Óvissuþol og æðruleysi

Óvissuþol og æðruleysi

Vetur kemur og vetur fer. Bylgjur kófsins hafa verið nokkuð margar. Veröldin er síbreytileg. Lífsháskinn er mis nálægt okkur en aldrei alveg fjarri. Við getum þjálfað okkur í að hvíla í trausti til þess að allt muni fara vel. Við getum æft okkur í seiglu og þrautsegju þegar erfiðleikar virðast ætla að raska ró okkar. Og við megum vissulega biðja til Guðs í stóru og smáu og treysta á hjálp Guðs og nærveru í öllum aðstæðum.

Í sálminum Færðu mér ljósið segir:[i]

Auktu mér dirfsku, afl og þrótt,

ávallt sendu mér kraftinn þinnÍ

:,: út í alheims djúpa nótt.:,:

Vertu mín stoð svo verði rótt,

veginn lýstu á minni leið

:,: út í alheims djúpa nótt.:,:

Þessi sálmur er eftir þá Aðalstein Ásberg Sigurðsson og Sigurð Flosason og við þökkum fyrir þá blessun sem fylgir nýjum sálmum fyrir nýjar kynslóðir. Hér er beðið um ljós Guðs og birtu sem lýsi upp myrkrið okkar og á sú bæn einkar vel við í vetrarmyrkrinu og kófinu sem nú hefur staðið yfir í tvö löng ár. 

Bænadagur að vetri er í dag og valið á guðspjallinu tengist upphafi vetrarvertíðar sem miðuð var við kyndilmessu þann 2. febrúar, fjörutíu dögum eftir fæðingu Jesú. Þá telst veturinn hálfnaður og vertíðin hófst fyrsta virkan dag eftir kyndilmessuna. „Vetrarvertíð var mikilvægasta vertíðin í íslenska bændasamfélaginu, á veturna var minni þörf fyrir vinnuframlag í sveitum og einmitt á þeim tíma voru fiskigöngur mestar á mið við Suður- og Vesturland,“ segir á Wikipediu. 

Veturinn hálfnaður og daginn er tekið að lengja örlítið. Enn eigum við þó eftir að „þreyja þorrann og góuna“, eins og sagt var hér áður fyrr. 

Á starfsmannavef Akureyrarbæjar er dálítið skemmtilegur fréttaliður sem þau kalla Orð mánaðarins. [ii] Í þessum janúarmánuði sem nú er senn á enda var orðið þreyja valið: „Sögnin að þreyja þýðir að bíða eftir einhverju, þrauka, halda eitthvað út eða þola tímabundna erfiðleika,“ segir til útskýringar og áfram: 

Að þreyja þorrann: áður fyrr, þegar fólk bjó ekki jafn vel og nú, kalt var í húsum og matur og hey oft af skornum skammti, gátu þorrinn og góan reynst mörgum erfiðir mánuðir. Þá þurftu menn að þreyja þorrann og góuna en eftir það fór daginn að lengja verulega og styttast tók í sumarið. Síðar er farið að nota orðasambandið í yfirfærðri merkingu um að 'þola tímabundna erfiðleika'.

Óvissuþol er orð sem hefur verið notað dálítið í kófinu. Það merkir eitthvað svipað og að þreyja, að sýna úthald, seiglu, þrautsegju eða eins og það er orðað á heimasíðu Áfalla og sálfræðimiðstöðvarinnar: 

Óvissuþol er í grundvallaratriðum sú hæfni sem þarf til að komast í gegnum krísu án þess að gera illt verra. Þetta hjálpar til við að byggja upp seiglu bæði með því að samþykkja og dæma ekki á meðan gengið er í gegnum erfileikana.[iii]

Í guðspjall dagsins, úr Matteusarguðspjalli áttunda kafla, segir:

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“ Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“            Matt 8.23-27

Þarna segir frá fólki í erfiðum aðstæðum, í svo miklu illviðri að bylgjurnar gengu yfir bátinn. Stundum getur okkur liðið þannig í lífinu, eins og við séum stödd í miðjum stormi. Og í frásögn guðspjallsins sefur Jesús í öllum látunum, sallarólegur, að því er virðist. Lærisveinarnir óttast um líf sitt og rjúka til og vekja Jesú: Bjargaðu okkur! Áfram er Jesús rólegur, rís upp, hastar á vindinn og vatnið og varð stillilogn. 

