Talnalásinn, 17 - 4 - 22

Talnalásinn, 17 - 4 - 22

Það þýddi ekki að reyna neitt annað, ef ég vildi komast í gögnin, upplýsingarnar, bækurnar og þekkinguna, þá var það þessi talnaruna, sem þurfti til að skápurinn opnaðist.

Biðjum:


Þitt lífsins ljósið bjarta,
æ, lát þú, Drottinn minn,
í mínum hug og hjarta
æ hafa bústað sinn,
á friðar leið það lýsi
um lífsins sporin myrk
og réttan veg mér vísi
með von um trúarstyrk. (sálmur 691). Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

 

Púsl eða þraut

 

Stundum finnst mér eins og textar Biblíunnar séu eins og púsl eða þraut. Púsl sem ekki verður ráðið nema fleiri púslum sé raðað svo heildarmyndin sjáist. Hver er eiginlega myndin sem þetta púsl er að miðla?

 

Eða þá þraut, sem verður leyst með því að skoða textann í víðara samhengi eða þrengra samhengi, eða skoða hann í tengslum við hvernig við horfum á lífið, erum við jákvæð eða neikvæð, eða hvar við erum stödd á lífsveginum, erum við ung eða aldin, og þannig mætti áfram telja.

 

Eða textar Biblíunnar séu eins og völundarhús sem liggur að einhverjum verðmætum feng sem bíður þeirra sem ná að feta sig alla leið.

 

Talnalás

 

Þegar ég var skiptinemi í Bandaríkjunum, 17 ára gamall, í Phoenix Arizona, þá voru allir nemendur á mínum aldri, sem sagt á Senior árinu, með læstan skáp fyrir bækur og gögn sem geyma mátti í skólanum.

 

Ég hafði aldrei séð svona talnalás á þeim tíma, þrjár tölur. Skífunni þurfti að snúa fram og til baka, þrisvar sinnum, 17 – 4 – 22, og þá opnaðist lásinn. Það þýddi ekki að reyna neitt annað, ef ég vildi komast í gögnin, upplýsingarnar, bækurnar og þekkinguna, þá var það þessi talnaruna, sem þurfti til að skápurinn opnaðist.

 

Þrír textar

 

Í samhengi guðsþjónustunnar eru ávallt lesnir þrír textar. Það eru þrjú stór púsl sem við skoðum í hvert og eitt sinn. Púsl sem tengjast ekkert endilega við fyrstu sýn, púsl sem virðast stundum eins og fengin úr sitthverri myndinni.

 

Einn textinn er úr Gamla testamentinu, einn úr bréfum Nýja testamentisins og síðan einn úr guðspjöllunum. Textarnir eru allskonar, ljóð, mannlífslýsingar, hugmyndir manna um Guð og tilgang lífsins, frásagnir til dæmis af átökum og stríðum, árbækur og upptalningar, sagnfræði, grundvallarsögur, spekiorð og viskutextar, ráðleggingar, boð og bönn, ættartré og þannig mætti áfram telja. Gamla testamentið var upphaflega ritað á hebresku og hið Nýja á grísku. Þá eru textarnir þýddir á okkar ylhýra og svo er það okkar að reyna að heimfæra textana upp á okkar eigið líf, skilja hvað þeir merkja.

 

Þarna er hluti af púslunum, þ.e. tungumálið sem textarnir eru ritaðir á upphaflega, þýðingarnar, skilningur á ólíkum menningarheimum, samhengi textanna innbyrðis, uppruni þeirra og hvernig textarnir miðla upplýsingum sem tengjast einhverju öðru annarsstaðar, og þannig mætti áfram telja.

 

Púslin eru mörg í þessari mósaíkmynd. En þegar púslin hafa fundið sinn stað í huga okkar og hjarta þá geta þeir opinberað okkur stóran sannleika um lífið.

 

Sá sannleikur er iðulega mjög nálægur okkur, en á sama tíma oft hulinn.

 

Hvaða þýðingu hafa þeir fyrir okkur í dag? Skipta þeir okkur máli? Geta þeir hjálpað okkur? Lagt okkur lið í verkefnum daganna?

 

Um hvað fjalla textarnir eiginlega?

 

Nýja leið

 

Textar Biblíunnar fjalla um nýja leið til að lifa í heiminum. Leið friðar, afvopnunar, sáttagjörðar, fórnar og fyrirgefningar. Textarnir fjalla um að lífið hefur tilgang og lífið er í höndum kærleiksríks Guðs, sem er okkur nærri, og vill eiga með okkur samfylgd í lífinu, bjóða okkur samfylgd við hið góða, hér í heimi, hér og nú, ekki einhvern tímann í fortíðinni, heldur einmitt hér og nú. Núna, þegar við tökum ákvörðun um að leyfa Guði að hafa jákvæð áhrif á líf okkar, það er nefnilega líka okkar að leita Guðs. Guð hefur þegar fundið okkur, en spurning hvort við viljum opna okkur fyrir nærveru Guðs og blessun.

 

Textar dagsins

 

Jesaja spámaður vísar í texta dagsins til stórvirkis Guðs í sögunni. Hann vísar til frelsunar þjóðarinnar úr þrælahúsinu í Egyptalandi sem fjallað er um í Annarri Mósebók og segir að einmitt sá Guð hafi nú nýtt fyrir stafni. Hann hvetur lesendur sína til að Minnast hvorki hins liðna né hugleiða það sem var. Því nú vottar fyrir hinu nýja. Hann mun gera veg um eyðimörkina og fljót í auðninni.

