið skiptist nokkurn veginn jafnt á milli kristins fólks og múslíma. Kristnir eru fjölmennari í suðurhluta landsins en múslímar í norðurhlutanum. Hann greindi frá því að grunnt væri á því góða á milli hópanna. Við fáum af og til fréttir af öfgahópum sem beita saklausa ofbeldi, ræna ungmennum, brenna kirkjur og skóla.
Og það sem gerir stöðu hans sérstaka er að sjálfur er hann alinn upp af múslímskri fjölskyldu og ættarnafnið Musa, er orðið sem Kóraninn notar yfir sjálfan Móse, þann sem fyrstu fimm bækur Biblíunnar eru kenndar við. Þess vegna skynjar hann á eigin skinni mátt fordóma og útilokunar. Hann finnur fyrir tortryggni í eigin garð hjá mörgum trúsystkinum sínum sem telja hann vera hluta af hinu liðinu.
En innlegg hann snerti á fleiri þáttum úr samfélagi okkar og samtíma. Hann segir svo frá: „Ég er orðinn 63ja ára gamall og þegar ég lít til baka þá fer ekki á milli mála hversu margt hefur breyst í heimalandi mínu. Þar sem áður voru tjarnir, lækir og jafnvel ár – er núna þurr jörð. Og önnur svæði þar sem voru engi og skógar eru nú á kafi undir vatni.“ Þetta sagði hann í tengslum við umræðu um loftslagsmál. Já, hvers vegna er kirkjan að ræða málefni sem varða umhverfið?
Þessi gestur kom til okkar langt að. Hann er dæmi um ferðalang sem dregur ekki aðeins sjálfur lærdóm af því sem hann upplifir og skynjar á framandi slóðum. Hann miðlar einnig af þekkingu sinni og reynslu þangað sem hann kemur. Á þinginu í Hörpu flutti hann áhrifaríkt erindi og næsta dag þegar hann predikaði í Hallgrímskirkju mættu margir fulltrúar ráðstefnunnar til að hlýða á orð hans.
Heimurinn og fólkið
Það er einhver ferðahugur í okkur þessa dagana, hér í Neskirkju. Í kvöld kl 18 á Skammdegisbirtu, mæta hingað tveir ferðalangar. Annar þeirra, Þórir Guðmundsson, hefur um áratugaskeið ferðast um heiminn og hann hefur í samtölum sínum við viðmælendur sína, ritað hjá sér minnispunkta og tekið nótur. Og nú er komin út bók með þessum sögum þar sem hann gefur lesendum innsýn í líf fólks við aðstæður sem eru ólíkar okkur. Í Návígi við fólkið á jörðinni – heitir bókin hans.
Þetta eru örlagasögur og átakasögur. Það þykir ekki fréttnæmt þegar allt er með felldu og því er fréttamaðurinn á staðnum þegar aðstæður eru erfiðar, styrjaldir, náttúruhamfarir, flóttamannastraumur eða aðrar hörmungar. Það á einnig við um störf Þóris sem starfsmann Rauða Krossins. Sumir viðmælenda hans áttu ekki langra lífdaga auðið. Voru ráðnir af dögum eða féllu í átökum skömmu eftir samtal þeirra.
Einnig kemur til okkar Stefán Jón Hafstein. Stefán Jón rekur í bók sinni Heimurinn eins og hann er, sögu þessa mesta framfaraskeiðs í sögu mannkyns, frá því í stríðslok og fram til okkar daga. Hann speglar sjálfan sig í þeirri atburðarrás og dregur fram staðreyndir um það hvernig ástand heimsins hefur breyst og þróast á þeim tíma. Óhætt er að segja að hann dragi upp dökka mynd af ástandinu á plánetunni okkar þar sem framfarir okkar hafa útheimt miklar fórnir, já svo miklar eru þær að við stöndum á krossgötum hvernig plánetunni og þar með mannkyni muni farnast á komandi tímum.
Jesús á ferð
Og svo hlýddum við hér á eina af mörgum lækningasögum í guðspjöllunum. Enn og aftur erum við á ferðinni. Frásögnin hefst á því að Jesús stígur um borð í bát og þar bætist hann í hóp ferðalanga. Hann var einmitt á tíðum á ferð eins og við segjum, hlustaði og nam, ræddi við fólk og skynjaði eins og sannir förumenn gera. En hann skildi líka eftir sig spor hvar sem hann sté niður fæti. Það var ekki aðeins sú predikun sem hann flutti og við sækjum í enn í dag okkur til endurnæringar. Hann mætti fólki sem var statt í erfiðleikum og þurfti að glíma við vanda sem enginn mannlegur máttur hafði getað unnið bug á.
En þessar sögur af Jesú eru ekki settar fram sem einhver viðbót við boðunina. Þær eru nátengdar því erindi sem hann á við hverja manneskju. Textar dagsins fjalla jú allir um einhvers konar afturhvarf: „Snúið við hverfið aftur frá afbrotum yðar. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda.“ Svo segir spámaðurinn Esekíel. Og postulinn segir: „hærra illri breytni og afklæðast hinum gamla manni.“
Maðurinn sem Jesús mætti þarna á ferðum sínum hafði ekki mátt til þess að gera það sem hugur hans kallaði á. Vöðvarnir létu ekki að stjórn. Þegar Jesús læknaði manninn þá vísaði guðspjallið í það hvernig trúin getur með sama hætti byggt okkur upp og hjálpað okkur til þess að snúa frá villum vega okkar.
