Er þetta þá komið?

Er þetta þá komið?

Í sálrænu genamengi okkar býr upprisutrú, vissa um að þrengingunum linni og að lífið verði aftur fyrirsjáanlegt með einhverjum hætti. Heimspekingar og hugsuðir keppast við að boða þá von, rétt eins og vísindamennirnir sem við leggjum allt traust á um þessar mundir. Sú trú á aftur á móti rætur sínar í heimsmynd sem byggir á hinum kristna arfi og boðskap.
Mynd
fullname - andlitsmynd Arnaldur Máni Finnsson
18. apríl 2020

I. Við og ástandið


Það má einhvernveginn ganga að því vísu að við getum ekki fullyrt neitt um það hvort við mannskepnurnar höfum nokkurntíma áður í sögunni upplifað okkur sem jafn samhangandi heild. Við erum meðvituð um ógn sem steðjar að og verður ekki sigruð með einhverju einu og altæku vopni í eitt skipti fyrir öll - eins og margir vildu vona. Varnarbaráttan við „ósýnilegan“ óvin er sameiginlegt verkefni okkar allra - þvert á þjóðir, uppruna, tungumál, kyn, aldur, stétt og stöðu.


Það getur sannarlega verið að einhverstaðar á jarðarkúlunni finnist svæði, samfélög og lífsmáti sem hefur í engu orðið fyrir áhrifum af þessu ástandi, en ég ætla samt að leyfa mér að nota orðið „við“ í stærsta mögulega samhengi; um mannskepnuna almennt - ekki bara við eins og í vesturlandabúar eða við eins og í Íslendingar; heldur við eins og í manneskjur með tilfinningar og þrár, hold og andi, líkami og sál.


Við erum undursamleg sköpun - tengslaverur sem þrífumst best í samfélagi manna; í senn huggandi og umhyggjusöm eins og foreldrar en forvitin og hvatvís, þyrst í upplýsingar og áskoranir eins og börn. Þvílíkt er það ævintýri að fá að vera til! Og þá um leið - hverju erum við ekki tilbúin til að fórna fyrir að fá að vera til, að fá að njóta, dafna - og blómstra?


Hvert mannsbarn þráir að upplifa sig öruggt, hafa fullvissu um eitthvað sem sé í hendi og þar með fyrirsjáanlega framtíð. Vanlíðanin og óttinn sem plagar svo marga sprettur af tilfinningu fyrir því að „geta búist við hverju sem er“ - virðum það því að víða í heiminum hefur fólk lifað til lengri tíma við þetta „stríðsástand“ að geta búist við hverju sem er. Þó virðast stríð samtímans jafnvel ekki jafn miskunnar- og tilgangslaus og þetta ástand: Á rúmum mánuði hafa yfir 100.000 manns látist á Vesturlöndum - Bandaríkjunum og Evrópu - og rúmlega fjórðungur þeirra á síðustu vikum í ríkasta landi í heimi. Það er meiri tollur í mannslífum talið heldur en þau stríð sem við höfum getað eða viljað fylgjast með. Og hvorki mannfallið né aðgerðir stjórnvalda og ráðamanna eru leyndarmál eða einkamál þjóða - þó einstaka þjóðarleiðtogar skynji ekki með áþreifanlegum hætti þann veruleika sem meirihluti mannkyns upplifir.

Þetta er veruleiki sem við stöndum í saman. Nátengd.


Heilbrigðar manneskjur vilja upplýsingar sem hægt er að treysta, til að sefa óttann og mesta huggunin felst mögulega í því að varpa áhyggjum af eigin ábyrgð á ástandinu yfir á forystufólk sem virðist vita hvað það sé að gera. Við hlýðum ráðleggingum þeirra. Við þráum yfirsýn, stöðugleika og jafnvægi en erum vissulega undir sömu lögmál seld og allir aðrir þegar hörmungar dynja yfir - þessi heimsendir.

