Aldrei úrkula vonar

Aldrei úrkula vonar

Krossinn í Frúarkirkjunni hélt velli. Kirkjan heldur velli vegna þess að hún boðar trú á lifandi frelsara. Kirkjan lifir þó sótt sé að henni víða að og kristið fólk myrt með hryllilegum hætti sem nýjustu fregnir frá Sri Lanka herma. En við megum ekki láta staðar numið þar, í óhugnaði og sorg. Hatrið mun ekki sigra. Kærleikurinn mun alltaf eiga síðasta orðið. Missum aldrei sjónar af þeirri staðreynd páskanna.

Gleðilega páska. Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn!

Heyrum heilagt guðspjall páskanna með orðum Matteusar guðspjallamanns (28.1-10):

Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.
Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“

Á föstudaginn langa vorum við skilin eftir með konunum sem fylgdust með úr fjarlægð (Matt 27.55-56). Þetta voru vinkonur Jesú og eru sérstaklega nefndar María Magdalena, María móðir Jakobs og Jósefs og móðir Sebedeussonanna – þið munið, hún sem vildi koma drengjunum sínum að á besta stað við hlið Jesú í himnaríki (Matt 20.20-28)? Tvær þeirra eru nefndar aftur skömmu síðar (Matt 27.61) þar sem þær sátu gengt gröf Jesú, María Magdalena og María hin. Og nú eru þær hér komnar að gröfinni árla dags „þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar“.

Við fáum að vita hvers vegna þessar varðkonur Jesú voru komnar að gröfinni um leið og þær máttu, að hvíldardeginum liðnum. Þær komu til að „líta á gröfina“, eins og segir í íslenskri þýðingu Matteusarguðspjalls sem við lesum hér í Grensáskirkju á þessu misseri (gríska orðið er theoresai,  að skoða, íhuga). Orð Jesú um að hann myndi rísa upp á þriðja degi hafa áreiðanlega verið þeim hvatning til að fara og skoða aðstæður (Matt 16.21). Þær tvær voru sem sagt ekki úrkula vonar, höfðu ekki gefið upp alla von um að sjá vin sinn og lausnara að nýju.

Og aftur verður landskjálfti – þið munið eftir að jörðin skalf þegar Jesús dó (Matt 27.51-54)? Er nema von að jörðin skelfi þegar lausnari lífsins er deyddur? Og nú skelfur hún aftur þegar lífið sigrar dauðann, engill kemur af himnum og veltir steininum frá gröfinni. Við þessa sýn líður yfir varðmennina, ekki að furða, jarðskjálfti og engill og steini velt frá. Það líður samt ekki yfir konurnar þó jörðin skjálfi og engill komi af himnum ofan sem elding. Þetta var kannski ekki það sem þær áttu von á en samt, Jesús hafði sagt þeim að hann myndi rísa upp og auðvitað myndi hann standa við orð sín.

Jarðskjálftarnir eru sterk mynd af þeirri umbreytingu sem verður við dauða og upprisu Jesú. Þegar jörðin skelfur verður eitthvað nýtt til, grundvöllurinn gliðnar, ekkert er sem fyrr. Við hér á Íslandi þekkjum vel jarðskjálfta. Stundum eru þeir meinlausir en stundum hafa þeir í för með sér eyðileggingu og ótta, eins og til dæmis 17. júní skjálftinn árið 2000. Jarðskjálftar geta líka haft orkuveitandi umbreytingar í för með sér eins og lesa má á skilti á stórmerkilegri náttúrusýningu sem nýlega var opnuð í Perlunni:

Jarðskjálftar eru einnig mikilvægir fyrir orkuvinnslu. Þeir mynda sprungur og rennslisleiðir sem vatn getur seytlað um, tekið til sín hita á miklu dýpi og borið til yfirborðs. Í því ljósi eru jarðskjálftar náttúruverðmæti.

Mér er minnisstætt eitt sinn er ég var við altari Háteigskirkju í Taizé-messu ótiltekið fimmtudagskvöld undir lok síðustu aldar. Við höfðum fyrirbæn þar sem fólk kraup við gráturnar og allt í einu sá ég gólfið bylgjast eins og af snertingu heilags anda. Það var mjög áhrifaríkt og ógleymanlegt okkur sem þarna vorum saman í bæn. Þá var sem himinn snerti jörð þó hræringin ætti sér áreiðanlega jarðfræðilegar skýringar. Rennslisleiðin milli himins og jarðar stóð opin.

