Með heimsendi á heilanum

Með heimsendi á heilanum

Heimsendir þarf þó ekki endilega að merkja það að veröldin sem slík líði öll undir lok. Hann getur verið endir á einu skeiði, heimsmynd, jafnvel hugmyndaheimi þar sem ákveðnir þættir voru teknir gildir og forsendur sem áður höfðu legið til grundavallar þekkingu og afstöðu, viku fyrir öðrum forsendum.


Heimsendir virðist vera mannkyni ofarlega í huga. Fornir textar greina frá teiknum og táknum sem höfundar telja benda til þess að hinstu dagar séu í nánd. Á mínum líftíma minnist ég nokkurra tilvika þar sem fróðasta fólk taldi öll merki benda til þess að skammt væri eftir af þeirri veröld sem við þekktum.


Heimsendir í margvíslegri mynd

 

Já, í gamla daga þegar fólk spjallaði í fastlínusímann, var nærtækast að blaða í símaskránni sem var í seilingarfjarlægð. Þar á fyrstu síðum voru leiðbeiningar um rétt viðbrögð við kjarnorkuárás og hvar væri best að fela sig fyrir banvænni geislavirkninni. Svo nöturlega hversdagsleg var sú hugsun.

 

Og ekki liðu mörg ár frá lokum þess skeiðs, sem við kenndum við kalda stríðið þar til tölvufræðingar tóku að spá því að tæki heimsins myndu hætta að starfa öll sem eitt þegar aldamótaárið 2000 gengi í garð. Fyrirsjáanlega færi siðmenningin sömu leið.

 

Þetta eru þó aðeins fáein dæmi. Þegar við lesum annála liðinna alda má finna þessari hugsun víða stað – rúnuð ártöl eins og það sem fyrr er nefnt vöktu grunsemdir, sektarkennd yfir misgjörðum og óguðlegri hegðun kölluðu fra sambærilegan ugg. Tilefnin eru ærin þegar dómsdagspámenn kveða upp úrskurði sína og telja niður til loka tímans.

 

Okkar kynslóðir fá sannarlega sinn skammt af slíkum boðskap einnig.

 

Í sumar þegar ég rölti um Ægissíðuna hvarflaði hugurinn oft til þessara mála. Mér fannst ég skynja geiginn sem hefur svo oft tekið sér bólfestu í hjörtum mannanna. Þarna var veiran allt um lykjandi, setti okkur skorður og ógnaði sjálfu heilbrigðiskerfinu.

 

Og handan við flóann, á Reykjanesskaganum gaus eldfjallið, sendi spýjur út í loftið með tilheyrandi eimyrju og gufum. Í ákveðnum vindáttum lagði reykinn yfir borgina eins og þykkti mistur svo manni leið eins og persónu í distópískri framtíðarsögu.

 

Við slíkar aðstæður finnum við fyrir smæð okkar og á vissan hátt, varnarleysi. Við skynjum það líka hvað tilveran getur verið hverful. Það er mögulega þetta sem býr að baki slíkum spádómum. Með nokkurri kaldhæðni getum við sagt að ótvíræður kostur fylgi því að spá fyrir um endalok heimsins. Jú, þó það sé alltaf gaman að hafa rétt fyrir sér þá verður hitt jafnvel enn betra.


Endir heimsmyndar

 

Heimsendir þarf þó ekki endilega að merkja það að veröldin sem slík líði öll undir lok. Hann getur verið endir á einu skeiði, heimsmynd, jafnvel hugmyndaheimi þar sem ákveðnir þættir voru teknir gildir og forsendur sem áður höfðu legið til grundavallar þekkingu og afstöðu, viku fyrir öðrum forsendum.

 

Hinn þekkti vísindaheimspekingur Thomas Kuhn gerir grein fyrir slíkum umskiptum í riti sínu Vísindabyltingar, sem kom út á íslensku fyrir fáeinum árum. Hann lýsir framþróun menningar á þá leið að þar verði kúvendingar í hugsun og afstöðu. Nærtækt dæmi er þegar fólk skildi að jörðin var ekki miðja alls. Sú afstaða breytti allri sýn okkar á alheiminn og okkur sjálf. Með því getum við sagt að heimur hafi endað og nýr tekið við.

 

Við getum líka litið á efnahagshrunið sömu augum þegar verðmætamat gerbreyttist og sigurvegarar gærdagsins urðu í einni hendingu að skúrkum í augum fólks. Metoo er svo annað dæmi. Skyndilega endurmetum við einstaklinga og gjörðir þeirra og allar forsendur breytast í samskiptum fólks. Heimur breytist, svo mjög að það sem áður var – hætti að vera og annað tekur við.

