Hvaða gagn er að þessari trú?

Hvaða gagn er að þessari trú?

Við erum auðvitað öll að glíma við sammannlegar tilfinningar og viðbrögð, eins og núna á tímum farsóttarinnar, og gengur misvel að höndla álagið. Trúin er ekkert töframeðal en hún veitir grunn sem gott er að hvíla á. Trúin nærir samvisku okkar og leiðréttir okkur þegar við verðum stygg og í orðum hrygg og hjálpar okkur að halda þeim ramma sem nauðsynlegur er fyrir góða andlega heilsu á óróleikatímum.
Mynd

Helgistund í Grensáskirkju á pálmasunnudegi

Hvað hjálpar þessi kirkjurækni? var spurt á FB síðu Grensáskirkju um daginn. Hvaða gagn er að trúnni? gætum við spurt. Til hvers erum við að þessu, biðja og lesa og hugleiða Guðs orð og birta á netmiðlum í ofanálag? Er virkilega gagn að þessu? 

Svarar hver fyrir sig. En við sem höfum gengist þessum lífsmáta á hönd, lífsmáta bænar, tilbeiðslu og biblíulegrar íhugunar, svörum játandi. Já, það er gagn að því að elska Guð í orði og verki. Það segir okkur saga kristinnar kirkju í tíma og rúmi. Kristin trú teygir sig um lönd og höf, 2000 ár aftur í tímann og jafnvel enn lengra, þar sem við byggjum á ritningum formæðra og forfeðra Jesú. Ef engin hjálp væri að trúnni væri hún liðin undir lok fyrir löngu. Um þriðjungur mannkyns tilheyrir kristinni kirkju þegar liðin eru tuttugu ár af 21. öldinni og spáð er að það hlutfall haldist áfram og vaxi jafnvel.  Væri svo ef ekkert gagn væri að trúnni okkar? 

Mín kynslóð var svo lánsöm að læra Heilræðavísur Hallgríms Péturssonar eins og kynslóðirnar á undan. Heil níu vers, ef mig misminnir ekki! Heilræðin hans Hallgríms fjalla meðal annars um að elska Guð og gera gott, vera foreldrum sínum gott og hlýðið barn, ekki þrjóskast við að læra heldur iðka menntun kæra, sýna lítillæti, leika sér hæfilega og varast hæðni, háð og spott. Góðar lífsreglur sem byggja á kristinni trú.

Tvö versanna hefur mér alltaf þótt vænst um:
Vertu dyggur, trúr og tryggur,
tungu geymdu þína,
við engan styggur né í orðum hryggur,
athuga ræðu mína. 

Og svo lokaversið:
Víst ávallt þeim vana halt:
Vinna, lesa, iðja;
umfram allt þó ætíð skalt
elska Guð og biðja. 

Þannig er gott siðferði grundvallað á traustinu til Guðs, að mati séra Hallgríms. Við erum auðvitað öll að glíma við sammannlegar tilfinningar og viðbrögð, eins og núna á tímum farsóttarinnar, og gengur misvel að höndla álagið. Trúin er ekkert töframeðal en hún veitir grunn sem gott er að hvíla á. Trúin nærir samvisku okkar og leiðréttir okkur þegar við verðum stygg og í orðum hrygg og hjálpar okkur að halda þeim ramma sem nauðsynlegur er fyrir góða andlega heilsu á óróleikatímum. 

Um þessa helgi er pálmasunnudagur. Við minnumst þess þegar Jesús kom inn í Jerúsalem, ríðandi á asna, til að mæta dauða sínum. Af Jesú getum við lært að ganga fram í hógværð, að mæta því sem að höndum ber með æðruleysi og í trausti til Guðs. Í samfélaginu við upprisinn frelsara sinn, Jesú Krist, fann fólkið í fyrstu kristnu söfnuðunum kjark, uppörvun, hlýju og samúð, eins og við heyrðum áðan í lestrinum úr Filippíbréfinu. Í samfélagi trúaðra fyrr og síðar lærum við að gera ekkert af eigingirni eða hégómagirnd, að vera lítillát og líta ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.

Þannig hjálpar þessi kirkjurækni. Þannig er gagn að því að rækta trú sína. Bæði fyrir mig – og fyrir þig – og okkur öll. Því trúin er lífsmáti sem fyllir ekki aðeins okkar eigin bikar heldur á að flæða yfir, öllu sem lifir til góðs. Svo gefi góður Guð í Jesú nafni. 

Ritningarlestur: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.