Tilraunir með ný form

20. nóvember 2020

Tilraunir með ný form

„Zoom“- messa í Langholtskirkju

Það hefur komið hér fram á kirkjan.is að guðsþjónustur hafa verið kenndar við eitt og annað. Talað er um prjónamessur, hestamessur, fornbílamessur o.s.frv. Langan og skemmtilegan lista með slíkum messunöfnum má sjá hér. Þessar guðsþjónustur eru á margan hátt hefðbundnar enda þótt ákveðnu orði sé skeytt fyrir framan þær, það gefur vissulega til kynna einhverja tengingu eða áherslu í helgihaldinu. En engu að síður er það hefðbundið að mestu ef ekki öllu leyti.

Öll vitum við að umhverfi okkar og allar athafnir höfða með einum eða öðrum hætti til tilfinninga okkar. Eins er með guðsþjónstuna og form hennar. Flest þekkjum við guðsþjónstuna þar sem setið er á bekk með sálmabók í hönd. Kór syngur, prestur fer fyrir athöfn. Fólk stendur upp, sest, o.s.frv. Ef það er altarisganga er gengið inn í kór og síðan aftur til sætis. Misjafnt er hvað hinn almenni kirkjugestur tekur mikinn þátt í athöfninni fyrir utan að rísa úr sæti og setjast aftur eftir því sem við á. Svo er ætíð umhugsunarefni hvað gerist í huga - sál og líkama í þessum aðstæðum - og hvar hver er staddur eða stödd enda þótt á kirkjubekk sitji.

Á undanförnum vikum hefur verið streymt á netinu efni frá kirkjum í margvíslegu formi en þó mjög svo hefðbundnu. Fólk hefur farið varlega í að bregða mjög út af venjulegum bæna- og helgistundum og kannski ekki tilefni til þess í sjálfu sér. Innan ramma hverrar stundar er bæn, söngur, tónlist, ritningarlestur og hugleiðing.

En kirkjufólk reynir fyrir sér með ný form. Margir íslenskir söfnuðir hafa reynt sitthvað fyrir sér í þessum efnum og sumt hefur náð að skóta rótum. Benda má á nýútkomna bók Kvennakirkjunnar, Göngum í hús Guðs, sem er handbók um helgihald og kennir þar margra grasa. Einnig má nefna nýja bók sr. Davíðs Þórs Jónssonar, Allt uns festing brestur, en kirkjan.is fjallaði um hana hér

Danir eru mjög hugmyndaríkir og hafa á undanförnum áratugum verið með alls konar tilraunir í guðsþjónustuhaldi. Eitt af þeim er tilfinningaformið. Hugsunin er sú að lækka þröskuldana í kirkjunni með því að gefa fólki tækifæri til að hreyfa sig meira í guðsþjónustunni, styrkja samfélag og nærveru; tjá sig með öllum hugsanlegum hætti og styðjast við ólík listform. Með því að mega setjast á gólfið, leggjast, teygja úr sér, dansa, syngja, mæla af munni fram o.s.frv., finnur fólk meira fyrir sjálfu sér og öðrum – svo dæmi séu tekin.

Nýlega kom út bók um þetta efni og heitir hún Mellem afbrydelse og forkyndelse- Gudstjenester til tid og sted. Það eru þau Jette Bendixen Rønkilde og Jørgen Demant sem ritstýra henni. Þetta er bók upp á rúmlega 300 blaðsíður og kirkjan.is fletti í gegnum hana. Hún er í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn rekur ólík guðsþjónustuform, lýsir þeim og reynslu þeirra er hafa haft þau um hönd. Seinni hlutinn eru fræðilegar greinar um guðsþjónustuna út frá ýmsum sjónarhornum. Það er hið ágæta danska forlag, Eksistensen, sem gefur út. Hægt er að fá bókina sem rafbók.

Djarfir Danir
Guðsþjónustan er sífellt í mótun. Danska þjóðkirkjan býður ekki upp á eitt guðsþjónustuform heldur mörg. Ný form af guðsþjónustum skapa rými fyrir lifandi trú í samfélaginu. Afhelgun samfélagsins merkir ekki að trúin sé hrakin úr húsi heldur einfaldlega að hún finni sér nýjar leiðir hjá fólkinu sjálfu. Hreyfing, söngur, dansspor, listræn tjáning í orði og æði finna sér farveg í hinu nýja formi enda er allt þetta að finna í samfélaginu sjálfu. Kristin trú er ekki innpökkuð í eitt skipti fyrir öll í lofttæmdar neysluumbúðir heldur er hún í sífelldu samtali við samtíma sinn, breytir honum og breytist sjálf eftir því sem nýr skilningur vex fram og dafnar á hinu og þessu í mannlífinu - og í fræðunum.

Bókin rekur ýmsar tegundir af guðsþjónustum sem allar eiga það sammerkt að virkja þátttakendur ýmist með því að fá þá til að hreyfa sig, syngja, sýna listræna takta, mæla af munni fram, eða beita athyglinni á stað og stund. Í þessu sambandi er talað um listaguðsþjónustur, tónlistarguðsþjónustur, tilfinningaguðsþjónustu, guðsþjónustu í lok vinnudags, ljóðaguðsþjónustu, „mindfulness“-guðsþjónustu, jógaguðsþjónustu (kross-jóga), hrekkjarvökuguðsþjónustu, líkamshlustunarguðsþjónustu og öskudagsguðsþjónustu.

