Við erum hughraust

Við erum hughraust

Við erum hughraust af því að Drottinn er í nánd, af því að Guð friðarins er og mun vera með okkur. Við erum hughraust af því að dauðinn átti ekki síðasta orðið. Farsóttin á heldur ekki síðasta orðið.
Mynd

Páskaguðsþjónusta í Grensáskirkju

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Þessi forna kveðja berst ykkur úr Grensáskirkju í dag á stærstu hátíð kristinnar trúar, páskahátíðinni, með kærum kveðjum frá prestum og starfsfólki Fossvogsprestakalls.

Já, Kristur er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur, segir postulinn (Róm 8.34). Þess vegna erum við hér í dag. Þess vegna höldum við hátíð. Þess vegna merkjum við okkur upprisutákninu, krossinum, og signum okkur í nafni Guðs + föður, sonar og heilags anda. Amen. Biðjum:

Vaktu minn Jesú, vaktu í mér
vaka láttu mig eins í þér. 
Sálin vaki þá sofnar líf
sé hún ætíð í þinni hlíf. 

Ef við myndum leita uppi alla þá ritningarstaði sem segja okkur að vera óhrædd, skelfast ekki, halda ró okkar og svo framvegis yrði listinn langur. Því boðskapur Biblíunnar er í hnotskurn sá sem ungi hvítklæddi maðurinn, engillinn í páskaguðspjöllunum, flytur konunum: Skelfist eigi. Óttist ekki, segir Jesús sjálfur við Maríu Magdalenu og Maríu hina þegar þær á hlaupum frá gröfinni mættu honum upprisnum (Matt 28.9). Vertu ekki hrædd, litla hjörð (Lúk 12.32), segir Jesús við fylgjendur sína á undirbúningstímanum.

Já, látum ekki hugfallast, óttumst ekki, skelfumst hvorki né hræðumst, verum hughraust og örugg (5Mós 20.3, Jósúa 10.25 1981). Sá boðskapur er ekki úr lausu lofti gripinn. Í fullvissunni um að Guð er með okkur, alla daga, allt til enda veraldar (Matt 28.20) getum við verið hughraust. Við erum hughraust því að Drottinn, Guð þinn, fer sjálfur með þér, eins og Móse sagði við fólkið í eyðimörkinni. Hann mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig (5Mós 31.6). Þannig segir líka hjá Jesaja spámanni (35.3-4)

Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þau sem brestur kjark:
„Verið hughraust, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar.“

Við erum hughraust af því að konurnar þorðu að segja frá því sem flestum þótti ótrúlegt þá – og sumum enn: Hann er upprisinn. Við erum hughraust af því að Drottinn er í nánd, af því að Guð friðarins er og mun vera með okkur (Fil 4.5, 9). Við erum hughraust af því að dauðinn átti ekki síðasta orðið. Farsóttin á heldur ekki síðasta orðið. Því enginn og ekkert getur okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, sem er okkar upprisni frelsari (Róm 8.39).

Þess vegna segjum við, sama hvernig lífið og tilveran veltist: Gleðilega páska, gleðilega upprisuhátíð frelsarans. Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn. 

Guð vonarinnar fylli okkur öllum fögnuði og friði í trúnni svo að við séum auðug að voninni í krafti heilags anda. Friður sé með þér og þínum.