Rótin sem við tilheyrum

Rótin sem við tilheyrum

Rótleysi, stefnuleysi og stjórnleysi getur verið spennandi. Það eru engar reglur og hver veit hvert það leiðir þig? En til langs tíma getur það skaðað manneskjuna og rótina sem í henni býr. Öll viljum við láta gott af okkur leiða og skilja eitthvað fallegt eftir í þessum heimi. Til þess þurfum við að stinga niður rótum svo að við getum vaxið, þroskast og jafnvel borið góðan ávöxt. Við tökumst á við áskoranir, gerum mistök og verðum fyrir áföllum. En ef við bregðumst rétt við er alltaf möguleiki á vexti og þroska. Eitt það mikilvægasta sem manneskjan er að eiga rót og tilheyra henni.

Kæru vinir, í dag erum við – eins og áður hefur komið fram – hér með góða gesti í kirkjunni. Já, í dag er Kirkjudagur Rangæinga og hefðinni samkvæmt bjóðum við hér í Seljakirkju Rangæinga á sérstakan hátt velkomna í kirkjuna okkar, og bjóðum til guðsþjónustu í samstarfi við Rangæingafélagið sem sett var á stofn þann 12. desember 1935. Á næsta ári verður því stórafmæli þar sem félagið mun fagna 90 ára afmæli sínu.

Dæmisagan af illu vínyrkjunum er erfið að eiga við í ljósi þess að Jesús virðist segja að þau okkar sem hafna honum og guðsríkinu munum verða kramin undir hyrningarsteini, sem er verk Drottins. Þegar glímt er við ritningartexta Biblíunnar, og sérstaklega þá sem eru af þessum toga er það mikilvægt að skoða samhengi textans og tilgang hans. Við getum tekið textanum eins og hann kemur fyrir og komist að þeirri einföldu niðurstöðu að hver sem ber ekki ávöxt Krists mun verða glataður, kraminn jafnvel. Einföld túlkun á ritningartextum getur leitt til þess að við förum í fylkingar og snúumst gegn hvert öðru. Við einblínum á það sem aðgreinir í stað þess sem sameinar. Lífið er ekki einfalt og fylgja því alls kyns áskoranir sem við þurfum að takast á við. Því getur það tekið okkur tíma að finna Jesú en hann gefur alltaf tækifæri á að koma til hans, sama hver við erum og hvaðan við komum. Ekki var Sál frá Tarsus, betur þekktur sem Páll postuli, kraminn af hyrningarsteini þegar hann gerði það að markmiði sínu að tortíma öllum þeim sem fylgdu Jesú. Stundum þurfum við tíma til að upplifa lífið, gera mistök og lenda í áföllum til þess að við þroskumst og vöxum í trú. Páll fékk sitt tækifæri og hann tók það þegar hann ákvað að breiða út fagnaðarerindið um allan heim.

En Jesús fyrirlítur hræsni. Hann fyrirlítur þau sem segjast vera í forsvari fyrir Guð en leiða fylgjendur sína af veginum til Drottins. Jesús beinir dæmisögu sinni að hræsnurum, faríseum og fræðimönnum Gyðinga. Þeim sem áttu frumburðarréttinn að guðsríki og höfðu staðnað í trú. Þeim sem jafnvel notuðu hana sér í hag til að sýnast æðri en þau sem töldust vera guðlaus. Hann varar vínyrkjanna, sem í þessu tilfelli eru yfirvöld Gyðinga, við því að ef þau halda áfram á þessum vegi að þá munu þau glatast. Þeim verður tortímt og eigandi víngarðsins mun selja öðrum vínyrkjum á leigu sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma. Rótin var orðin sýkt af græðgi, valdafíkn og hégóma sem smitaðist út í ávexti hennar. Tími var kominn til að leyfa öðrum að njóta fagnaðarerindisins, þeim fátæku og kúguðu, þeim bersyndugu og sjúku.

Hér ber að nefna að Matteusarguðspjall er ritað um árin 80-90 e.Kr og þýðir það að höfundur guðspjallsins er litaður af þeim atburðum sem áttu sér stað fyrir árið 80 e.Kr. Dæmisaga Jesú greinir frá illum vínyrkjum sem mun verða tortímt vegna gjörða þeirra. Því er ekki ósennilegt að höfundur sé að vísa í eyðingu musterisins árið 70 e.Kr. af hendi Rómaveldis. Gyðingar gerðu uppreisn árið 66. e.Kr. gegn keisaranum en Rómaveldi svaraði með fullum mætti og lagði Jerúsalem og musteri Gyðinga í rúst. Yfirvöld Gyðinga, sem vanvirtu frumburðarrétt sinnar þjóðar, höfðu einnig misst helgasta stað jarðkringlunnar. Í dag stendur aðeins einn múr eftir af musterinu og kallast hann grátmúrinn þar sem fjöldi Gyðinga kemur saman til að biðja.

Rótleysi getur verið hættulegt og jafnvel skaðlegt. Pistill þessa sunnudags fjallar í raun um það og er ekki síður erfiður texti að glíma við. Páll biður okkur um að halda líkama okkar í helgun og heiðri. Við eigum að vera heilög, læra að lifa hjúskaparlífi en æskilegast væri að vera skírlíf. Páll talar inn í grísk-rómverskt samfélag þar sem lauslæti var mikið og eðlilegt var að eiga marga bólfélaga. Samfélagið okkar er ekki svo ólíkt því grísk-rómverska að þessu leyti og er jafnvel hvatt til þess meðal ungs fólks sérstaklega að festa sig ekki niður, heldur eiga tímabil þar sem allir möguleikar eru opnir. Með ári hverju verður erfiðara að stinga niður rót þar sem grasið er ævinlega grænna hinum megin við girðinguna í formi samfélagsmiðla og stefnumótaforrita. Páll er ekki að skafa utan af hlutunum og myndi líklega vera mjög harðorður á samfélagsmiðlum um þessi málefni ef hann væri lifandi í dag.

Rótleysi, stefnuleysi og stjórnleysi getur verið spennandi. Það eru engar reglur og hver veit hvert það leiðir þig? En til langs tíma getur það skaðað manneskjuna og rótina sem í henni býr. Öll viljum við láta gott af okkur leiða og skilja eitthvað fallegt eftir í þessum heimi. Til þess þurfum við að stinga niður rótum svo að við getum vaxið, þroskast og jafnvel borið góðan ávöxt. Við tökumst á við áskoranir, gerum mistök og verðum fyrir áföllum. En ef við bregðumst rétt við er alltaf möguleiki á vexti og þroska. Eitt það mikilvægasta sem manneskjan er að eiga rót og tilheyra henni. Sum okkar erum svo heppin að eiga fleiri en eina og getum við nefnt Rangæinga sem eru hér samankomnir. Þið tilheyrið samfélagi þar sem fólk er til staðar fyrir hvert annað og er það mjög dýrmætt. Við viljum tilheyra, eiga stað þar sem okkur er tekið opnum örmum og erum ekki dæmd fyrir það sem við erum. Þar sem við fáum stuðning frá öðrum þegar áföll dynja yfir okkur. Þar sem okkur er fyrirgefið mistök okkar og tækifæri gefið að vaxa og dafna. Jesús opnar faðm sinn og býður okkur að fylgja sér og tilheyra guðsríki þar sem ávextir okkar munu blómstra. Jesús mun aldrei hafna okkur. Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.