 

Á þessum öðrum degi aðventu og öðrum sunnudegi nýs kirkjuárs lesum við lýsingar af miklum hamförum. Já, Þessir textar boða ákveðin endalok.


Hulunni svipt af

 

Þegar guðfræðingar vilja hljóma gáfulega tala þeir um apókalyptíska texta – sem merkir reyndar ekki annað en að þeir fjalli um hina efstu daga, uppgjörið og reikningsskilin sem eru okkur mönnum svo hugleikin. Bókstafleg merking orðsins apókalypsis er sett saman úr apo sem merkir að taka eitthvað af og kalyptein sem merkir að hylja. Það vísar til þess að lyfta höfuðfati af kolli. Þá eru opinberuð sannindi sem áður lágu í leynum.

 

Slíkir textar verða til á þrengingartímum og má skoða sem viðbragð við einhverjum hörmungum. Í mínu ungdæmi kyrjuðu þungarokkarar um tölu dýrsins 666 og ég man að við strákarnir veltum þessu mikið fyrir okkur. Talan er fengin úr einu þekktasta apókalyptíska riti Biblíunnar, Opinberun Jóhannesar þar sem and-Kristur er kynntur til leiks í ægilegum hamförum í aðdraganda dómsdags.

 

Þetta er einmitt dæmi um slíka túlkun þar sem einn helsti ofsækjandi kristinna manna, rómverski keisarinn Nero, tengdist því númeri. Bókstafir höfðu tölugildi og má reikna út þessa tölu með því að leggja saman stafina í nafni illmennisins. Framtíðarsýn verður að túlkun á nýliðnum atburðum og þeir eru settir í stærra samhengi.

 

Já fræðimenn kalla slíkt stílbragð ex eventu, svo maður haldi nú áfram að sletta fornmálunum. Þar er boðskapnum beint að samtímafólki en hann er settur fram sem eins konar spádómur.


Hrun vistkerfa

 

Þannig fá textar sem þessir margvíslegt inntak þar sem þeir beinast að áheyrendum hverrar stundar. Okkar kynslóðir þurfa ekki að leita lengi að dómsdagsspám. Ég finn til með ungu fólki sem sökkvir sér ofan í myrka framtíðarsýn þar sem því er spáð að vistkerfi jarðar hrynji. Já auðvitað eru eldri kynslóðir jafnvel enn verr settar í þeim efnum því þeirra er sökin og áminningin.

 

Við erum í raun eins og fangar í völundarhúsi. Yfir okkur dynja skammirnar, fortölurnar og áminningarnar en við getum ekki annað en lifað því lífi sem virðist leika heiminn svo grátt. Við höldum áfram að aka, fljúga, kaupa, safna, henda og eyða. Enginn máttur nær að breyta þeim ósköpum. Jú, veiruskömmin náði að hægja á vextinum á útblæstri gróðurhúsalofttegunda, en það var aðeins um stundarsakir.


Berið höfuðið hátt

 

Hvernig tala textar dagsins inn í þær aðstæður? Tákn munu verða á himni og á jörðu. Þarf frekari vitnanna við?

 

Sjálfur les ég Biblíuna aldrei sem reiðilestur og yfirlýsingu um það hversu vonlaus mannskepnan getur verið. Hún er hvorki í mínum huga né í skrifum merkra guðfræðinga fortíðar, áburður á samviskukvöl mannsins. Erindi hennar hið gagnstæða. Jú þar kemur fram sú sýn að við erum takmörkuð, breysk og á margan hátt gölluð. En náðin Guðs sem við sungum um hér í fyrsta sálmi dagsins hellist þrátt fyrir allt yfir okkur sem óverðskulduð gjöf og boðar að fyrirgefningin sé sterkari öllum dómum. Hið sama á að gilda um samskipti fólks sín á milli. Ég horfi í kringum mig og sé fólk sem er umlukið slíkum kærleika, sé einnig sjálfan mig í því sama ljósi. 

 

Við eigum ekki að leggja hendur í skaut, örvænta og missa alla von. Þetta segir Páll í erindi sínu til safnaðanna í Rómaborg sem áttu eftir að þola miklar þrengingar og ofsóknir: „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.“

 

Og í lýsingum sínum á heimsendi – hvers eðlis sem hann verður segir Jesús þetta: „En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“ Berið höfuðið hátt – verið upprétt og stolt. Sjálf líkamsstaðan beri þess merki hver trú ykkar er og sannfæringarkraftur.