 

Þessi texti er lesinn í samhengi páskafrásögu Jesú, er Jesús rís upp frá dauðum. Þegar við röðum þeim púslum saman þá hafa kristnir séð í orðum Jesaja, spádóm um Jesú, krossdauða og upprisu. Spádóm um þá nýju leið sem Jesús fetaði, fetar og vill að við fetum.

 

Postulinn sem ritaði Hebreabréfið talar í þeim sama anda. Hann talar um fórnarblóð Krists og það að fylgjendur hans bíði hinnar komandi borgar. Borgin er tákn skipulags, heildar og samhengis, þess sem nær utan um mannlegt líf.

 

Innan skamms

 

Svo lifum við nefnilega hér og nú. Það er ávallt þannig þegar textarnir eru lesnir og skoðaðir að eðli þeirra er slíkt að þeir geta haft áhrif á líf okkar þá og þegar, hvenær sem þeir eru lesnir.

 

Boðskapur kristninnar ögrar hinum augljósu staðreyndum lífsins um upphaf og endi lífsins.

Það er bæði humór og djúp viska í textum dagsins. Jesús segir við lærisveinar sína: Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.

 

Þetta skyldu lærisveinarnir auðvitað ekki. Við lesum textann í samhengi kirkjuársins, eftir páska, en hann er sagður í samhengi ævisögu Jesú, fyrir páska. Jesús er þarna að undirbúa lærisveina sína fyrir það sem koma skal. Þ.e. að hann muni verða tekin höndum, svívirtur, útskúfaður og tekinn af lífi. Þeir munu sökum þess verða hryggir. En Jesús segir: hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

 

Svo tekur hann þetta dásamlega dæmi að fæðingu barns í heiminn. Þessa þrengingu sem þunguð kona finnur sig í, en svo minnist hún ekki þrauta sinna þegar barnið er fætt, því maður er í heiminn borinn, eins og segir.

 

Annað dæmi er af frækorninu sem þarf að deyja til að upp af því vaxi nýtt líf, það dæmi tekur Jesús á öðrum stað í guðspjöllunum. Við sjáum það einnig í náttúrunni, þekkjum það svo af eigin reynslu.

 

Hvað er Jesús að meina með þessum orðum, innan skamms?

 

Og skilaboðin?

 

Innan skamms sjáið þið mig ekki, og aftur innan skamms munuð þið sjá mig.

 

Jú, þarna er hann að vísa til krossfestingar og upprisu. Hann er með þessum orðum að undirbúa þá fyrir það sem koma skal, hann verður tekinn af lífi, en mun sigra dauðann.

 

Hvað þýðir þetta eiginlega? Hvaða máli skiptir þetta fyrir okkur?

 

Jú, þetta skiptir nefnilega mjög miklu máli. Upprisa Jesú er staðfesting á því hvernig heimurinn er í raun og veru. Heimurinn er ekki vettvangur skorts, heldur gnægða. Heimurinn er ekki aðeins vettvangur dauða heldur lífs. Lífið á síðasta orðið, þrátt fyrir allt. Kærleikurinn á síðasta orðið, þrátt fyrir allt. Réttlæti Guðs á síðasta orðið, þrátt fyrir allt.

 

Það er stundum líkt og mannlífið sé byggt upp í kringum skort, þ.e. að það sé skortur á öllu því nauðsynlega, þess vegna sé barátta, þess vegna séu stríð. Vitanlega geta verið þannig aðstæður. Á Gaza er skortur. Á Gaza er stríð og víðar. Þar virðist það vera mannleg illska sem ræður för og þá er ekki von á góðu.

 

Heimurinn er hins vegar í eðli sínu eins og garður gnægða, þar sem nóg er fyrir alla og rúmlega það. Manninum lánast bara ekki alltaf að meðhöndla gæðin á réttlátan máta fyrir alla.

 

Og hin mikilvægustu skilaboð?

 

Ef við lítum svo upp frá hinum daglegu verkefnum okkar um skiptingu hinna veraldlegu gæða og til hins stóra samhengis þess sem Jesús boðar, þá boðar hann eilíft líf. Hann boðar sigur lífsins og kynnir nýja leið til sögunnar, nýja leið til að lifa lífinu hér í heimi.

 

Örlítið seinna í þessum sama texta, guðspjallatexta Jóhannesar, segir Jesús einmitt: Ég lifi og þér munuð lifa.

 

Það er þetta samhengi lífsins. Það er þessi boðskapur sem ögrar staðreynd dauðans, þar sem líf Jesú og upprisa er einnig ætluð okkur.

 

Það er stóra myndin sem púslin öll móta. Það er fengurinn við enda völundarhússins. Ef við leysum þrautina þá eru það skilaboðin sem blasa við, rauði þráðurinn sem alla frásögur og bækur Biblíunnar miðla.

 

Kærleikurinn sigrar að lokum og réttlæti Guðs sigrar að lokum, þrátt fyrir allt. Úr slíkum vefnaði er heimurinn ofinn.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri kveðju. Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen. 


Textar dagsins:

Jes 43.16-19

Heb 13.12-16

Jóh 16.16-23


Prédikun flutt við messu í Grensáskirkju á 3. sd. Gleðitímans, eftir páska, 11. maí 2025 kl. 11 og á hjúkrunarheimilinu Mörk sama dag kl. 14.