Og það er ekki svo að skilja að þessar guðsþjónustur séu hugarburður á rafrænu blaði heldur hafa þær verið hafðar um hönd. Form þeirra má sjá í bókinni. Sumar þeirra hafa verið í boði í áratug eins og guðsþjónustan í lok vinnudags í Varde-sókn í Kaupmannahöfn, sú fyrsta var árið 2010 – er síðdegis á hverjum miðvikudegi frá því í maí til september. Fjörugur hluti af líkamshlustunarguðsþjónustunni er dans í kirkjunni en litið er á dansinn sem brú á milli sálar og líkama og getur komið líkamanum í „litúrgískt“ samband; að dansa með öllum líkamanum merkir og af allri sálu. Guðfræðilegar pælingar í kringum hvert form eru lifandi og áhugaverðar – mörg sjónarhorn sem eru vel þess virði að skoða.

Þessi bók ætti að vera kærkomin öllum þeim sem eru að velta fyrir sér hvernig hægt sé að endurnýja guðsþjónustuhald við hlið hins hefðbundna. Og margir söfnuðir hafa jú í einhverjum mæli hugað að því – en hér er safnbók handa þeim!

Þessar guðsþjónustur draga og til sín áhrif úr samfélaginu eins og heilsueflingu, íhugun og jóga. Mótast af því sem manneskjan hefur fyrir stafni í hversdagsleika sínum en það er vettvangur hennar og sjónarhorn til lífsins og æðri máttar. Manneskjan er í heiminum, en hún getur fundið sér heilagt rými (sacred space) í hinu veraldlega þar sem list, Biblían, helgisiðir og hið hversdagslega ná saman. Þau sem mæla fyrir fjölbreytilegra guðsþjónustuformi leggja áherslu á að hefðbundin guðsþjónusta eigi að sjálfsögðu áfram sinn sess og þessar nýjungar eigi ekki að hrófla við henni. Kappsmálið sé að hafa sem fjölbreytilegast úrval af guðsþjónustuhaldi. Nútíminn kalli á það.

Annar ritstjóra bókarinnar, Jette Bendixen Rønkilde, hefur unnið með ný guðsþjónustuform. Hún hefur rannsakað guðsþjónustuna bæði í sögu og samtíð. Jette segir ný form draga vissulega dám af því sem eldra er í kristninni eins og að kveikja á kerti, draga kross á enni með ösku eða olíu. Þau sem velta fyrir sér nýjum guðsþjónustuformum hafi mikinn áhuga á að fá fleiri til að taka þátt í helgihaldinu.

Jette spáir því að ný guðsþjónustuform eigi eftir að ná vinsældum. Hún telur að eftir því sem tíminn líði þá geti orðið til ný bænamenning og trúin komi aftur inn í hversdagslegt líf fólks. Fyrrum hafi húslestrar og bænir verið hluti af hversdagstrú fólks, rúmhelgum dögum, en nú leiti fólk inn í kirkjurnar með nýjum hætti til að efla bænalíf sitt. Það er til dæmis hreyfing, íhugun á jógadýnu fyrir framan altarið o.s.frv. Þó á ekki að breyta kirkjunum í einhverja líkamsræktarsali! Enginn þarf að óttast það. Þá muni hin hefðbundna guðsþjónusta líka halda velli, að hennar sögn.

Helgisiðalist
Margt spaklegt er sagt um þetta fyrirbæri sem guðsþjónusta er. Það er talað um formið sem list, nú Halldór Laxness sagði frá því í Dagar hjá múnkum að litúrgían væri helgisiðalist sem hann þreyttist aldrei á að kanna (bls. 47). Og listin er af þeim toga að skynjun hennar rís hið innra í manneskjunni sem og tilfinning mannsins fyrir hinu guðlega. Manneskjan mætir skapara sínum í lotningu, með því að biðja, syngja, hlusta, krjúpa, finna og smakka. Allt svið tilfinninganæmis er i raun notað.

Jógaguðsþjónustu er lýst svo: Tíu konur á ólíkum aldri liggja á jógadýnum fyrir framan altarið í Lúkasarkirkjunni í Árósum. Í bakgrunni má greina lága tóna og kveikt er á kertum á altarinu. Á gólfinu er skál með ýmsum ilmolíum sem fylla loftið af mjúkum ilmi. Konurnar gera ýmsar æfingar. Þegar þeim er lokið rís presturinn upp af jógadýnu sinni, fer í hempuna og setur á sig pípukragann. Hún les stuttan texta úr Nýja testamentinu og flytur svo hugleiðingu. Síðan fara þátttakendur í sitjandi stellingu. Presturinn fer með bæn og Faðir vor. Í lokin hreyfa konurnar sig í takt við keltneska bæn og að því búnu flytur presturinn hina drottinlegu blessun.

Síðan fer fólkið inn í safnaðarheimilið meðan presturinn afskrýðist. Boðið er upp á döðlur, hnetur og hafrakex.

Kannski er ágætt að velta vöngum yfir þessum guðsþjónustuformum í því hríðarkófi ónefnds faraldurs sem nú stendur yfir og léttir senn – öll él birtir upp um síðir.

Kristeligt Dagblad/Eksistensen/hsh


  • Frétt

  • Guðfræði

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

Sr. Stefán Már.jpg - mynd

Ályktun Presta- og djáknastefnu 2024

18. apr. 2024
...um mikilvægi barna- og unglingastarfs
Úlfastundir 5.jpg - mynd

Úlfastundir í Lágafellssókn

18. apr. 2024
...boðið upp á slátur og graut