Þarna sjáum við heldur betur gott óvissuþol, úthald og seglu. Krísan er til staðar, veðrið er sannarlega vont en Jesús gerir ekkert veður út af því heldur lægir öldurnar með áhrifamiklum hætti. 

Frásagan sýnir okkur ýmislegt um Jesú: 

Í fyrsta lagi er Jesús okkur fyrirmynd í því að halda ró sinni hvað sem á dynur. Svefn Jesú er mynd af innri friði, mannlega talað, að hvíla í sjálfri sér, einnig í mótlæti. 

Í öðru lagi gætum við séð og skynjað þessa sterku nærveru Guðs sem er til staðar en grípur ekki inn í aðstæður um leið og eitthvað verður erfitt. Það er mikill lærdómur í því til dæmis fyrir uppalendur: Að vera til staðar fyrir börnin okkar, stór og smá, en ekki endilega hendast til og bjarga við minnsta mótbyr. Börnin þurfa að fá að þjálfa óvissuþolið sitt, reyna aðeins á úthaldið og efla þannig með sér þolgæði og þrautsegju. Sama gildir um okkur fullorðna fólkið. Ekkert okkar óskar sér þrenginga en þegar við horfum til baka sjáum við oft hvernig ýmis konar mótlæti hefur mótað okkur og þroskað. 

Og í þriðja lagi segir þessi frásögn okkur heilmikið um það að viðurkenna vanmátt sinn og fela líf sitt handleiðslu Guðs í trausti til þess að Guð muni vel fyrir sjá. Með öðrum orðum: Guðspjallið kennir okkur að það er gagn að því að biðja, „vekja Jesú“, hrópa til Guðs í lífsháskanum miðjum. Því Guð á ráð sem hér er heldur betur áhrifaríkt: Það varð stillilogn.


Vissulega finnst okkur að við höfum oft hrópað til Guðs án þess að það verði stillilogn. Kófið er búið að móta líf okkar í tvö ár. Veturinn er samur við sig með roki og snjó og myrkri. Því verður ekki breytt. En Guð er með og hefur án efa gripið inn í aðstæður okkar miklu oftar en okkur grunar. Um það vitna frásagnir fjölda fólks. Við tökum bara ekki alltaf eftir því. 

Vetur kemur og vetur fer. Bylgjur kófsins hafa verið nokkuð margar. Veröldin er síbreytileg. Lífsháskinn er mis nálægt okkur en aldrei alveg fjarri. Við getum þjálfað okkur í að hvíla í trausti til þess að allt muni fara vel. Við getum æft okkur í seiglu og þrautsegju þegar erfiðleikar virðast ætla að raska ró okkar. Og við megum vissulega biðja til Guðs í stóru og smáu og treysta á hjálp Guðs og nærveru í öllum aðstæðum. 

„Þegar ég hrópaði bænheyrðir þú mig, þú veittir mér hugrekki og jókst mér kraft“, segir í Davíðssálmi 138. Eldri íslensk þýðing segir: „...þú veittir mér hugmóð er ég fann kraft hjá mér.“ Kraftur Guðs, lífskrafturinn sjálfur, býr innra með okkur, og bíður þess að við vöknum með Jesú og göngum í gegn um lífsháskann með Guði, í fullu trausti og æðruleysi. 

Því Guð veitir kraft hinum þreyttu og þróttlausum eykur Guð mátt. Jafnvel ungt fólk þreytist og lýjist, en þau sem vona á Drottin fá nýjan kraft, þau fljúga upp á vængjum sem ernir, þau hlaupa og lýjast ekki, þau ganga og þreytast ekki (sbr. Jes 40.25-31).

Guð er með. 

Sjá helgistund frá Grensáskirkju: https://www.facebook.com/Fossvogsprestakall/videos/1145509322932779 

[i]Texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Lag: Sigurður Flosason

[iii] Þjónusta | Áfalla og Sálfræðimiðstöðin (asm.is) undir flipanum Díalektísk atferlismeðferð (DBT).