Bjartsýnismennirnir


Staðreyndin er nefnilega sú að í öllum þrengingum og erfiðleikum skiptir máli hver afstaða okkar er. Frásagnir fólks sem hefur þurft að þola ægilegt mótlæti gefa okkur vegarnesti inn í slíkar aðstæður. Einstaklingar sem hafa dvalið í fangabúðum þar sem mennskan var fótum troðin lýsa því t.d. hversu miklu máli það skipti hvaða hugarfar þjáningarsystkini höfðu.

 

Bandarískur hermaður Stockdale að nafni, sem dvaldi í fangelsi í Norður Víetnam ritaði um þessa reynslu sína. Þetta var réttnefnt svarthol og gárungarnir uppnefndu það Hanoi Hilton. Engum blöðum er um það að fletta að Bandaríkjaher vann ægileg grimmdarverk gegn saklausum borgurum í þeim langa ófriði. En það breytir því ekki að meðferð þessara fanga var grimmileg samkvæmt frásögnum og margir enduðu ævina í vist kvalara sinna.

 

Stockdale þessi talaði um ,,bjartsýnismennina" í hópnum og sagði að þeir hefðu fyrstir misst móðinn. Þeir virðast hafa haft að leiðarljósi íslenska hugarfarið: „þetta reddast“ og ímyndað sér að þeir myndu fagna frelsinu fyrir einhver tímamót. Svo runnu þau upp og enn voru þeir í hlekkjum í þessum ömurlegu vistarverum. Þá tók örvæntingin við og þessir menn lifðu fæstir dvölina af.

 

En hvaða hugarfar einkenndi þá sem þraukuðu í gegnum þrengingarnar og gátu um síðir komist aftur heim til ástvina sinna? Jú það var raunsæið sagði þessi lífsreyndi hermaður. Þeir sem horfðust í augu við veruleikann í allri sinni vonsku áttu miklu meiri von en hinir. Því um leið litu þeir í eigin barm og fullvissuðu sig um að þeir sjálfir hefðu það sem til þyrfti til að halda út. Þar var trúin ómetanlegt vegarnesti. „Berið höfuðið hátt“ segir Kristur við þau sem standa í miðjum hörmungunum.

 

Og það er að sama skapi erindi okkar á tímum þar sem vistkerfinu er ógnað. Þar er lítið gagn að þeim sem skella skollaeyrum við upplýsingum sem berast úr öllum áttum. Enn minni not eru í uppgjöfinni og örvæntingunni.


Sigrar og von

 

Mikilvægast er að við séum raunsæ en lítum um leið á möguleika okkar, tækifærin sem felast í því þegar umhyggjan ræður för. Þar sem kærleikurinn til náttúru og náunga mætir þeirri takmarkalitlu þekkingu sem mannkyn býr nú yfir opnast nýjar gáttir og möguleikar. Þá getum við snúið ógæfuþróun við.

 

Það sjáum við líka á þeim sigrum sem hafa sannarlega áunnist á þessum vettvangi. Stór og smá dæmi blasa við okkur um árangur í þessum efnum. Ár og vötn sem voru menguð og nánast dauð, iða af nú lífi. Eyðimörkum er breytt í iðjagræna skóga, víða um heim. Hægt og bítandi eru þjóðir að endurheimta votlendi, vistkerfi og reyna að ná samkomulagi um að stöðva óheillaþróun. Það sem þessi lönd eiga sameiginlegt er að þar hefur tekist að útrýma fátækt og fáfræði. Þá hefur fólk svigrúm til að hlúa að umhverfinu og bæta fyrir liðnar syndir.


Fagnaðarerindið hefur lifað margan heimsendi

 

Sá heimsendir sem mannkyn stendur frammi fyrir verður öðru fremur endir heimsmyndar og heimsafstöðu sem setur hið hverfula og takmarkaða í fyrsta sæti. Í staðinn kemur veröld þar sem fólk mun hlúa að varanlegri verðmætum. Þá er gott að hugsa til þess að í gegnum aldir og árþúsund, þar sem forsendur hafa gerbreyst, heimsveldi hafa risið og hrunið, hugmyndir orðið til og horfið, þekking myndast og ný þekking tekið við – hefur boðskapur Krists lifað áfram. Hann hefur staðið af sér heimsenda og heimsupphaf. Og hann mun fylgja okkur inn í nýja og bjartari tíma.