Sálmabók

77. Aftur að sólunni

1 Aftur að sólunni
sveigir nú heimskautið kalda,
sonurinn týndur
í átthagann girnist að halda.
Sólnanna sól,
sál vor er reikandi hjól,
snú þú oss, alfaðir alda.

2 Móðir vor jörð,
þú sem myrkrið og helkuldinn þjáir,
mun þér ei lengjast
að aftur þitt brúðarskart sjáir?
Er þá ei von,
útlægi himinsins son,
Guðs mynd og Guðs náð þú þráir?

3 Flýt þér, ó, hnöttur,
að fjörgjafa þínum að snúa,
flýt þér, ó, jörð,
þig með skínandi klæðnaði búa.
En þú, mín önd,
undir Guðs lífgandi hönd
flýt þér að tilbiðja' og trúa.

4 Áfram með sólunni –
yngjast skal veröldin kalda,
áfram til Guðs ríkis –
látum ei myrkrin oss halda.
Sólnanna sól,
sértu vort lifandi skjól.
Dýrð sé þér, alfaðir alda.

T Matthías Jochumsson, 1902 – Sb. 1945
L Stralsund 1665 – Halle 1741 – PG 1861
Lobe den Herren, den mächtigen König
Sálmar með sama lagi 470 485 517 767 771
Eldra númer 106
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is