Helgidómar

Helgidómar

Steinhvelfing gotneskrar dómkirkju skapar þau hughrif og það gera íslenskir fjallasalir líka. Maðurinn finnur fyrir helginni þegar hann fær að vera hluti af einhverju sem er dýpra og breiðara en tilvist hans sjálfs.

Nú mænir heimsbyggðin enn á brunasárið í hjarta borgarinnar. Byggingar geta haft tilfinningalegt gildi og Maríukirkjan í París skipar sérstakan sess.


Helgidómar


Hálf níunda öld er frá því að menn hófu að reisa þennan helgidóm. Hvaða hugmyndir sem fólk kann að hafa um fortíðina er það morgunljóst að sú menning sem skilaði af sér slíku stórvirki andans var á háu stigi. Bygging þessarar dómkirkju var afrek hvernig sem á málin er litið, hvort heldur það voru hárfínar reglur gullinsniðs með ótal vísunum í klassíska menningu, útreikningar burðarþols eða allt skipulag sem krafðist háþróaðrar hugsunar.

 

Nú vakna áleitnar spurningar. Fólk veltir því fyrir sér sem skiptir máli í lífi þess. Það rifjar upp heimsóknir sínar í gotneskar hvelfingar þessarar kirkju og finnur fyrir sjaldgæfum hughrifum þar sem líkami, andi og sál sameinast í hinum tímalausu hlutföllum fegurðar og trúar. Hið heilaga í öllum sínum tilbrigðum vitjar nútímans.

 

Þá er ótalinn sá þáttur sem okkur er mögulega mest framandi – einmitt sú ákvörðun að hefja framkvæmd verks sem yrði aldrei tilbúið fyrr en að mörgum kynslóðum síðar. Hversu magnað hefur það verið fyrir þá sem stóðu að framkvæmdinni, þessa samtímenn Sturlunga hér uppi á Íslandi, að ganga um byggingarsvæðið á Borgareyjunni í ánni Signu og hugleiða þá staðreynd að þegar ævidagar þeirra væru liðnir, væri verkið rétt nýhafið og aldir ættu eftir að líða þar til byggingin væri risin í sinni endanlegu mynd?

 

Það segir ennfremur mikið um samtíma okkar, að löngu áður en byggingin varð eldi að bráð þá lá hún undir stórfelldum skemmdum. Alls kyns vandamál blöstu við þeim sem báru ábyrgð á kirkjunni og viðhaldi hennar. Þessi forni dýrgripur vestrænnar menningar hafði staðið af sér allar hremmingar liðinna alda.

 

Þetta er ekkert einsdæmi. Síðastliðið haust brann náttúruminjasafnið í Rio de Janeiro í Brasilíu og tildrögin voru þau sömu og í París: áralöng vanræksla, lægstbjóðendur sáu um viðhald. Í stað þeirrar alúðar og umhyggju sem húsnæðið og innviðir þess verðskulduðu var kastað til höndum í hvívetna. Sú staðreynd er fólki að sönnu íhugunarefni en augljóst má vera að í heimi þar sem allt er yfirfljótandi í varningi, þjónustu og tilboðum af ýmsum toga, þar sem nýjungar spretta fram í öllum hornum skuli hið tímalausa, sígilda og ómetanlega, já hið heilaga, liggja undir skemmdum og verða eldtungum að bráð.


Stabat Mater

 

Píslarsagan sem hér var lesin, hefur verið kristnu fólki huggun og innblástur þegar það hefur horft niður í svart tómið og tekist á við eyðingaröfl tilvistar sinnar. „Og þá varð myrkur um allt land“ segir í frásögn Markúsar. Þar stóðu konurnar álengdar og fylgdust með þessum atburðum uns þær tóku sig til og bjuggu líkama hans til greftrunar. Þar á meðal var sjálf María sem kynnt er í frásögninni sem móðir Jesú og Jakobs yngri bróður hans. Þær standa hjálparvana andspænis öflum eyðileggingar eins og fólkið í París þegar eldurinn logaði í kirkjunni sem við kennd er við hina sömu Maríu. Þar er eins og náttúran hylji ásjónu sína, í því rökkri sem lagðist yfir allt, þar sem illska mannanna fékk að vaða uppi.

