Sálmabók

666. Að kveðja heim sem kristnum ber

1 Að kveðja heim sem kristnum ber
um kvöld og morgun lífsins er
jafn erfitt æ að læra
og engum lærðist íþrótt sú
ef ei, vor Jesú, værir þú
hjá oss með orð þitt kæra.

2 Þú dauðans þekkir beiskju best,
vor bróðir, Jesú kær, er lést
þitt líf, að dauða deyddir.
Þér manna kunnugt eðlið er
og angist sú er reynum vér
að dyrum dauðans leiddir.

3 Þá andlátstíminn að fer minn,
send ástvin kæran minn og þinn
að banabeði mínum
er um þinn sigur segi mér
og samfundanna fögnuð er
mun veitast þjónum þínum.

4 En kom og sjálfur, kom til mín,
minn kærsti vin, er ævin dvín
og seg það sálu minni
að dauði þinn er dauðabót
svo dauða rór ég taki mót
og ei til ótta finni.

5 Þá hrörnar sjónin, heyrn og mál,
mig heyra lát það innst í sál
af vinarvörum þínum
hve himnaríkið indælt er
og að þú hafir búið mér
þar vist og vinum mínum.

6 Ó, Drottinn, nær sem dauðans hönd
frá dufti mínu skilur önd,
mig lykja láttu hvörmum
sem barn við móðurbrjóst og fá
þann blund er værstan hljóta má
í þínum ástarörmum.

T Nikolaj F.S. Grundtvig 1843, 1845 – Helgi Hálfdánarson – Sb. 1886
At sige verden ret farvel
L Þýskt lag um 1504 – Nürnberg 1534 – Sb. 1589
„Kommt her zu mir” spricht Gottes Sohn
Sálmar með sama lagi 182 302 387 82
Eldra númer 423
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is