Í þessu samhengi vísar lömunin til þess að megna ekki að gera það sem manneskjan veit og vill. Og lækningin er kraftur sem breytir því ástandi. Þetta sjáum við meðal annars í því að Jesús talar fyrst um trú þeirra sem hann á þarna samskipti við. Trúin er í raun lykilatriði í þessu sambandi.
Frelsandi trú
Þegar við hugleiðum frásagnir ferðalanga eins og þeirra sem nefndir voru hér í upphafi, biskupsins Musa, Stefáns Jóns og svo Þóris þá birtist okkur ákveðna mynd af heiminum. Musa lýsir sundrungu sem trúarleg átök skapa í landi hans. Múslímar brenna kirkjur og ofsækja kristið fólk á landsvæði sínu og sjálfur segist hann finna fyrir kala meðal sumra kristinna í sinn garð, sem þekkja hann ekki og telja hann vera múslíma. Það minnir okkur á það að trúin sem Jesús boðar okkur er ekki tilefni flokkadrátta og togstreitu – heldur frelsandi afstaða um að yfir okkur vaki náð Guðs.
Þórir ræðir við einstaklinga sem eiga um sárt að binda vegna hörmunga, oft sem eiga rætur að rekja til valdaátaka. Sú mynd sem Stefán Jón dregur upp er nöturleg lýsing á framferði mannkyns sem virðist vera fast í fjötrum græðgi og sérhyggju, skeytir ekki um náttúruna eða hag komandi kynslóða.
Vitur en vanmáttug
Er þetta ekki mynd af vanmætti, með sama hætti og textar dagsins lýsa? Þau trúarbrögð sem mestu hafa ráðið hér á plánetunni jörð snúast um auðhyggju og enn meiri ágang. „Það er vissulega ánægjulegt að sjá það“ sagði hinn nígerski biskup, „að þið hér á Íslandi eruð farin að geta ræktað korntegundir sem ekki var hægt að rækta áður. En áttið ykkur á því því að á sama tíma eru landsvæði að hverfa undir eyðimerkur sunnar á hnettinum.“
Þetta er sá veruleiki sem við stöndum frammi fyrir. Upplýsingarnar skortir ekki. Þekkingin er ærin. En það er eins og líkami okkar og hugur ráði ekki við þær breytingar sem eru nauðsynlegar. Til þess þarf eitthvað meira. Já, þurfum við ekki sanna trú, einlæga von og ríkulegan skammt af kærleika?
Og þá er mikil ánægja að bæta fjórða förumanni við þessa upptalningu. Hér að lokinni guðsþjónustu fylgjum við Rúnari inn á Torgið hér í Neskirkju og virðum fyrir okkur sýningu hans – Heimaslóð. Þarna flytur ferðalangurinn okkur annars konar óð.
Sýningin er sett er upp í tilefni 60 ára afmælis listamannsins. Á þeim tímamótum lítur hann yfir farinn æviveg í orðsins fyllstu merkingu. Hann dregur upp vegakerfi gatna og stíga sem voru vettvangur gönguferða í nágrenni heimkynna hans. Þetta var heimaslóðin. En Rúnar miðlar okkur hugsunum um hið forgengilega, hvernig líf okkar liðast eftir vegum og stígum þar sem við hverja beygju blasir við nýtt umhverfi og að baki er hið liðna. Sýning þessi er innlegg í hefð sem tekst á við þennan veruleika. Kortin eru máluð hér á veggina og svo kemur að því að málað verður yfir þau og önnur verk hengd upp.
Hnitin eru vandlega skráð og það er eins og nákvæmni skrásetningarinnar verði máttlaust viðnám við forgengileikanum. Við lítum leiðirnar frá sjónarhorni alviturs sögumanns sem dregur þær upp af nákvæmni og rifjar um leið upp liðna tíma, sér samhengi sem blasti ekki við á sjálfri göngunni.
Þannig er líka lífið. Við fæðumst, lifum og skynjum. Að endingu hverfum við og einhverju síðar erum við mögulega öllum gleymd. Sjálf erum við hluti af þeim straumi förumanna sem ferðast frá einum stað til annars.
Og á leið okkar gerist það stöku sinnum að við mætum sjálfum okkur. Horfum á spegilmynd okkar og skynjum þá þætti sem búa í okkur. Þar kann sitthvað að vera ólíkt því sem við hefðum talið ákjósanlegt. Sú staðreynd birtist okkur þegar við lítum á ástand jarðarinnar og íhugum þá framtíð sem bíður okkar.
En eins og segir í pistlinum: Við erum sköpuð í Guðs mynd. Handan hins ófullkomna er eitthvað varanlegt og dýrmætt. Trúin ásakar ekki, hún læknar. Hún byggir okkur upp í þeirri staðfestu að við blómstrum best og vinnum þegar við erum frjáls undan oki samviskubits og ásökunar. Þá vinnum við ljóssins verk með gleði og í þeim krafti ættum við að endurheimta þau gæði sem hafa glatast úr náttúru og mannlífi. Þannig verður hið forgengilega eilíft. Okkur til blessunar og Guði til dýrðar.