Listaverkið

Listaverkið

Viðbrögð Jesú við hneykslunarorðum nærstaddra getum við með sama hætti tekið lengra og spurt: Hvers virði er samfélag sem gaukar ölmusu að fátækum en tekur ekki á grunnatriðum í skiptingu auðs og verðmæta? Er hún ekki ein birtingarmynd þess böls sem hvílir á heiminum? Það er sístætt verkefni okkar að vinna gegn henni. Í þeim efnum þarf líka að spyrja stórra spurninga, ögra ríkjandi gildum, setja fram staðhæfingar sem framkalla hneykslunarsvip á fólki.

Listin og trúin eiga marga snertifleti. Þannig flytjum við í helgihaldi sem þessu tónlist, ritlist og ljóðlist og styðjumst við ríkulegt myndmál.


Kirkjan og listin

 

Kristin trú mótar það á ýmsan hátt hvernig við upphugsum listaverk, túlkum þau og miðlum. Nótnakerfi tónlistar á rætur að rekja til tónlistar í kirkjum og klaustrum en allt frá upphafi hefur söngur og hljóðfæraleikur verið ríkur þáttur í helgihaldinu. Hið ritaða mál á þar líka heimilisfesti. Sálmar og trúarlegur kveðskapur eru órjúfanlegur þáttur þessarar menningar.

 

Hið sama má segja um myndlistina. Ákvæði í Mósebókum Gamla testamentisins sem leggja bann við gerð líkneskja eða mynda af sköpunarverkinu höfðu aldrei teljanleg áhrif á kristið fólk. Þvert á móti er þar um auðugan garð að gresja þegar kemur að myndmáli, allt frá veggjum í katakombum til nútímaverka sem vísa í kristnið táknmál og menningu.

 

Í dag er vígsluafmæli Neskirkju og starfið hér enduspeglar þetta. Við hlýddum áðan á kórfélaga flytja miskunnarbæn, eða Kyrie sem organisti kirkjunnar, Steingrímur Þórhallson samdi. Þá hafa margir okkar fremstu myndlistamönnum verk sín í safnaðarheimilinu hér og vekja þær sýningar að jafnaði mikla athygli.

 

Þessi gagnkvæmu kynni hafa reynst frjór jarðvegur til samtals og nýsköpunar. Það er gefandi að ræða við listafólk um þær forsendur og hugmyndir sem það hefur um þetta rými sem tilheyrir kirkjunni og ég held að þau hafi ánægju af því að heyra okkur guðfræðingana túlka verkin sín.


Hvað er list?

 

Já, hvað er annars list? Hvaða skilyrði þarf mannlegt framtak að uppfylla til að við getum gefið því slíkan sess? Stundum er einfaldleikinn að baki verkum slíkur að meðaljóninn hugsar með sér – ja þetta hefði ég nú alveg eins getað gert. Ljósmyndir af hversdaglegum fyrirbærum, neytendaumbúðir hafa tekið á sig nýjan svip, einföld form eru fest upp á vegg og fólk staldrar við og spyr hvað sé þarna á ferðinni. En á móti getum við spurt – tja af hverju gerðir þú þetta þá ekki? Af hverju eru þessi verk hér uppi á vegg?

 

Já, hvað er list?

 

Þarf listin ekki að miðla sýn sem er á einhvern hátt frumleg? Er hún ekki andstæða hins hversdagslega þess sem ekki hreyfir við okkur? Þarf hún ekki að ögra á einhvern hátt – ögra hugmyndum, gildum, siðgæði? Jafnvel hneyksla? Eða þarf hún þess ekki? Það sjáum við til að mynda í listssköpun í einræðisríkjum þar sem tjáningin er þvinguð inn í þau rör sem yfirvaldið hefur lagt. En skerpir sú staðreynd ekki á skilningi okkar? Er hún ekki undantekningin sem sannar regluna? Áhrifamesta andófið er einmitt flutt með orðfæri listarinnar, hvort heldur það eru skrif Aleksandr Solzhenitsyn eða gjörningar kvennanna í Pussy Riot.

 

Listin áreitir, dýpkar hugsun og vitund eða jafnvel breytir henni.


Listgjörningur hinnar óþekktu konu

 

Ef sú er raunin þá er sagan af konunni sem smurði olíu á höfuð Jesú, lýsing á listgjörningi. Mikil ósköp, já þá bætir hún tveimur þáttum skynjunar við það sem fyrr er nefnt. Hér er það ekki heyrnin eða sjónin heldur lyktarskynið og snertingin. Þessi smyrsl hafa ekki verið rándýr að ástæðulausu. Anganin hefur fyllt herbergið og ilmurinn hafði áhrif

 

Markús, guðspjallamaður segir okkur söguna, hér erum við stödd á þeim stað þar sem innvígðir myndu segja að dramað væri að ná hámarki. Þótt textar þessi séu lesnir á pálmasunnudegi eru aðeins tveir dagar í krossfestinguna þegar hér er komið sögu. Mildar hendur hinnar ónefndu konu fara um höfuð sem átti síðar eftir að fá á sig kórónu úr þyrnum.

 

Mjúk olían lék um herðar og bak sem áttu eftir að þola píska böðlanna. Einlægni og hlýja lýsa gjörðum hennar ólíkt kaldri grimmd og hörku þeirra sem misþyrmdu honum sér til ánægju. Þetta var síðasta skiptið sem Jesús naut slíkrar velvildar samkvæmt frásögninni.

 

Og tjáning konunnar ögraði og hneykslaði. Orð nærstaddra lýsa því vel: „Til hvers er þessi sóun á smyrslum? Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum.“ Já, þessi áburður hefur kostað heil árslaun verkafólks og við ættum svo sem ekki að fordæma þessi viðbrögð. Var þetta kornið sem fyllti mæli Júdasar? Var það í kjölfar þessara viðbragða Jesú sem hann fór til andstæðinga hans?


List sem ögrar

 

Við þekkjum það sjálf í umræðunni hvernig mælikvörðum er stillt upp. Í raun hafa flest þau verk sem fyrri kynslóðir hafa miðlað áfram til menningar mannkyns, sígild og ódauðleg, verið óskapleg sóun á verðmætum, ef farið er út í þá sálma. Skrauthallir og stórbyggingar risu meðan fátækir voru á vergangi, tónskáld skemmtu konungum meðan alþýðan svalt. Með aflátsbréfum fjármagnaði páfinn myndskreytingar í Péturskirkjunni svo dæmi séu nefnd.

 

Og mikil ósköp. Óánægjan og hneykslunin fylgja þegar hugmyndum og gildismati er ögrað. Það er einmitt einkenni á mörgum af frásögnum guðspjallanna – þar stendur Jesús gegn þeim hugmyndum sem virðast í fyrstu vera svo skynsamar og réttlátar. Því hér mætast andstæðurnar. Það er ekki bara ilmurinn og mýktin andspænis þess sem var framundan. Hér er það líka umhyggja sem krefst þess ekki að framlögin séu vegin og metin á mælikvarða skynsemi og rökhyggju.

 

Já, hér er það sjálf ástin sem mætir okkur – og tjáning hennar er án orða, án útreikninga eða skilyrða. Jesús er sá sem nýtur og þiggur og það er eins og athöfnin dragi saman í eitt þann boðskap sem hann hafði miðlað. Það er líka eins og þessi listsköpun bendi fram til þjáningar hans og dauða og miðli því áfram að allt sé það gert í nafni kærleikans. Þess vegna munum við minnast gjörða þessarar konu meðan fagnaðarerindið verður flutt um allan heim. Slíkt er mikilvægi hennar.

 

Þetta er upptakturinn að sögunni sem kristið fólk kennir við píslir. Atburðurinn fylgir honum þar sem hann gengur á milli valdhafanna, þolir dóminn, stendur frammi fyrir andlitslausum æpandi lýðnum. Kærleiksverkið gefur fórninni enn dýpri merkingu þar sem hann þolir svik og brostna vináttu á ögurstundu og hangir eins og landráðamaður og svikari fyrir allra augum meðan lífið fjarar út. Og hún kallast á við umhyggju kvennanna sem smurðu líkama hans og vitjuðu síðar grafarinnar að morgni páskadags.


Ölmusa eða nýtt samfélag?

 

Já, hefði ekki mátt selja þessi dýru smyrsl og færa fátækum? Jú, svo sannarlega. Þetta er í raun spurningin sem listin varpar til okkar. Með sama hætti gætum við rúið líf okkar og umhverfi því sem krefur okkur svara um tilvist okkar og tilgang. Við getum hent því út sem ýmist bendir á verðmæti lífs og náttúru eða neyðir okkur til að horfa niður í djúp myrkurs og þjáningar.

 

Viðbrögð Jesú við hneykslunarorðum nærstaddra getum við með sama hætti tekið lengra og spurt: Hvers virði er samfélag sem gaukar ölmusu að fátækum en tekur ekki á grunnatriðum í skiptingu auðs og verðmæta? Er hún ekki ein birtingarmynd þess böls sem hvílir á heiminum? Það er sístætt verkefni okkar að vinna gegn henni. Í þeim efnum þarf líka að spyrja stórra spurninga, ögra ríkjandi gildum, setja fram staðhæfingar sem framkalla hneykslunarsvip á fólki.

 

Listaverkið sem Biblían er, gerir einmitt þetta. Hún skilur okkur ekki eftir örugg í okkar sessi ef líf okkar gengur út á að fylgja hugsunarleysi vanans, viðhalda óbreyttu ástandi og skeyta engu um líðan þeirra sem standa höllum fæti. Slík afstaða er að sönnu ögrandi enda sýna dæmin að fólk hefur leitað þar hvatningar til að berjast gegn órétti. Sá snertiflötur trúar og listar kann að vera hinn mikilvægasti þegar á allt er litið.