Vaknaðu!

Vaknaðu!

Mættum við, eins og Jesús, sjá þau sem eru kreppt og ófær um að rétta sig upp af sjálfsdáðum. Mættum við hafa kjarkinn til að tala inn í þeirra líf, hvort sem er með fjárframlögum, fyrirbæn eða beinum hætti. Mættum við vera þessi Guðs útrétta hönd sem hjálpar fólki á fætur eða fyrirbyggir að það falli. Mættum við láta okkur annað fólk varða, í þolinmæði og trausti til Guðs sem styrkinn gefur.

Vaknaðu – því þú átt bara eitt líf. Með þessum orðum endar stutt myndband sem gert var í tengslum við átakið Á allra vörum sem að þessu sinni er tileinkað forvörnum gegn fíkniefnum. Í myndbandinu er sögð saga venjulegrar fjölskyldu, ungur maður á framhaldsskólaaldri, efnilegur ungur maður, sem í einhverri vitleysu, án þess að hugsa, tekur litla bláa töflu í gleðskap eftir vel heppnaðan handboltaleik og vaknar ekki morguninn eftir þegar mamma hans bankar.

Á hverju ári missum við tugi barna og ungmenna vegna misnotkunar á lyfjum og vímuefnum, segir þulurinn í myndbandinu. Tugi barna og ungmenna! Það má ekki vera satt. En því miður. Það er satt. Sum þeirra eiga þrátt fyrir ungan aldur langa sögu um neyslu. Önnur hafa enga slíka sögu en deyja fyrirvaralaust í hugsunarleysi augnabliksins. Hvort tveggja er jafn ömurlegt, jafn óskiljanlegt og sorglegt. Við verðum að efla forvarnir, svo satt svo satt. Þess vegna hringdum við kirkjuklukkunum hér í Grensáskirkju klukkan 7.15 síðastliðinn mánudagsmorgun eins og í kirkjum víða um land að beiðni biskups. Þess vegna fara samskotin okkar í dag til þessa átaks. Þess vegna ræðum við þessar hamfarir hér í dag. Við horfumst í augu við sorgina og vanmáttinn sem vitneskjan um tugi barna og ungmenna sem látast í þessari plágu samtímans vekur með okkur og finnum til með ástvinum þeirra. Og þess vegna biðjum við í dag fyrir þeim sem eru í þessum sporum, þeim sem sinna forvörnum og þeim sem sakna og syrgja.

Guðspjall dagsins talar inn í þessar aðstæður með sérstökum hætti. Við hittum hér konu sem er kreppt og alls ófær að rétta sig upp, eins og segir. Konan er kreppt. Við vitum ekki hvers vegna, bara að hún hafði verið sjúk í átján ár. Það geta verið svo margar ástæður og flestar líkamlegar. En við gætum litið svo á að hún hafi verið tilfinningalega kreppt. Eitthvað gæti hafa gerst í lífi hennar sem hefur þrengt að henni. Við könnumst við hvernig líkamsstaða okkar verður lakari þegar við erum stressuð eða áhyggjufull, ég tala nú ekki um sorgmædd. Þá verðum við oft bogin í baki, axlirnar krepptar eða uppdregnar, kannski alveg upp að eyrum, við eigum erfitt með andardrátt, höfuðið framhallandi. Stundum er eins og við lækkum um nokkra sentimetra. Erfiðleikarnir sjást utan á okkur, andlitið missir ljóma sinn, brosið fölnar.

Þannig gæti ástæðan fyrir því að konan var kreppt og alls ófær að rétta sig upp verið tilfinningalegs eðlis. Líkami og sál eru svo samtengd. Líðan okkar hefur áhrif á hvernig við berum okkur. Sorgin gerir okkur aðkreppt og í þeim aðstæðum þörfnumst við einhvers sem getur tekið í hönd okkar og gengið með okkur leiðina löngu og erfiðu. Sorgin getur verið vegna hans sem dó en líka vegna hennar sem lifir, hennar sem er í fjötrum.

