Kristin
kirkja hefur ávallt það að markmiði sínu að boða kærleikann sem birtist í hinum
krossfesta og upprisna Drottni Jesú Kristi. Tvöfalda kærleiksboðorðið, sem er
hverju boðorði æðra, er yfirleitt nefnt í þessu samhengi; að elska Guð af öllu
hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum, og elska náungann eins og
sjálfan þig. Boðorðið er skýrt og einfalt og dregur upp fallega mynd af kærleikanum
sem frelsarinn boðar. Kærleikurinn sem Jesús ætlast til að við sýnum okkur
sjálfum og öðrum virðist við fyrstu sýn einfaldur í orði sem og í verki.
Fljótlega kemur þó í ljós að kærleikur Krists er á stundum, allt annað en
þægilegur. Þegar Jesús talar til okkar að þá snertir hann gjarnan innsta
kjarnann sem í okkur býr. Hann stuðar okkur oft með orðum sínum og hann ætlast
til mikils af okkur. Jesús biður okkur um að elska óvini okkar, þá sem ofsækja
okkur og vilja okkur illt. Við eigum að biðja fyrir öllum, réttlátum sem og
ranglátum. Við eigum að vera miskunnsöm eins og Guð er miskunnsamur. Við erum
kölluð til að vera hjartahreinir friðflytjendur og þannig sýna heiminum, að það
eina sem stuðar syndina og illskuna er kærleikur Guðs í Jesú Kristi.
Í
stórmyndinni The Hobbit: An Unexpected Journey, sem byggð er á stórmerkilegri
skáldsögu höfundarins J.R.R. Tolkien The hobbit, biður galdramaðurinn Gandalf
hobbitann Bilbo
Baggins að ferðast
með sér ásamt þrettán dvergum til fjallsins eina til að endurheimta heimkynni
og auð dverganna frá drekanum Smaug. Á ferðalagi sínu stöðvar hópurinn í
álfaborginni Rivendell
þar sem Gandalf hitti yfirmann sinn, Saruman, og álfadrottninguna Galadriel. Eftir
umtalsverðar vangaveltur um ævintýri föruneytisins spyr drottningin:
„Af
hverju valdir þú hobbitann?“
„Ekki
veit ég það. Saruman telur að það sé aðeins mikill máttur sem getur haldið hinu
illa í skefjum, en það er ekki það sem ég hef komist að. Það eru hin litlu
hversdagsverk venjulegs fólks sem heldur myrkrinu í skefjum. Lítil góðverk og
kærleikur. Af hverju Bilbo Baggins? Kannski vegna þess að ég er hræddur og hann
gefur mér hugrekki.“
Svar
galdramannsins rímar við það sem Kristur boðar; að kærleikurinn sigrar alltaf.
Hann stuðar syndina og gerir illskuna óþægilega.
Það
er enginn máttur í þessum heimi jafn kraftmikill og kærleikurinn og notaði
Budde hann til að snerta og stuða hjarta eins valdamesta manns heims. Biskupinn
sýndi mikið hugrekki og gott fordæmi fyrir kirkjunnar þjóna sem eiga að láta í
sér heyra og standa með þeim sem undirokaðir eru, eins og Kristur gerði. Páll
postuli sagði að þó að hann talaði tungum manna og engla, hefði spádómsgáfur og
vissi alla leyndardóma, þó hann hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll
úr stað, að þá væri hann samt sem áður ekki neitt án kærleikans.
Vert
er að ljúka þessum pistli með orðum postulans en Páll ritar í Fyrra
Korintubréfi:
Kærleikurinn
er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.