Margir spá því nú þegar að viðbrögðin við faraldrinum og hinu alþjóðlega efnahags- og samfélagstjóni muni breyta hugarfari okkar til framtíðar. Við munum sem heimsbyggð og mannkyn þurfa endurmóta menningu okkar til að aðlaga hana að nýjum veruleika, sem byggir á meðvitund um ábyrgð okkar í nærsamfélaginu. Tengsl á milli upplýstra ákvarðana okkar sjálfra og velferðar annarra verða sýnilegri en fyrr. En er það nóg?


Kjarkurinn til að gera rétt


Vísindi og upplýsingagjöf hafa öðlast nýjan sess í sviðsljósi fjölmiðla, þó að á sama tíma verði að viðurkenna að aldrei hafa miðlunarmöguleikarnir verið jafn fjölbreyttir, ólíkir og opnir til túlkunar. Við getum í raun hvorki treyst því sem við sjáum, heyrum né lesum, nema vera stöðugt meðvituð um heildarmyndina. Það verður lífsnauðsyn að temja sér ákveðna vizku, innsæi og dómgreind. Það yrði stórbrotinn áfangi í mannkynssögunni ef ávöxtur þessarar guðsvoluðu pestar verður samkennd þjóða. En þó maður óski þess að heimur vaxi í vizku og náð þó yrði maður örugglega fyrir vonbrigðum ef maður ætlaði að fara treysta á það. Guð gefur manni vonandi æðruleysið sem til þarf, svo sætta megi sig við það sem maður fær ekki breytt. Það væri blessun. Smá bónus.

En um leið biðjum við um kjark til að breyta því sem við fáum breytt, jafnvel í þrengingunum miðjum.


Við biðjum um mótefni gegn sálfræðilegum og félagslegum sjúkdómum sem plaga þjóðir og samfélög, varnir gegn afskiptaleysi, sjálfhverfu og sjálfsupphafningu; við viljum í raun hvorki að græðgi né ótti stjórni lífum okkar. Við viljum elska, vona og virða og þráum að gera það sem er rétt.


Yfirstandandi ástand hefur sett okkur í ítrustu aðstæður, þar sem við gerum okkur grein fyrir því að það er í eðli okkar að líða betur þegar við gerum það sem er rétt. Það er falleg staðreynd.


Upprisa! - Er þetta þá komið? 


Í sálrænu genamengi okkar býr upprisutrú, vissa um að þrengingunum linni og að lífið verði aftur fyrirsjáanlegt með einhverjum hætti. Heimspekingar og hugsuðir keppast við að boða þá von, rétt eins og vísindamennirnir sem við leggjum allt traust á um þessar mundir. Sú trú á aftur á móti rætur sínar í heimsmynd sem byggir á hinum kristna arfi og boðskap. Lífið sigrar dauðann og betri tímar eru í nánd, ef samstaða og ábyrgð okkar heldur, í þágu gilda sem koma fleirum til góða en aðeins okkur sjálfum.

Upprisutrúin sem páskarnir kjarna í boðskap sínum um að  Jesú hafi sigrað dauðann, átt samfélag með lærisveinum sínum og fært kjark til að lifa í trú samkvæmt nýjum gildum, á erindi inn í aðstæður okkar í dag. Og trúin á betri heim, annað líf og önnur gildi, staðfestir að hugarfarsbreytingin er ekki bara möguleiki heldur nauðsynleg forsenda þess að þroskast, dafna og jafnvel blómstra á komandi tímum.

Það er ekki bara fegurð sem býr að baki þeirri hugsjón heldur sannleikur sem er hvorki leyndarmál né einkamál.

Það eru vísindi á bak við þann veruleika að trúin breytir okkur þegar hún er sönn þó hún sé leyndardómsfull í eðli sínu.

En það er ekki nóg að Kristur rísi upp - því leyndardómurinn felst í að vonin umbreyti lífum okkar.

Guð gefi þér rými til að umfaðma upprisutrúnna, því í henni felst staður lífs og fyrirheiti um að við munum taka gleði okkar í sameiningu á ný; Guðs góða sköpun, uppreistar manneskjur.