Þvi við gætum líka séð í konunni manneskju sem er föst í einhvers konar neyslu, hvort sem það eru vímuefni eða ofnotkun áfengis eða lyfseðilsskyldra lyfja. Hún er alls ekki fær um að rétta sig upp sjálf. Hún þarfnast hjálpar. Best hefði verið að hún hefði aldrei komist í þessa stöðu, að henni hefði verið forðað frá fyrsta sopanum, fyrsta skammtinum sem staðreyndir sýna að getur um leið orðið sá síðasti. En þarna höfum við hana sem engar forvarnir fékk, engan boðskap um að forðast vímuna, eða hana sem tók það ekki til sín sem sagt var í góðri viðleitni til að fræða um skaðsemi vímunnar. Því miður er það svo, eins og segir í fyrri ritningarlestrinum, hjá Jesaja spámanni (30.15): En þér vilduð þetta ekki. Góða leiðin er gefin, hún er hér: „Fyrir afturhvarf og rósemi munuð þér frelsast, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera.“ En þér vilduð þetta ekki, vilduð ekki hlusta, vilduð ekki taka við heilræðum, vilduð ekki ganga góða veginn.

Bæði hún sem kreppt er af sorg og hún sem getur ekki reist sig við vegna neyslu þurfa á okkur að halda. Á sama tíma viljum við gera allt sem við getum til að forða þeim báðum frá því að lenda í þessum aðstæðum, sem fíkill og aðstandandi. Hvort tveggja er mikilvægt, að bjarga mannslífum með forvörnum, og mæta þeim sem þegar þjást vegna fíknar, eigin eða annarra.

Og þar er Guð með okkur, Guð sem bíður þess að sýna okkur náð, Guð sem rís upp til að miskunna okkur, Guð sem gefur okkur góðu leiðina, Guð bíður þess að sýna okkur kærleika sinn, Guð rís upp til að vera með okkur í öllum aðstæðum. Sæl erum við sem vonum á Guð, vegna reynslu okkar af nærveru Guðs og þrátt fyrir reynslu okkar af fjarveru Guðs þegar okkur fannst að Guð hefði getað gripið inn í. En leyndardómur þjáningarinnar er sá að Guð tekur okkur ekki út úr aðstæðunum heldur er með okkur í þeim, jafnvel þegar okkur finnst við vera yfirgefin með öllu. Guð er með, Guð mætir okkur í gráti okkar, Guð heyrir hróp okkar. Og í voninni felst vanmáttur okkar, við viðurkennum vanmáttinn og finnum vonina spíra.

Og í guðspjalli sjáum við Guð mæta krepptu konunni, henni sem hafði ekki átt neitt líf í átján ár. Í átján ár hafði hún verið sjúk á einn eða annan hátt, fjötruð eins og Jesús orðar það. Hún leitaði ekkert sérstaklega eftir Guði í þessum aðstæðum. Það var Guð í Jesú Kristi sem sá hana og kallaði hana til sín. „Kona, þú ert laus við sjúkleik þinn!“ Svo lagði hann hendur yfir hana og jafnskjótt gat hún rétt úr sér og lofaði Guð. Fjötrarnir féllu, dýrð sé Guði!

Bara að þetta væri nú alltaf svona einfalt. Bara að fjötrar mættu falla af þeim sem selja eiturefni til unglinga, bara að fjötrar mættu falla af þeim sem eru svo aðkreppt að engin leið virðist til baka. Bara að sorgarfjötrarnir mættu falla af örmagna aðstandendum lifandi og látinna fórnarlamba fíknarinnar. Bara að Guð sæi þau öll, bara að Guð kallaði í þau og legði hendur yfir þau, ástríkar hendur, fullar af umhyggju og lífi og kjarki og krafti!

En það er einmitt það sem Guð gerir: Guð býður okkur öllum að koma til sín, aftur og aftur, Guð býður okkur að þiggja rósemi og frelsi undan fjötrum, býður okkur að þiggja í þolinmæði og trausti. Þar mun styrkur okkar liggja. Ef við viljum. Og þar gefur Guð okkur kraftinn til að láta gott af okkur leiða, bæði með því að styrkja forvarnir af ýmsu tagi, starf sem miðar að því að endurheimta þau sem eru í fjötrum fíknar og þau sem finna til vegna fjölskyldumeðlima og vina, lífs og liðinna.

Mættum við, eins og Jesús, sjá þau sem eru kreppt og ófær um að rétta sig upp af sjálfsdáðum. Mættum við hafa kjarkinn til að tala inn í þeirra líf, hvort sem er með fjárframlögum, fyrirbæn eða beinum hætti. Mættum við vera þessi Guðs útrétta hönd sem hjálpar fólki á fætur eða fyrirbyggir að það falli. Mættum við láta okkur annað fólk varða, í þolinmæði og trausti til Guðs sem styrkinn gefur.