Að sigra illt með góðu

Að sigra illt með góðu

Færa má fyrir því rök að öll siðfræði, snúist um þetta andrými sem við getum skapað á milli áreitis og viðbragðs. Á því augabragði getur manneskjan spurt sig hvers konar hegðun er henni samboðin.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
04. apríl 2020

Ég játa að hegðun mín var ekki til eftirbreytni, þar sem ég stóð á gangstéttinni og steytti hnefann í átt að bifreiðinni sem fjarlægðist á miklum hraða.

 

Lét hann heyra það

 

Þetta var einn af þessum dögum þar sem úrhelli hafði breytt borginni í fenjasvæði með ótal pollum og lækjum. Daginn áður hafði hún verið mjallahvít og snjórinn dempaði öll hljóð. Nú þurfti göngufólk að stikla um á gangstígum og götum og gæta að hverju skrefi.

 

Þá sá ég hvar bíll kom aðvífandi og sá sem var við stýrið fylgdi samviskusamlega rásinni sem nagladekkin höfðu myndað í malbikið. Upp frá hliðum bifreiðarinnar stóð því myndarlegur öldufaldur og þar sem ökumaðurinn skeytti engu um bendingar mínar fékk ég gusuna yfir mig. Já, og ég sneri mér að honum og „lét hann heyra það“. Sá sem á eftir fylgdi var varkárari. Hann bæði dró úr hraðanum og beygði upp á hrygginn til að hlífa mér við vatnsaustrinum. En af svip hans að dæma hef ég greinilega verið kostulegur þarna í reiði minni og heilagri vandlætingu!

 

Áreiti og viðbragð

 

Það er ekkert annað í stöðunni en að draga af þessu lærdóm og tengja hann við stærri mál og brýnni. Það er vart við hæfi að líkja skelfilegum faraldri við svona hvunndags-hremmingar, en þó má finna sameiginlega þætti. Við fáum stundum ágjöf í lífinu og mætum við aðstæðum sem við höfum ekki sjálf kallað yfir okkur. Þá þurfum við að velja viðbrögð okkar. Stundum verða þau eins og hér var lýst. Ekkert svigrúm er gefið áður en svarað er í sömu mynt. Hugurinn fær ekkert næði að starfa og ígrunda athafnir, svo úr verður vitlaus hegðun.

 

Mikilvægustu stundir í lífi fólks og samfélaga tengjast oft raunum og mikilvægasti boðskapurinn varða slík málefni einnig. Í Fjallræðunni ávarpaði Kristur fátæka, hungraða og þyrsta, hann beindi orðum sínum til sorgmæddra og þeirra sem eru ofsóttir. Hann sagði að jafnvel í hinum verstu aðstæðum getum við unnið stóra sigra. Það er einmitt við þau skilyrði sem kemur í ljósi hvað býr í okkur og hvaða leiðarljós við eigum.

 

Krossinn miðlar sömu hugsun. Hann er áminning um að tilveran getur verið óréttlát. Og krossinn varð að sigurtákni. Ríkulega nestaðir af kærleiksboðskap Jesú, mættu vinir hans komandi áskorunum af djörfug og unnu stóra sigra. Þess vegna er hann kristnu fólki jafn dýrmætur og raun ber vitni. Hann minnir á að við getum sigrað illt með góðu.

 

Færa má fyrir því rök að öll siðfræði, snúist um þetta andrými sem við getum skapað á milli áreitis og viðbragðs. Á því augabragði getur manneskjan spurt sig hvers konar hegðun er henni samboðin. Er það mér líkt að hrópa ókvæðisorð að ókunnugu fólki? El ég á ósætti, skapa ég meiri sundrungu? Eða er ég sá eða sú sem vill græða sár og bæta þennan heim? Já, við hlaupum stundum á okkur, gerum mistök, en þá er líka mikilvægt að ná áttum og stilla sig af.

 

Að sigra illt með góðu

 

Við vitum ekki hvaða hremmingar bíða okkar á komandi vikum og mánuðum. Við vitum ekki hversu lengi verður reynt á langlundargeð einstaklinga, fjölskyldna, samfélags og hagkerfis. Vel kann að fara svo að það verði komið út yfir öll þolmörk. Þá skiptir máli að við hugleiðum það hvernig viðbrögð okkar verða. Bænin er þar mikilvægur vettvangur – þar sem við beinum huga okkar að því sem er okkur dýrmætt, því sem við viljum þakka fyrir og biðjum um æðruleysi.

 

Vonandi getum við litið til baka og skynjað að mótlætið dró fram það besta sem í fari okkar bjó. Óskandi er að við nýtum til hins ýtrasta hið dýrmæta bil sem er á milli þeirra aðstæðna sem mæta okkur í lífinu og þess hvernig við sjálf mættum þeim aðstæðum. Þá sigrum við lika illt með góðu.