 

Tónlist Pergolesi, Stabat Mater, lýsir þjáningum Maríu þar sem hún leit á son sinn píndan og líflátinn. Hér mættist harkan og grimmdin og svo mýktin og umhyggjan. Um það fjallar föstudagurinn langi þar sem við erum í raun leidd fram á sjónarsvið þessara atburða. Við göngum upp á Hauskúpuhæð. Píslarsagan er áminning um illsku og grimmd. Hún eru huggun í sorg þegar við finnum sjálf myrkrið umlykja okkur. Hún er óður til hluttekningar þar sem þjáningin er ekki útskýrð eða burtskýrð heldur viðurkennd sem hluti af lífinu. Í húmi rökkurs örlar á ljósglætu vonar sem stækkar og vex allt til þess að upprisusólin bægir öllum sorta burt.


Fjallkirkjur

 

Og hér í Neskirkju veljum við þennan dag til að hugleiða, hið svarthvíta litróf lífs og tilveru. Sýning Guðmundar Ingólfssonar birtir okkur merkilega sýn á helgidóma sem eru eins tímalausir og ómetanlegir og hugsast getur. Þetta eru íslenskar fjallkirkjur, álfasteinar og grasi vaxnar menjar fornra hleðsluveggja sem teygja sig í gegnum tún og engi. Þar gægjumst við líka með listamanninum inn í tanka sem eitt sinn voru fullir af ljósmeti, sumir þeirra geymdu lýsi og aðrir svartolíu. Þar verður mikið sjónarspil þegar ljóstýran brýtur sér leið inn í myrkran geyminn og Guðmundur fangar þetta með næmni listamannsins. Þessi verðmæti héldu starfseminni gangandi, knúðu áfram bátana og vinnslusalina og launuðu vinnu þeirra sem strituðu á síldarplönum og verksmiðjum í Djúpuvík og víðar.

 

Olían er orkan sem knýr skipin áfram í sókn eftir lýsinu og öðrum afurðum hafsins. Fyrir tonn af þorski þarf tonn af svartolíu – þetta hangir allt saman. Geymarnir bera þess merki að þar voru eitt sinn verðmæti en nú er það harla fánýtt, allt.

 

Þessi tvö mótív Guðmundar, Innviðir tankanna og víðáttur náttúrunnar, verða að ákveðnu andstæðupari. Annað er óður til hins tímanlega, hins takmarkaða. Við heimsækjum horfinn heim þar sem voru uppgrip og iðandi mannlíf. Nú standa þeir tómir eins og yfirgefnir helgidómar í fornum borgum Evrópu. Og svo eru það fjöllin okkar og náttúran sem hafa staðið frá örófi í hátign sinni. Þau eru áminning til okkar um það hversu skammær maðurinn er og verk hans: „Áður en fjöllin og heimurinn urðu til, frá eilífð til eilífðar ert þú ó Guð.“ Svo orti hið forna sálmaskáld.

 

En þar sem þessir tveir heimar birtast okkur, hið innilukta og hið frjálsa og opna, hið stundlega og hið varanlega, myrkrið og ljósið, mætist á ákveðnum stað í óvissri framtíð. Hvert verður hlutskipti þeirra helgidóma sem prýða landið okkar?

 

Turnspírur fjallatinda hefja sig til himins en við vitum að hér er ekkert tryggt. Brennandi dómkirkjan í París kippir óþægilega í okkur. Hér á Íslandi vitum við líka að ekkert er öruggt og varanlegt. Heiðlöndum er sökkt undir vatn ásókn eftir takmörkuðum gæðum – já sjaldan hefur græðgin verið jafn hrá og grímulaus. Orkan er notuð til að grafast eftir rafmynt sem fæst venjulegt fólk botnar í hvernig getur skapað verðmæti en hlýtur að ganga lengra en flest annað sem vitnisburður um fánýti. Djúpuvíkur okkar tíma rísa í gagnverum þar sem æðisgenginn kappleikur fer fram um að fanga auðinn. Og náttúran borgar.

 

Andstætt þessu er helgin sem umlykur okkur í faðmi helgidóma. Steinhvelfing gotneskrar dómkirkju skapar þau hughrif og það gera íslenskir fjallasalir líka. Maðurinn finnur fyrir helginni þegar hann fær að vera hluti af einhverju sem er dýpra og breiðara en tilvist hans sjálfs. Það gerist líka þegar sorg hinnar staðföstu móður er hugleidd í orðum og tónum.

 

Föstudagurinn langi, kann að vera eitt af því sem er afskipt í menningu okkar. Það segir ekkert um inntak hans og gildi. Þessi menning hampar hinu forgengilega og sniðgengur hin sönnu verðmæti. Um það bera rúsir hinnar gömlu Maríukirkju vitni, eyðilegging náttúru og önnur helgispjöll sem unnin eru allt í kring um okkur. Píslarsagan verður ef til vill best túlkuð og metin í því ljósi – sem helgispjöll þar sem hið helga og fagra er einskis metið í valdabrölti manna.