---

En getum við  raunverulega sett okkur í spor þeirra sem þarna voru að morgni upprisudagsins? Við sem tengjum páska mest við páskaegg, falleg blóm og glaðværa tónlist gleymum því kannski hvað þetta hefur verið gríðarleg lífsreynsla, lífsbreytandi reynsla, fyrir þau sem þarna voru viðstödd. Þó konurnar hafi komið til að vita hvort eitthvað gerðist að morgni þriðja dagsins frá dauða Jesú hafa þær ekki verið viðbúnar slíkum atburðum. En engillinn segir þeim að óttast ekki, Jesús sé upp risinn eins og hann sagði, býður þeim að sjá staðinn þar sem hann lá og gefur þeim síðan fyrirmæli um framhaldið.

Konurnar flýta sér af stað „með ótta og mikilli gleði“ til að flytja hinum lærisveinunum fréttirnar. Þá verða þær enn fyrir undrum og stórmerkjum þegar þær hitta Jesú sjálfan á leiðinni:

Allt í einu kemur Jesús á móti þeim og segir: „Heilar þið!“ En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans. Þá segir Jesús við þær: „Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum og systrum að halda til Galíleu. Þar munu þau sjá mig.“

Jesús staðfestir þarna orð engilsins um að þau skyldu fara til Galíleu sem við heyrum um síðar í sama kafla guðspjallsins. Tökum eftir viðbrögðum kvennanna, þær féllu fram og föðmuðu fætur hans í gleði og ótta. Þær eru fyrstu vitnin að upprisu Jesú og fyrstu tilbiðjendur hans. Síðan hefur tilbeiðslan verið óslitin, í meira en tvöþúsund ár, 70 kynslóðir hefur einhver reiknað út.

Lífsbreytandi máttur Guðs er að verki þann dag í dag. Þess vegna erum við hér. Þess vegna skiptir það máli að hafa kirkjur og söfnuði og samfélag trúaðra. Jesús Kristur lifir og á við okkur erindi. Við fylgdumst mörg sorgmædd með þeim hörmulega atburði sem varð í síðustu viku þegar eldur varð laus í Vor frúar kirkjunni í París, Notre Dame, sem Frökkum í öllu sínu opinbera guðleysi þykir svo óendanlega vænt um og okkur mörgum líka hér á Fróni.

Eitt er táknrænt við þennan bruna. Stóri gullkrossinn fyrir ofan háaltari dómkirkjunnar stendur enn óskemmdur þó þakið og margt annað hafi brunnið. Gylltur krossinn stendur upp úr öllu sótinu og brakinu, tómi krossinn sem er talandi tákn um sigur Krists yfir dauðanum. Krossinn í Frúarkirkjunni hélt velli. Kirkjan heldur velli vegna þess að hún boðar trú á lifandi frelsara. Kirkjan lifir þó sótt sé að henni víða að og kristið fólk myrt með hryllilegum hætti sem nýjustu fregnir frá Sri Lanka herma. En við megum ekki láta staðar numið þar, í óhugnaði og sorg. Hatrið mun ekki sigra. Kærleikurinn mun alltaf eiga síðasta orðið. Missum aldrei sjónar af þeirri staðreynd páskanna. 

Upprisufrásagan er fyrst og fremst vitnisburður um ást Guðs. Guð skilur Jesú ekki eftir í gröfinni. Guð skilur okkur ekki eftir í vonleysi og dauða. Guð tekur okkur að sér og gerir alla hluti nýja. Enginn steinn fær haldið Jesú í gröfinni. Lífgefandi kraftur og kærleikur Guðs sýnir sig í jarðskjálfta og engilseldingu sem enginn mannlegur máttur fær stöðvað. Og Jesús segir okkur sjálfur að við þurfum ekkert að óttast. Guð sem lætur jörðina skelfa við upprisukraftinn er Guð sem hefur framtíð okkar í hendi sér, Guð sem hefur lofað að hitta okkur og vera með okkur, allt til enda veraldar (Matt 28.20). 

Á páskadagsmorgun erum við minnt á að við tilheyrum lifandi frelsara, Jesú Kristi sem gaf líf sitt fyrir þig og fyrir mig, Jesú sem lifir og mun lifa og við með honum. Því erum við aldrei úrkula vonar. 

Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn.