Aðventan er um margt undarlegur tími hér í kirkjunni. Á þessum tíma keppist samfélagið við að gera sér glaðan dag, fólk hittir vini og vandamenn, skreytir og gæðir sér á dýrlegum krásum. Auðvitað er það gleðilegt og ekki síst að fólk skuli leita hvert til annars að yl og birtu nú þegar skammdegið grúfir yfir okkur.
Jólafasta
En hér í kirkjunni kveður við annan tón. Aðventuna köllum við líka ,,jólaföstu“ og eins og nafnið gefur til kynna er þetta tími aðhalds. Þannig er það líka með vikurnar fyrir páska. Það tímabil ber heitið langafasta enda stendur hún yfir í heilar sjö vikur. Eftir siðaskiptin þegar fólki var ekki lengur uppálagt að neyta sér um ákveðnar fæðutegundir á föstunni. Tímabil þessi fengu á sig annan blæ.
Nú átti að horfa inn á við, rýna í sálina og það sem innra með manneskjunni bjó. Þessi fjólublái tónn sem hér prýðir altarið og messuklæðin er þessu til áréttingar. Hann er samsettur úr rauðum, sem litur blóðs, fórna og heilags anda, bláum sem stendur fyrir íhugun og innri dýpt og svo gefa svartir tónar litlum ákveðna dimmu. Hann vísar til sorgar og dauða.
Þannig að við getum sagt að tónninn hér í kirkjunni sé talsvert ólíkur því sem við eigum að venjast í umhverfinu öllu. Svo má spyrja að því hvort þetta sé yfir höfuð nokkuð slæmt. Já, er þetta stílbrot eða má fremur líta svo á að hinn dökki bragur á helgihaldi aðventunnar bæti einfaldlega nýjum víddum við þetta skeið sem er svo þrungið minningum og tilfinningum.
Getum við ekki sagt að í helgihaldinu gefum við öðrum þáttum aðventunnar gaum en tíðkast á markaðstorginu? Við minnum á þá staðreynd að lífið á sér fleiri hliðar en þessar glaðlegu. Það er auðvitað ekkert að því að kætast og fagna en íhugunin og kyrrðin fær hér sinn verðskuldaða sess.
Sú var einmitt hugsinin hjá Gerði Helgadóttur sem vann steinda gluggann í hinum enda kirkjuskipsins. Í greinargerð sinni um verkið talar listakonan um að tilgangur þess hafi verið að skapa ákveðin skil á milli rýmisins hér inni í kirkjunni og svo erilsins hér fyrir utan. Með því vildi hún undirstrika að kirkjan eigi að vera griðarstaður fyrir þau sem vilja draga sig út úr skarkalanum. Gluggarnir hafa því þetta hlutverk og svo ef við rýnum í táknmyndirnar sem birtast þar getum við séð hvernig jarðtónarnir eru einkennandi fyrir neðri hluta gluggans en svo taka himnarnir við í litavalinu.
Þarna sjáum við eitt af höfundarverkum Gerðar: form sem minnir á auga. Við getum séð það líka í mósaíkverkinu hennar á Tollhúsinu. liklega sækir hún í heima dulspekinnar en Gerður hafði brennandi áhuga á þeim málum. Augað er sterkt tákn sem finna má í ýmsum trúarbrögðum og menningarheimum, minnir á hið guðlega sem fylgist með því sem fram fer meðal mannanna. Já og ber með sér yfirbragð einhvers konar himeskrar yfirsýnar.
Þórdís Erla Zoëga opnar nú sýningu sem hefur yfirskriftina, Augljós. Verkin eru afar áhugaverð. Í öllum sínum ljóma kallast þau á við sama stef og Gerður vann eftir. Sýning hennar er eitt dæmið um það þegar listamenn vinna verkin sérstaklega með hið kirkjulega rými í huga. Hún leitar einmitt innblásturs í kirkjuglugga sem, eins og hún segir sjálf: „veita innsýn/útsýn í hið óáþreifanlega og óhlutbundna.“
Já, gluggar eru merkileg fyrirbæri. Þeir marka eins konar skil á milli innanrýmisins og umhverfisins. Og þeir eru fyrir augum okkar öllum stundum. Hversu margar vökustundir sólarhringsins mænum við jú á „skjáinn“. Rannsóknir sýna að þessi þunna, gagnsæja filma hefur mikil áhrif á það hvernig við komum fram hvert við annað, í umferðinni, í samskiptum á netinu. Það er eins og glugginn skapi fjarlægð, geri samskiptin ópersónulegri og eykur líkurnar á að við sýnum framkomu sem við myndum annars ekki bjóða fólki upp á, augliti til auglitis.
Í meðförum listamannsins sýnist mér tilraun til að greina þá staðreynd að veruleiki okkar birtist aðeins í gegnum þá milliliði sem skynfærin eru. Hún talar um það í texta sýningarskrár að verkin vinni með, „sjónræna skynvillu sem hvetja áhorfandann til að skilja við það sem hann veit, líta inn á við og einbeita sér að ljósinu sjálfu og fegurðinni í því.“
Þannig leynist í yfirskriftinni, „Augljós“ svolítill orðaleikur. Eitthvað kann að liggja ljóst fyrir en um leið beina verkin ljósi að augum okkar.
Textinn í guðspjallinu, er jú dæmigerður jólaföstu-texti í kirkjunni í ljós þess sem fyrr var sagt. Einhver hafa gert sér væntingar um að þarna kæmi huggunarríkur boðskapur, gleði og innileiki, í anda stemmningar aðventunnar. Nei, hér er horft til efstu daga, hinstu tíma. Jesús dregur upp mynd af því sem tekur við þegar þessi heimur líður undir lok. Já, það er eins og hér sé verið að lýsa tilkomumiklu verki, litríku og kröftugu þar sem listamaðurinn dregur ekkert undan:
„Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast.“
Svona frásagnir í Biblíunni hafa ákveðið heiti sem sótt er í tungu forn-grikkja: Apókalyptík. Við köllum það opinberun en gætum svo sem stuðst við nafnið sem Þórdís Erla gefur sýningunni sinni: Augljós. Apó merkir að lyfta og seinni hluti orðsins vísar til slæðu eða dulu sem hvílir yfir andliti. Já, að lyfta dulunni, eða eins við getum sagt: Að koma í ljós.
Hér er máluð dýnamísk mynd af heimi sem er forgengilegur og afhjúpunin verður ákveðið uppgjör. Hið hulda verður augljóst. Við teljum líklegt að frásögnin endurspegli pólitíska atburði. Rómaveldi ríkti yfir þessu samfélagi og skömmu áður en textar þessir voru skráðir höfðu þeir brotið niður uppreisn heimamanna og lagt meðal annars musterið í rúst. Þessar hörmungar hafa því verið ferskar í huga fyrstu lesendanna.
Hinir fyrstu lesendur eru því hvattir til að sjá þá atburði í víðara samhengi, já sem tákn. Handan hins forgengilega er veruleiki sem hvorki hrörnar né deyr. Þannig verður opinberunin huggun fyrir hin aðþrengdu og kúguðu. Þetta er ekki allt. Hið illa verður um síður niðurbeygt:
„Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“
Sjálfur les ég texta sem þessa í gegnum ákveðið sjóngler getum við sagt. Það skiptir jú öllu máli hvernig við síum þann veruleika sem skynfæri okkar nema. Þeir tala jafnan til mín á jákvæðan hátt. Jú þar kemur fram sú sýn að við erum takmörkuð, breysk og á margan hátt gölluð. En Guð miðlar til okkar kærleika sínum. Boðskapurinn er sá að fyrirgefningin sé sterkari öllum dómum. Hið sama á að gilda um samskipti fólks sín á milli. Reiðihróp handan við skjái og bílrúður gefa ekki rétta mynd af mannkyni. Ég horfi í kringum mig og sé fólk sem er umlukið slíkum kærleika, sé einnig sjálfan mig í því sama ljósi.
Já, þannig lesa kristnir menn Biblíuna, allt frá fyrstu blaðsíðum hennar þegar ljósið vinnur bug á myrkrinu: ,,Verði ljós" segir í sköpunarsögunni og Þórdís Erla vísar í þau orð í undirtitli sínum. Og við erum enn í dag að brjóta heilann um eðli ljóssins, sem er ýmist bylgjur eða eindir. Já og rafeindanna sem geyma engan massa og eru því í skilningi eðlisfræðinnar, eilífar og óútreiknanlegar.
Eilífð
Við eigum ekki að leggja hendur í skaut, örvænta og missa alla von. Þetta segir Páll í erindi sínu til safnaðanna í Rómaborg sem áttu eftir að þola miklar þrengingar og ofsóknir: „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“
Og í lýsingum sínum á heimsendi – hvers eðlis sem hann verður segir Jesús þetta: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ Berið höfuðið hátt – verið upprétt og stolt. Sjálf líkamsstaðan beri þess merki hver trú ykkar er og sannfæringarkraftur.
Sá heimsendir sem hvert okkar stendur frammi fyrir verður sennilega endir heimsmyndar og heimsafstöðu sem setur hið hverfula og takmarkaða í fyrsta sæti. Í staðinn kemur veröld þar sem fólk mun hlúa að varanlegri verðmætum. Þá er gott að hugsa til þess að í gegnum aldir og árþúsund, þar sem forsendur hafa gerbreyst, heimsveldi hafa risið og hrunið, hugmyndir orðið til og horfið, þekking myndast og ný þekking tekið við – hefur boðskapur Krists lifað áfram. Hann hefur staðið af sér heimsenda og heimsupphaf. Og hann mun fylgja okkur inn í nýja og bjartari tíma. Þannig tekur hið varanlega við af því sem er forgengilegt. Og þetta segja menn líka um listina: ,,Lífið er stutt en listin er eilíf."