Orð

Orð

Og markmið okkar kannski það að miðla áfram okkar bestu frásögum til komandi kynslóða. Frásögum og orðum sem veita nýtt upphaf, sem veita nýja möguleika, sem reisa okkur við er við föllum, sem gera alla hluti nýja.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
25. september 2023

Með orðum er heimurinn skapaður. 

Með orðum sköpum við heiminn.  

 

Í gömlu ljóði segir að heimurinn hafi í upphafi verið skapaður með orðum.   

Í yngri texta segir: „Í upphafi var orðið,...“ 

 

Með orðum getum við komið reglu á hlutina.  

 

Með orðum huggum við hvert annað. 

Með orðum hughreystum við hvert annað. 

Með orðum hrósum við hvert öðru. 

 

Orðunum fylgir mikill máttur, kannski ofurmáttur. 

Máttur sköpunar og uppbyggingar. 

En einnig máttur eyðingar og niðurrifs.  

 

Hvernig beitum við þessum ofurmætti? 

 

Hver sem staðan okkar er í lífinu eða hvernig vegferðin hefur verið, eða hvaða erfiðleikar það eru sem við stöndum frammi fyrir núna, þá höfum við öll tækifæri til að nota orðin okkar á mildan máta. Orðin geta verið orð friðar, orð uppbyggingar, orð hjálpsemi, orð skilnings og þess að við setjum okkur í annarra spor – eða orð dómhörku, eyðingar og niðurrifs. Okkar er valið.  

 

Hvernig við beitum okkur, hvernig við horfum á lífið, björtum augum eða svartsýn, hvernig við reynumst samferðarfólkinu á hverri stundu, þar ræðst það síðan hvort okkur beri gæfa til að miðla mildi, hjálpsemi og kærleika með orðum okkar, til samferðarfólksins, eður ei. 

 

Mig langar hér að nefna mikilvægi orðanna okkar í tengslum við úrvinnslu áfalla og áfallahjálpar 

 

Ef einstaklingur hefur gengið í gegnum einhverjar ítrustu aðstæður, þ.e.a.s. kannski séð einhvern hrylling gerast, kannski hefur hann sloppið með skrekkinn úr hryllilegu slysi. Þá gerist það stundum að fólk vaknar um miðja nótt, hrekkur upp, veit kannski ekki af hverju. Af hverju er ég farinn að sofa svona illa?  

 

Það er nefnilega einhver úrvinnsla í gangi í heilanum þegar við sofum. Úrvinnsla á því sem við höfum gengið í gegnum, myndir fara í gegnum hugann, raðast á sína staði, með einhverjum hætti. En svo þegar slysið kemur upp í hugann, eða einhver annar hryllingur sem við höfum reynt, og við náum ekki utan um heildarmyndina, þá hrökkvum við gjarnan upp, því heilinn nær ekki að fullu utan um lífsreynsluna.  

 

Áfallahjálpin, fyrsta hjálpin, sem snýr að viðbragðsaðilum á vettvangi snýst oft um viðrun. Þ.e.a.s. þá kemur fólk saman sem hefur staðið í ströngu, sest kannski í hring, einhver leiðir stundina og veitir fólki tækifæri á að raða saman heildarmyndinni. Orðin sem við miðlum í slíkum hópi, veita heildarmynd. Orðin veita samhengi, orðin veita skilning. Lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningarfólk, læknar, hjúkrunarfræðingar, prestar og aðrir. Hvar varst þú þegar þetta gerðist? Og þú, og þú og þú. Hver var þinn þáttur, hvað lagðir þú að mörkum? Og allir segja sitt. Þannig fá viðbragðsaðilarnir ákveðna heildarmynd, sem hjálpar fólki að skilja og staðsetja sig og viðbrögð sín.  

 

Þegar sú heildarmynd er komin, þá skilur maður betur, sér hvernig maður hefur brugðist við, hvað hefði kannski mátt fara betur, hvað vel var gert, og svo framvegis, þá er líklegra að fólk sofi betur á nóttunni.  

 

Orðin veita skilning, samhengi, heildarmynd, frið, sátt og niðurstöðu, þau gefa sálinni ró.  

 

Eins er það með sögur.  

 

Sögur veita samhengi.  

 

Að miðla góðum sögum er eitthvað sem hefur fylgt mannlífinu alla tíð. Þetta er það sem við gerum öll, löðumst að sögum og frásögum, segjum sögur, segjum frá, tölum saman, deilum reynslu hvert með öðru, lærum af reynslu annarra, í gegnum orð og sögur.   

 

Við erum alltaf að vinna með sögur, í skólum er stöðugt unnið með frásögur, stjórnmálin byggja á frásögum, heilbrigðiskerfið á sínar frásögur, menningarlífið, atvinnulífið, tónlistin, íþróttirnar og þannig mætti áfram telja.   

 

Margir þekkja þann góða sið að lesa sögur fyrir börnin við rúmstokkinn. Þessi stund eftir eril dagsins, að setjast við rúmstokkinn og lesa skáldsögu eftir Astrid Lindgren eða Gunnar Helgason, Gerði Kristnýju eða Andra Snæ, eða hvað annað sem glæðir málþroska, málskilning og sköpunargleði, og síðast en ekki síst glæðir samfélagið á heimilinu og vináttuna í fjölskyldunni.  

 

Lífið snýst svo oft um það að miðla áfram góðum orðum, leiðbeiningum og frásögum sem við höfum lært og einnig góðum reynslusögum úr okkar eigin lífi.  

   

Þetta er eitt af sameiginlegum verkefnum okkar, það er að miðla áfram góðum frásögum. Frásögum sem draga fram mildi og kærleika, sem draga úr dómhörku og ófriði. Frásögur sem leiðbeina okkur á lífsveginum og eru sem ljósvitar í dimmviðri, miðla áfram góðri og uppbyggilegri reynslu, komandi kynslóðum til lærdóms og hjálpar.   

 

Að segja frá, segja sögur, það er eitt af því sem við gerum og markmið okkar er kannski það að miðla áfram okkar bestu frásögum til komandi kynslóða.  

 

Orðum sem veita nýtt upphaf, orðum sem veita nýja möguleika, orðum sem reisa okkur við er við föllum, orðum sem gera alla hluti nýja.  


(Þessi pistill var fluttur á Rás eitt, í þættinum Uppástand 25. september 2023. Yfirskrift þáttarins var "Orð")